c

Pistlar:

15. apríl 2016 kl. 13:29

Pistlar um endurskoðun

Af örfélögum og öðrum

Unnar Friðik Pálsson KPMGÍ janúar lagði iðnaðar- og viðskiptaráðherra fram frumvarp til breytinga á lögum um ársreikninga. Markmið þess er hvort tveggja endurskoðun regluverks með tilliti til einföldunar og innleiðing nýrrar ársreikningatilskipunar Evrópusambandsins. Undirritaður var í vinnuhópi sem ráðuneytið skipaði en hópurinn samanstóð af fulltrúum frá Ársreikningaskrá, Fjármálaeftirlitinu, Félagi löggiltra endurskoðenda og Félagi bókhaldshaldsstofa ásamt starfsmönnum ráðuneytisins.

Fyrstu umræðu er lokið á Alþingi og er frumvarpið nú hjá Efnahags- og viðskiptanefnd. Nefndin óskaði á dögunum eftir umsögnum um frumvarpið og bárust 13 erindi. Hér verður í mjög stuttu máli fjallað um örfá atriði frumvarpsins. Frumvarpið og umsagnir um það má finna á vef Alþingis.

Flokkun félaga

Í frumvarpinu kemur fram ný stærðarflokkun félaga í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar. Flokkunin skiptir máli því ríkari kröfur eru gerðar til stærri félaga en minni. Félög eru flokkuð í lítil félög, meðalstór og stór. Ársreikningar skulu að lágmarki hafa að geyma efnahagsreikning, rekstrarreikning og skýringar. Ekki verður heimilt að krefjast þess að ársreikningar lítilla félaga innihaldi önnur fjárhagsyfirlit. Langflest íslensk félög teljast lítil félög. Þau munu því í framtíðinni ekki þurfa að semja sjóðstreymisyfirlit.

Einfaldanir fyrir örfélög

Samkvæmt frumvarpinu munu um 80% félaga hér á landi teljast örfélög. Félag telst örfélag fari það ekki fram úr tveimur af þremur viðmiðum, en þau eru 20 milljóna króna efnahagsreikningur, hrein velta 40 milljónir króna á ári og meðalfjöldi ársverka þrjú. Þessum félögum verður, með ákveðnum undantekningum, gert kleift að skila einfaldri útgáfu ársreiknings til ársreikningaskrár, byggðum á skattframtali. Þannig verður við rafræn skil á framtali hægt að samþykkja að tilteknar fjárhæðir úr framtalinu verði sendar ársreikningaskrá sem fullgildur ársreikningur. Hann þarf hvorki að endurskoða né yfirfara af skoðunarmanni. Viðmiðunarmörkin samkvæmt frumvarpinu eru lægri en þau eru samkvæmt tilskipun ESB. Ísland er ekki eina landið sem miðar við lægri mörk en viðmið tilskipunarinnar, en þá teldust líklega um 90% íslenskra félaga til örfélaga. Fram komu athugasemdir við þetta í innsendum erindum, til dæmis í umsögn Viðskiptaráðs sem telur að miða ætti við stærðarmörk örfélaga í tilskipuninni og þykir skorta rökstuðning fyrir því að miða við lægri mörk.

Þróunarkostnaður, viðskiptavild og hlutdeild í afkomu

Samkvæmt frumvarpinu verður öllum félögum heimilt, að uppfylltum tilteknum skilyrðum, að færa til eignar óefnislegar eignir. Þegar um þróunarkostnað er að ræða skal færa sömu fjárhæð af óráðstöfuðu eigin fé á sérstakan lið meðal eigin fjár sem óheimilt er að úthluta sem arði. Þann lið skal leysa upp til jafns við fjárhæð árlegrar afskriftar eignfærðs þróunarkostnaðar, sem og ef eignin er seld eða tekin úr notkun. Þá verður sú breyting á samkvæmt frumvarpinu að viðskiptavild skal ávallt afskrifuð á tíu árum. Fram kom ábending um að rétt væri að veita svigrúm og heimila félögum að afskrifa hana hraðar sé nýtingartími hennar talinn vera styttri en tíu ár.

Í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar skal hlutdeild í afkomu dóttur- og hlutdeildarfélaga færð á bundinn hlutdeildarreikning meðal eigin fjár að svo miklu leyti sem hlutdeildin er umfram móttekinn arð eða þann arð sem ákveðið hefur verið að úthluta. Þessi breyting mun því hafa áhrif á arðgreiðslumöguleika.

Athugasemdir við frumvarpið

Eins og áður greinir bárust efnahags- og viðskiptanefnd 13 umsagnir um frumvarpið. Þar koma fram ýmsar ábendingar og athugasemdir sem taka þarf afstöðu til og ekki hafa verið tíundaðar hér. Því ber að fagna að haghafar sýni málinu áhuga enda eru lög um ársreikninga mikilvæg viðskiptalífinu.

Unnar Friðrik Pálsson, löggiltur endurskoðandi hjá KPMG og aðjunkt í reikningshaldi við Háskólann í Reykjavík

Pistlar um endurskoðun

Pistlar um endurskoðun

Vikulega birtast pistlar í Viðskiptamogganum um endurskoðun og reikningshald í samvinnu við Félag löggiltra endurskoðenda. Þeir birtast jafnframt hér á vefnum.

Meira