Tilkynning frá OMX | 18.5.

FAST-1 slhf . - Kaupsamningur um sölu á öllu eignasafni FAST-1 slhf. undirritaður

Þann 19. nóvember 2017 undirrituðu FAST-1 slhf. og Reginn hf. samning um
einkaviðræður og helstu forsendur og skilmála kaupsamnings varðandi kaup hins
síðarnefnda á öllu hlutafé í dótturfélögum FAST-1; HTO ehf. og FAST-2 ehf.
Fjárfestingareignir HTO eru Borgartún 8-16 og Höfðatorgsturninn við Katrínartún
2, en fjárfestingareignir FAST-2 eru Skúlagata 21, Skútuvogur 1 og Vegmúli 3. Um
er að ræða allt fasteignasafn FAST-1, sem samanstendur af hágæða eignum en
eignasafnið er að 98% í langtímaleigu til traustra aðila. Meðal stærstu
leigutaka eru Reykjavíkurborg, Fjársýsla ríkisins, Reiknistofa bankanna og
Fjármálaeftirlitið en um 57% tekna koma frá opinberum aðilum. Var samningurinn
gerður í kjölfar opins söluferlis sem hófst þann 4. október 2017, en í
söluferlinu var mikill áhugi á eignasafninu og bárust FAST-1 sex tilboð í
eignirnar.

Frá undirritun framangreinds skilmálaskjals hafa FAST-1 og Reginn unnið að gerð
áreiðanleikakannana og útfærslu viðskiptanna. Grundvallað á þeim hafa aðilar nú
undirritað kaupsamning í tengslum við viðskiptin, en gerður er fyrirvari um
samþykki Samkeppniseftirlitsins og samþykki hluthafafundar FAST-1, auk annarra
hefðbundinna skilyrða. Með hliðsjón af niðurstöðum áreiðanleikakönnunar hafa
aðilar náð samkomulagi um að heildarvirði hins selda taki breytingum úr áður
tilkynntum 23,2 milljörðum króna og nemi nú rúmum 22,7 milljörðum króna.

Verði af viðskiptunum mun skuldabréfaflokkur FAST-1, FAST-1 12 1 verða greiddur
upp að fullu í samræmi við skilmála skuldabréfsins. Nánari upplýsingar um
framkvæmd uppgreiðslu skuldabréfaflokksins verða birtar við lúkningu
viðskiptanna.

FAST-1 er í eigu lífeyrissjóða, tryggingafélaga og annarra fagfjárfesta. Á meðal
stærstu hluthafa FAST-1 eru Gildi-lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður starfsmanna
ríkisins og Lífeyrissjóður verzlunarmanna með tæplega 20% hlut hver, Festa
lífeyrissjóður með tæplega 10% hlut og Almenni lífeyrissjóðurinn með tæplega 7%
hlut.

Félagið er í stýringu hjá Íslandssjóðum og Contra. Fyrirtækjaráðgjöf
Íslandsbanka og Landslög veita FAST-1 ráðgjöf í tengslum við söluferlið.

Nánari upplýsingar veita:

 * Kjartan Smári Höskuldsson, stjórnarformaður FAST-1 slhf. í gegnum netfangið
 kjartan@islandssjodir.is eða símanúmerið 844 2950.
 * Gísli Reynisson, framkvæmdastjóri FAST-1 slhf. í gegnum netfangið
 gisli@contra.is eða símanúmerið 856 5111.
This announcement is distributed by Nasdaq Corporate Solutions on behalf of Nasdaq Corporate Solutions clients.
The issuer of this announcement warrants that they are solely responsible for the content, accuracy and originality of the information contained therein.
 
Source: FAST-1 slhf. via GlobeNewswire