c

Pistlar:

29. apríl 2016 kl. 15:41

Pistlar um endurskoðun

Mikilvægismörk við gerð ársreikninga


Árni V. ClaessenOft er erfitt fyrir lesendur ársreikninga að átta sig á því hvaða upplýsingar í ársreikningum eru mikilvægar og hvaða upplýsingar skipta minna máli. Sérstaklega á þetta við um ársreikninga sem gerðir eru í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Í þessu samhengi skiptir miklu máli hvernig hugtakið „mikilvægi“ er notað við gerð ársreiknings. Mikilvægisreglan er ein af meginreglum reikningsskila en samkvæmt þeirri reglu teljast upplýsingar í ársreikningi mikilvægar ef þær gætu haft áhrif á ákvörðun sem notendur ársreiknings taka á grundvelli ársreikningsins. Óviðeigandi skilgreining á mikilvægi við gerð ársreiknings getur valdið því að mikilvægar upplýsingar týnist innan um upplýsingar sem litlu máli skipta eða að mikilvægar upplýsingar séu undanskildar í ársreikningi.

Það flækir málin að ákvarðanir um hvað teljast mikilvægar upplýsingar byggjast fyrst og fremst á dómgreind. Um leið verður líka talsverð hætta á væntingabili milli stjórnenda, endurskoðenda, eftirlitsaðila og annarra lesenda ársreikningsins enda ekki endilega alltaf samræmi milli þessara aðila hvað teljast mikilvægar upplýsingar eða verulegar fjárhæðir í ársreikningi. Af varfærnissjónarmiðum er því almennt gengið nokkuð langt í upplýsingagjöf til að tryggja að allar skýringarkröfur reikningsskilastaðla séu uppfylltar í samræmi við ítarlega gátlista án þess að taka tillit til þess hvort upplýsingarnar séu mikilvægar. Þetta hefur valdið talsverðri upplýsingamengun í ársreikningum en það er þó ekki bannað samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum að setja fram upplýsingar í ársreikningi sem skipta ekki máli. Hins vegar er sett fram sú krafa í alþjóðlegum reikningsstöðlunum að meta þarf hvort of mikið af ónauðsynlegum upplýsingum valdi því að mikilvægar upplýsingar komi ekki fram með nægjanlega skýrum hætti.

Tilgangurinn með gerð ársreiknings er að veita upplýsingar til notenda reikningsskilanna um fjárhagsstöðu, rekstrarárangur og sjóðstreymi félags á tilteknu tímabili. Ákvörðun um mikilvægi upplýsinga ætti að skoða í því samhengi og í raun þurfa stjórnendur að setja sig í spor notenda reikningsskilanna og spyrja sig að því hvaða upplýsingar þeir sjálfir teldu mikilvægar væru þeir notendur ársreikningsins. Mikilvægi þarf að taka tillit til fjárhæðar, eðlis upplýsinga og aðstæðna hjá hverju fyrirtæki fyrir sig. Viðmið byggð á fjárhæðum munu þó ávallt vera fyrsta skrefið við mat á því hvort upplýsingar teljast mikilvægar þar sem er kannað hvort fjárhæð er undir skilgreindu hlutfalli af t.d. hagnaði eða eigin fé. Ekki er þó eingöngu hægt að líta til fjárhæða í þessu samhengi heldur þarf einnig að líta til annarra þátta og meta hvert tilvik fyrir sig. Til dæmis er krafa um að upplýsa um viðskipti við tengda aðila þó svo að ekki sé um að ræða verulegar fjárhæðir í samhengi ársreikningsins.

Alþjóðlega reikningsskilaráðið (IASB) hefur frá árinu 2012 unnið að sérstöku verkefni í þeim tilgangi að bæta framsetningu og upplýsingagjöf í ársreikningum. Einn þáttur í því verkefni er aðstoða stjórnendur, endurskoðendur, notendur og þá sem starfa við gerð reikningsskila að ákvarða hvað séu viðeigandi mikilvægismörk. Í október 2015 sendi IASB í umsagnarferli drög að leiðbeiningum um hvernig beita skuli mikilvægismörkum við gerð ársreikninga. Rétt er að benda á að gera þarf greinarmun á mikilvægismörkum sem ákvörðuð eru af stjórnendum við gerð ársreikninga og þeim mikilvægismörkum sem endurskoðendur setja í tengslum við vinnu við endurskoðun og ákvörðun um umfang endurskoðunar. Hins vegar væri almennt eðlilegt að mikilvægismörk stjórnenda vegna reikningsskila og mikilvægismörk endurskoðenda byggðust á sömu forsendum.

Frekari leiðbeiningar við mat og notkun á mikilvægismörkum við gerð reikningsskila er mikið framfaraskref í þá átt að gera upplýsingar í ársreikningum skýrari og hnitmiðaðri. Kjarninn í þeim er að fá stjórnendur til að beita í meira mæli dómgreind við mat á því hvaða upplýsingar eiga heima í ársreikningi og hverju eigi að sleppa. Með þessu eiga gæði upplýsinga í ársreikningi að aukast og um leið að draga úr almennum og stöðluðum skýringum í ársreikningnum sem bæta litlu við upplýsingagildi ársreikningsins.

Árni Claessen, löggiltur endurskoðandi og hluthafi hjá KPMG ehf.

Pistlar um endurskoðun

Pistlar um endurskoðun

Vikulega birtast pistlar í Viðskiptamogganum um endurskoðun og reikningshald í samvinnu við Félag löggiltra endurskoðenda. Þeir birtast jafnframt hér á vefnum.

Meira