c

Pistlar:

27. febrúar 2017 kl. 18:18

Pistlar um endurskoðun

Þjóðtungan og ársreikningar

Signý Magnúsdóttir lítil litÁ árlegum Skattadegi Deloitte, Viðskiptaráðs Íslands og Samtaka atvinnulífsins sem haldinn var nú fyrir skömmu var farið yfir nýlegar breytingar á ársreikningalögum, sem eru ansi margar og ólíkar að umfangi en yfirlýst markmið frumvarpsins var að einfalda regluverkið. Eina þessara breytinga er að finna í 6. gr. laganna, sem felld var inn í 2. og 3. málslið 2. mgr. 7. gr. ársreikningalaga nr. 3/2006, en sú breyting felur í sér að öll félög þurfa nú að skila ársreikningum sínum á íslensku.

Ef litið er til upphaflega frumvarpsins þá var gefinn kostur á tveimur tungum, þ.e. íslensku og ensku, en fyrir lagabreytinguna var fyrirtækjum með erlendan starfrækslugjaldmiðil að auki heimilt að skila ársreikningum á dönsku. Frumvarpið tók frekari breytingum í meðförum efnahags- og viðskiptanefndar þar sem heimildin til að skila ársreikningi á ensku var felld brott. Var þó bætt við að ársreikningi skyldi að auki vera skilað á ensku, ef þörf krefði.

Rök efnahags- og viðskiptanefndar voru þau að ársreikningar eru birtir opinberlega og slík birting á að vera aðgengileg fyrir almenning til að stuðla að gagnsæju og heilbrigðu viðskiptalífi. Vegna þess þurfa ársreikningar að vera á því tungumáli sem meginþorri þjóðarinnar skilur. Íslenska er þjóðtungan og nefndin taldi það hlutverk löggjafans að tryggja stöðu hennar í stjórnkerfinu.

Við fyrstu sýn má ætla að þessi breyting sé aðeins agnarlítið brot af öllum þeim breytingum sem gerðar voru á ársreikningalögunum. Þá má sýna nálgun efnahags- og viðskiptanefndar ákveðinn skilning enda er íslenska tungan öðru fremur það sem gerir okkur að Íslendingum, eins og Vigdís Finnbogadóttir komst að orði í sinni fyrstu innsetningarræðu.

Það er þó hins vegar ljóst að undanfarið hefur áhersla verið lögð á það að efla stoðir alþjóðageirans á Íslandi. Aukið vægi þess geira í samsetningu hagkerfisins hefur þannig verið talið lykilatriði til að markmið um bætt lífskjör náist, líkt og Samráðsvettvangur um aukna hagsæld fjallaði um í sínum tillögum og forsætisráðherra endurspeglaði í sinni stefnuræðu núna nýverið. Í þeim geira er að mati Samráðsvettvangsins að finna stærstu vaxtartækifæri íslensks atvinnulífsins.

Var það álit Samráðsvettvangsins að til þess að tryggja vöxt og framgang alþjóðageirans þurfi meðal annars að skapa rekstrarumhverfi á Íslandi sem stenst alþjóðlegan samanburð. Þessi breyting í meðförum efnahags- og viðskiptanefndar gengur þvert á þessa áherslu. Þá er breytingin að auki ekki í takt við stefnu stjórnvalda um einföldun regluverks, en í nýlegri skýrslu ráðgjafarnefndar um opinberar eftirlitsreglur var sérstaklega tilgreint að mati á íþyngjandi áhrifum upphaflega frumvarpsins hefði verið ábótavant.

Þessi „litla“ breyting kallar á aukið flækjustig og töluverðan kostnað hjá þeim félögum sem áður skiluðu sínum ársreikningum á ensku og eru nú að þýða þá á íslensku. Þá er vandséð hvernig unnt er að ætlast til þess að stjórnarmenn sem eru af erlendu bergi brotnir geti framfylgt lögbundnu eftirlitshlutverki sínu þegar lykilupplýsingar eru settar fram á tungumáli sem þeir skilja ekki, hvað þá að skrifa undir slíkar upplýsingar.

Að mati undirritaðrar er því um afturför að ræða enda vel unnt að tryggja stöðu íslenskunnar í stjórnkerfinu án þess að skapa aukið flækjustig fyrir fyrirtæki í alþjóðlegu rekstrarumhverfi. Þá er vert að nefna að alþjóðlegir reikningsskilastaðlar (IFRS), sem eru hið eiginlega tungumál í ársreikningagerð margra félaga, eru alfarið á ensku. Mismunandi þýðingar milli félaga á grunnþáttum IFRS í sínum ársreikningum eru illa til þess fallnar að stuðla að auknu gagnsæi.

Signý Magnúsdóttir, löggiltur endurskoðandi og yfirmaður reikningsskila hjá Deloitte.

Birtist fyrst í ViðskiptaMogganum 2. febrúar 2017.

Pistlar um endurskoðun

Pistlar um endurskoðun

Vikulega birtast pistlar í Viðskiptamogganum um endurskoðun og reikningshald í samvinnu við Félag löggiltra endurskoðenda. Þeir birtast jafnframt hér á vefnum.

Meira