c

Pistlar:

20. júlí 2017 kl. 10:04

Pistlar um endurskoðun

Jafnlaunavottun – hvað er að frétta?

Sif Einarsdóttir Deloitte lítil svart-hvítJón Kristinn Lárusson DeloitteNýverið samþykkti Alþingi lög um að íslensk fyrirtæki eða stofnanir með 25 starfsmenn eða fleiri skuli öðlast jafnlaunavottun. Til að jafnlaunavottun fáist þarf jafnlaunakerfi að hafa verið innleitt og framkvæmd þess að uppfylla kröfur staðals ÍST 85 um jafnlaunavottun.

Fyrirtæki eða stofnanir með 250 eða fleiri starfsmenn skulu öðlast jafnlaunavottun að undangenginni úttekt vottunaraðila eigi síðar en 31. desember 2018 en fámennari fyrirtæki eða stofnanir fá rýmri frest til innleiðingar, eða allt til ársloka 2021. Stór hluti starfandi fyrirtækja eru þannig nú skyldug til að innleiða jafnlaunavottun á næstu árum og því tímabært að gefa því gaum.

Breytt vinnubrögð

Fyrir sum fyrirtæki kallar hin nýja löggjöf á breytt vinnubrögð við launaákvarðanir þar sem ríkar kröfur  verða gerðar um skýrt og rekjanlegt ferli innan launadeilda fyrirtækja. Launaákvarðanir þurfa að vera rökstuddar og rekjanlegar, verkferlar og starfslýsingar þurfa að vera til staðar, flokka þarf saman störf sem eru jafnverðmæt og gera þarf launagreiningu, þar sem laun eru greind með aðstoð tölfræði. Málefnaleg sjónarmið þurfa að liggja til grundvallar ákvörðunar launa og er jafnlaunavottunin gott stjórntæki sem leiðir til faglegs launakerfis og agaðri vinnubragða við launasetningu.

Hver er ábatinn?

Sum fyrirtæki þurfa ekki að gera neinar breytingar á launastrúktúr eða verklagsreglum í tengslum við laun. Þau fyrirtæki þurfa einungis að gera launagreiningu, hafi slík greining ekki verið gerð áður. Önnur fyrirtæki, þar sem launaferlar eru óformlegir, þurfa að undirbúa sig betur til þess að standast kröfur jafnlaunastaðalsins. En er þetta eintóm fyrirhöfn fyrir fyrirtækin eða er einhver ábati falinn í þessari vinnu?

Ábatinn fyrir fyrirtæki getur falist í meiri ánægju starfsmanna, þar sem þeir vita að jöfn laun eru greidd fyrir jafnverðmæt störf. Auk þess leiðir nánari skoðun á launaferli og launaákvörðunum oft til aukinnar ánægju starfsfólks og má þar meðal annars telja árleg frammistöðusamtöl þar sem sett eru markmið og árangur er mældur. Árleg starfsmannasamtöl eru talin nútímaleg vinnubrögð sem starfsfólk gerir kröfu um. Sama gildir um gegnsæi í launaákvörðunum og rekjanleiki gagna. Lög um jafnlaunavottun, með þeim kröfum um kerfisbundnar og gegnsæjar launaákvarðanir, ýta þannig undir aukið samtal og skipulagðari vinnubrögð við launaákvarðanir.

Ábatinn fyrir samfélagið er enn augljósari en fyrir fyrirtækið sjálft. Í síðustu launakönnun VR (janúar 2017) var launamunur kynjanna 11,3% sem er svipað hlutfall og árin á undan og aðrar mælingar sýna ýmist hærra eða lægra hlutfall. Því er þekkt að óútskýrður launamunur kynjanna er til staðar konum í óhag og ekki hefur tekist að eyða þessum mismun með öðrum leiðum. Fyrirtæki sem heyra undir löggjöfina um jafnlaunavottun taka nú þátt í því samfélagsverkefni að jafna laun kynjanna á Íslandi.

Skref sem taka þarf í undirbúningi jafnlaunavottunar eru eftirfarandi:

  • Gerð jafnlaunastefnu
  • Gerð jafnréttisáætlunar
  • Yfirfara starfslýsingar
  • Yfirfara og bæta ferli við launaákvarðanir
  • Yfirfara verkferla í launadeild almennt
  • Flokkun starfa
  • Framkvæma launagreiningu

Við öll ofangreind skref er mikilvægt að stjórnendur taki eins mikinn þátt í innleiðingunni og þeir treysta sér til.  Gott er að hafa reynda ráðgjafa sér við hlið við undirbúninginn.

Sif Einarsdóttir, endurskoðandi hjá Deloitte og ráðgjafi í jafnlaunavottun.

Jón Kristinn Lárusson, endurskoðandi hjá Deloitte og ráðgjafi í jafnlaunavottun.

Birtist fyrst í ViðskiptaMogganum 22. júní 2017.

Pistlar um endurskoðun

Pistlar um endurskoðun

Vikulega birtast pistlar í Viðskiptamogganum um endurskoðun og reikningshald í samvinnu við Félag löggiltra endurskoðenda. Þeir birtast jafnframt hér á vefnum.

Meira