c

Pistlar:

9. júní 2016 kl. 13:50

Pistlar um endurskoðun

Endurskoðun breytist til samræmis við tíðarandann

Arna Guðrún Tryggvadóttir PwCEf litið er til baka um nokkra áratugi er ljóst að þróun endurskoðunar á alþjóðavísu hefur verið mikil á þeim tíma og gaman er að skoða hana aðeins. Á árunum 1840–1920 urðu mörg félög gjaldþrota, hlutabréfamarkaðir voru án eftirlits og einkenndust mikið af spákaupmennsku. Takmörkuð ábyrgð hluthafa var ekki til staðar og því þótti nauðsynlegt að setja lög m.a. til þess að verja fjárfesta. Af þessum ástæðum kom fram krafa um að félög væru endurskoðuð. Tilgangur endurskoðunarinnar skyldi vera að uppgötva sviksemi, undanskot, þjófnað, mútugjafir og fleira í þá veru. Innra eftirlit, með það hlutverk að auðvelda stjórnendum að hafa stjórn á rekstri þeirra, var tiltölulega óþekkt á þessum tíma og hlaut litla athygli.

Þegar efnahagur í Bandaríkjunum batnaði upp úr 1920 og fjárfestingar jukust myndaðist verulegur þrýstingur á félög að sýna fram á áreiðanleika fjárhagsupplýsinga og þá var endurskoðendum falið að staðfesta þær. Tilgangur endurskoðunar breyttist úr því að snúast um sviksemisrannsóknir yfir í að staðfesta trúverðugleika og áreiðanleika fjárhagsupplýsinga. Orðalagið „glögg mynd“ (e. true and fair view) kemur þarna fyrst fram og er það enn í dag hluti af áritunum endurskoðenda. Að skilgreina mikilvægismörk og taka úrtak eftir viðurkenndum úrtaksfræðum fór jafnframt að skipta máli í starfi endurskoðenda því það þótti ekki lengur skilvirkt að skoða allar færslur og því voru skoðaðar tilteknar færslur eftir úrtökum.

Á árunum 1960 til 1990 stækkaði hagkerfi heimsins verulega. Umfang og rekstur fyrirtækja jókst og flækjustig þeirra að sama skapi. Á þessu tímabili varð einnig aukin tækniþróun og hún hafði líka áhrif á störf endurskoðenda. Innra eftirlit, ferlar og upplýsingakerfi fóru að skipta miklu máli og endurskoðendur hófu prófanir á innra eftirliti og treystu á það í sínum störfum, ef það var virkt. Á þessum tíma var flækjustig fyrirtækjanna líka orðið það mikið og fjárhagsfærslur svo margar að varla var gerlegt lengur og alls ekki skilvirkt fyrir endurskoðandann að skoða allar færslur.

Upp úr 1980 fóru endurskoðendur að beita ítarlegri greiningaraðgerðum til viðbótar við aðra gagnaendurskoðun. Greiningaraðgerðir felast m.a. í því að nota samanburð og innbyrðis tengsl upplýsinga til þess að meta hvort reikningsjöfnuður eða önnur gögn séu trúverðug. Á sama tíma kemur áhættugrunduð endurskoðun fram á sjónarsviðið en það er aðferð sem er enn við lýði í endurskoðun. Í lögum um endurskoðendur á Íslandi sem tóku gildi í ársbyrjun 2009 koma ákvæði um að endurskoðendur skuli rækja störf sín í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla og alþjóðlega staðla um gæðaeftirlit. Endurskoðun samkvæmt alþjóðlegum endurskoðunarstöðlum er áhættugrunduð endurskoðun sem þýðir að framkvæmd hennar byggist á mati á hættunni á því að veruleg skekkja sé í reikningsskilunum og viðeigandi viðbrögðum við þeirri hættu beitt.

Samhliða því að endurskoðunin sjálf hefur breyst mikið í tímans rás hefur endurskoðunarfagið sem slíkt líka breyst vegna mismunandi tíðaranda og atburða í sögunni hverju sinni. Vegna efnahagskreppunnar 2008 er hægt að nefna nýlegt dæmi sem hefur víða haft áhrif á endurskoðun en það er nýleg tilskipun Evrópusambandsins um endurskoðun sem kom í framhaldi af sérstakri skýrslu; „Audit policy: Lesson from the Crisis“. Þessi skýrsla var gefin út af ESB árið 2010 og gekk undir nafninu „Green paper“. Skýrslan þótti boða breytingar sem einkenndust af auknum kröfum til endurskoðenda og endurskoðunar, frekara opinbers eftirlits og ítarlegs regluverks um störf endurskoðenda. Tilskipunin tekur m.a. á ráðningartímabili endurskoðunarfyrirtækja á einingum tengdum almannahagsmunum (t.d. skráðra félaga) og setur skorður (bannlista) á hvaða þjónustu endurskoðunarfyrirtæki geta veitt fyrirtækjum sem þau endurskoða. Allt er þetta gert til að tryggja óhæði endurskoðandans. Þessi tilskipun er í innleiðingarferli á Íslandi.

Af framansögðu má sjá að tilgangur endurskoðunar og kröfur til endurskoðenda hafa á undanförnum áratugum breyst með tíðaranda og aðstæðum hverju sinni. Hver tíðarandinn verður eftir fimm ár eða fimmtíu ár á eftir að koma í ljós. En eitt er víst að hann á eftir að breytast og að öllum líkindum leiða til frekari þróunar á endurskoðun og störfum endurskoðenda.

Arna Guðrún Tryggvadóttir, löggiltur endurskoðandi og meðeigandi hjá PwC.

Pistlar um endurskoðun

Pistlar um endurskoðun

Vikulega birtast pistlar í Viðskiptamogganum um endurskoðun og reikningshald í samvinnu við Félag löggiltra endurskoðenda. Þeir birtast jafnframt hér á vefnum.

Meira