c

Pistlar:

14. febrúar 2019 kl. 18:35

Ketill Sigurjónsson (hreyfiafl.blog.is)

Tækniundur hverfur af sviðinu

Airbus hefur ákveðið að hætta fram­leiðslu á stærstu far­þega­þotu heims; risa­þot­unni A380. Þetta þyk­ir mér mið­ur. Bæði sem flug­áhuga­manni og vegna þess að ein­hver besta ferða­reynsla mín fram til þessa er ein­mitt lang­flug með Air­bus A380.

Flugreynsla mín með þessari vél er reynd­ar ekki mikil. Ein­ungis tvær ferðir - en vel að merkja nokk­uð lang­ar ferð­ir. Ann­ars veg­ar frá London til Mel­bourne og hins vegar frá Sydney til London. Í báð­um til­vik­um var milli­lent í Dubai, enda er flug­leiðin milli London og austur­strand­ar Ástralíu nokkru lengri en sú há­marks­vega­lengd sem þessi magn­aða vél get­ur far­ið á einni tank­fyllingu.

Qantas-A380-over-sydneyÁstæða þess að ég féll gjör­sam­lega fyrir Airbus A380 er fyrst og fremst sam­an­burð­ur­inn við aðra forn­fræg­ari risa­þotu; þá banda­rísku Boeing 747. Skömmu áður en ég ferð­að­ist með evrópska undra­tæk­inu A380 hafði ég ein­mitt líka flog­ið milli London og Sydney með reynslu­bolt­anum 747 (þá með milli­lend­ingu í Singa­pore). Og saman­burð­ur­inn var 747 mjög í óhag.

Þarna kom margt til. Airbus­vélin hjá Qantas var auðvitað miklu nýrri en gamla Boeing risa­þotan hjá British Airways og því voru sætin og allar inn­rétt­ingar miklu þægi­legri í Airbus­vélinni. Það sem þó hreif mann hvað mest voru flug­eigin­leik­arnir og hljóð­vistin.

Inni í A380 rétt svo heyrðist smávegis suð frá ofsa­legum hreyfl­un­um, en í 747 vél­inni mátti lýsa hreyfla­hljóð­inu sem nánast óþægi­lega há­væru á svo löngu flugi (um 22 klukku­stund­ir á lofti). Og of­boðs­leg­ur kraft­ur­inn í flug­tak­inu og dásam­lega mjúk­ar hreyf­ing­arnar í lend­ingu evrópsku vél­ar­inn­ar fengu mann hrein­lega til hrista höf­uð­ið yfir skrapa­tól­inu sem 747 virt­ist vera í sam­an­burð­inum.

Breiðþotur eru heillandi tækni­undur. Og geta flutt hreint ótrú­leg­an fjölda fólks. Þegar A380 er inn­rétt­uð þann­ig að al­menna far­rým­ið er í stærri kant­in­um, tek­ur vél­in um 850 far­þega. Þeg­ar slatti er af ýmsum betri sæt­um í vél­inni er há­marks­fjöldi far­þega oft ná­lægt 500. Boeing 747 er með tölu­vert færri sæti; oft fyrir á bil­inu 400 til 650 farþega. Báðar þessar vélar eru á tveim­ur hæð­um og með fjóra hreyfla. Og þetta eru tvær stærstu far­þega­þotur heims. Stærsta út­færslan af 747 er ör­lít­ið lengri en A380, en engu að síður er 747 minni vél.

Airbus-A380-landingJá - því mið­ur hefur nú verið ákveðið að hætta fram­leiðsl­unni á A380 og verður sú síð­asta afhent kaup­and­anum árið 2021. Sem þýð­ir að fram­leiðslu­saga A380 verð­ur ein­ungis um fimmtán ár! Þar með er augljóst að þrátt fyrir að vera fá­dæma þægi­legt farar­tæki verður saga A380 langt frá því að verða jafn löng og mikil­væg eins og saga 747, sem nú hefur verið fram­leidd í fimm áratugi og er enn í nokkuð góðum gír.

Það stefnir að vísu líka í að 747 hverfi smám saman af svið­inu. Því nýjar tveggja hreyfla minni far­þega­þotur virð­ast álitnar hag­kvæm­ari; í dag eru sparneytni og góð sætanýting alger lykilatriði í farþegaflugi. Þar verð­ur lík­lega 787 Dream­liner hvað fremst í flokki næstu ára­tugina á lengri leiðum, en slíkar vélar fljúga nú t.d. beint milli London og Perth á vest­ur­stönd Ástralíu. Kannski mun næsta kyn­slóð mann­kyns aldrei fá tæki­færi til að fljúga í sann­kall­aðri risa­þotu!

Í lokin má geta þess að eftir hið hroða­lega flug­slys þegar Airbus A330 frá Air France hrapaði í Atlants­haf í júníbyrjun 2009, varð ég ákveð­inn í því að fljúga aldrei með flug­vél þar sem flug­menn­irnir hafa ekki al­menni­legt stýri (yoke), held­ur „bara“ pinna (joy-stick eða öllu held­ur s.k. side-stick). Það er óhugn­ar­leg lesn­ing hvernig flug­menn frönsku vél­ar­inn­ar höm­uð­ust báð­ir á sitt hvor­um pinn­an­um í of­risinu áður en vé­lin skall í Atlants­hafið.

Á endanum stóð ég ekki við það að fljúga aldrei í slíkri „tölvu­leikja­vél“ með stýri­pinna. Airbus 380 er ein­mitt stærsta vél heims með slík­an pinna. Og eftir þá flug­reynslu hurfu for­dóm­arnir og í dag veit ég svo sann­ar­lega hvaða flug­vél er mesta tækni­undrið í mín­um huga. Drottningin Airbus 380 hef­ur senn verið boð­uð látin; lengi lifi drottningin! Sem reyndar bara rétt svo náði því að verða táningur og því kannski varla nema prinsessa.

Ketill Sigurjónsson

Ketill Sigurjónsson

Höfundur er framkvæmdastjóri vindorkufyrirtækisins Zephyr á Íslandi (Zephyr Iceland), sem er dótturfyrirtæki norska Zephyr.

Meira