c

Pistlar:

23. maí 2014 kl. 9:42

Bjarni Már Gylfason (bjarnigylfason.blog.is)

Tímamót kalla á breytt skipulag efnahagsstarfseminnar

Efnahagsþróun síðustu missera hefur um margt verið jákvæð ef horft er til hversu djúpa kreppu íslenska efnahagslífið gekk í gegnum á árunum 2008 og 2009. Hagvöxtur í fyrra var sá mesti meðal iðnvæddra þjóða eða 3,3%, atvinnuleysi hélt áfram að minnka og um leið fjölgar fólki á vinnumarkaði. Gengi krónunnar hefur haldist nokkuð stöðugt, verðbólga fór að markmiði og nokkuð hefur dregið úr snjóhengjuvandanum þótt höft sé enn til staðar. Almennt eru hagvaxtarhorfur taldar góðar næstu tvö árin en hagkerfið stendur hins vegar frammi fyrir krefjandi áskorunum ef viðhalda á góðum vexti.

Þar sem slaki var í hagkerfinu og vannýtt afkastageta í mörgum fyrirtækjum landsins var auðveldara en ella fyrir fyrirtæki að vaxa. En smám er að draga úr  slakanum og spenna fer að myndast, t.d. á vinnumarkaði. Það þýðir að hagvöxtur og verðmætasköpun verður að byggja á öðrum þáttum en nýtingu ónýttra framleiðsluþátta.

Eina sjálfbæra leiðin til að viðhalda heilbrigðum hagvexti í hagkerfi sem liggur nærri fullri nýtingu framleiðsluþátta er að huga að skipulagi efnahagsstarfseminnar í viðtækum skilningi þess orðs. Með öðrum orðum þurfum við að auka framleiðni okkar – að skapa aðstæður þar sem hver vinnandi maður skapar meiri framleiðslu- eða þjónustuverðmæti í dag en í gær.

Íslendingar eru fámenn þjóð sem býr við takmarkaðar náttúruauðlindir. Þess vegna þarf vöxturinn að byggja á betri nýtingu á vinnutímanum. Á þessu sviði erum við í dauðafæri enda er framleiðni hér á landi á hverja unna vinnustund undir meðaltali OECD-ríkja en við vegum upp á móti þessu með löngum vinnutíma. Svigrúmið til umbóta er því mikið. Vöxtur í náinni framtíð verður að byggjast á betri nýtingu hráefna, lágmörkun birgða, skilvirkum flutningum, nýtingu nýrrar tækni, betri menntun og skynsamri stjórnsýslu svo dæmi séu tekin.

Nú þegar framleiðslustig hagkerfisins nálgast hámark áranna fyrir hrun erum við í dauðafæri að gera hlutina rétt og byggja hagvöxt til framtíðar á heilbrigðum forsendum sem grundvallast af aukinni framleiðni.

Bjarni Már Gylfason

Bjarni Már Gylfason

Bjarni Már Gylfason er hagfræðingur að mennt og starfar hjá RioTinto í Straumsvík. Hann var hagfræðingur Samtaka iðnaðarins á árunum 2005-2017. Kenndi áður hagfræði og skyldar greinar við Verzlunarskóla Íslands 2000-2005 og var blaðamaður á Viðskiptablaðinu frá 1998-2000.

Meira