Pistlar:

23. nóvember 2016 kl. 15:23

Már Wolfgang Mixa (marmixa.blog.is)

Landsbankinn, Borgun og eignarhlutur ríkisins

Skýrsla sem Ríkisendurskoðun birti í vikunni sýnir að verkferlum innan Landsbankans var verulega ábótavant varðandi sölu hans á nokkrum eignum. Skýrslan, Eignasala Landsbankans hf. 2010-16, lítur yfir farinn veg á nokkrum sölum Landsbankans á þeim árum. Sumar eignir voru seldar á lágu verði og var Icelandic Group til dæmis selt árið 2010 á verði sem var hið sama og kaupendur seldu 12 af 31 dótturfélögum félagsins aðeins ári síðar. Það er hins vegar vert að benda á að á þeim tímapunkti voru einfaldlega fáir kaupendur til staðar, mikil vöntun var á fjármagni og eignir seldust á lágu verði, eins og fasteignamarkaðurinn á þeim árum til að mynda bar keim af.

Borgun

Slíkt fyrirkomulag hefði hins vegar ekki átt að vera lengur til staðar árið 2013 né seinna. Skýrslan er áfellisdómur á verklaginu við sölu bankans á 31,2% eignarhlut sínum í Borgun. Ekki er hægt að sjá að einhverjir verulegir viðskiptalegir annmarkar hafi legið fyrir á opnu söluferli í fyrirtækinu. Líklegt er að í slíku ferli hefði það komið fram að valréttur á sölu Visa Europe til handa Borgun væri til staðar. Í tilfelli Landsbankans þá vissi bankaráð að Valitor, sem bankinn var að selja um svipað leyti, ætti sölurétt á Visa Europe, en þó var ekki athugað (í það minnsta ekki með afgerandi hætti) hvort að slíkt ætti við um Borgun.

Ég fjallaði um þessi atriði í Speglinum í gær - http://ruv.is/sarpurinn/ras-1/spegillinn/20161122. Sagði ég að bankaráð Landsbankans hefði vitað af valrétti sem Borgun ætti rétt á í tengslum við Visa Europe sem næmi allt að 10 ma. króna. Hið rétta er að bankaráð Landsbankans vissi af valrétti Valitors vegna Visa Europe. Biðst ég afsökunar á þessu.

Hins vegar stendur það óhaggað sem orðrétt kemur fram í skýrslunni, að í tengslum við sölu á hluta Landsbankans í Valitor hafi verið ljóst að stjórnendum Landsbankans var vel kunnugt um valréttinn, að honum gætu fylgt talsverð verðmæti og að aðildar-félög Visa Europe fengju hluta þess hagnaðar í fyllingu tímans. Hvergi var hins vegar vikið að því að Borgun gæti einnig hagnast af valréttinum þótt félagið hefði verið aðildarfélag Visa Europe frá árinu 2010 (bls. 66).

Eignarhlutur ríkisins

Þessi umræða dregur á ný fram í dagsljósið umræðu um eignarhald ríkisins. Ekki er langt síðan að stjórnendateymi Landsbankans fór fram á að höfuðstöðvar bankans yrðu byggðar í miðbænum með ærnum kostnaði. Rök komu fram um að sá kostnaður kæmi til með að skila sér. Margir ráðamenn landsins lýstu yfir efasemdum við þessum áformum. Einnig hafa ráðamenn kvartað yfir háu vaxtastigi en lítið hefur gerst í þeim málum. Í greininni Landsbankinn - Sala fyrir Borgun sem ég skrifaði í byrjun þessa árs kom fram að ef ríkið seldi 66% hlut í bankanum en ætti áfram 34% hlut væru öfl innan bankans sem hefðu arðsemissjónarmið að leiðarljósi. Tel ég að slík rök ættu einnig við í þessu máli, þar sem að stjórn bankans hefði lagt meiri áherslu á að gæta fjármuna eigenda sinna.

Einn af lærdómunum af skýrslu Ríkisendurskoðun er því að mínu mati að umboðsvandi á sér stað þegar að ríkið er eini eigandi Landsbankans (það á reyndar einnig við um Íslandsbanka). Blandað eignarhald hefur gefist vel, til að mynda í Noregi, og ættu Íslendingar að leita í þá smiðju varðandi eignarhald íslensku bankanna á næstu árum.

MWM

Már Wolfgang Mixa

Már Wolfgang Mixa

Lektor í fjármálum við Háskólann í Reykjavík.

Stýrði rannsóknum á fjárfestingum sparisjóðanna við gerð Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um rannsókn á aðdraganda og örsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna, 2013-2014.

Meðdómari í tveimur veigamiklum málum tengd fjármálahruni Íslands.

Einn af höfundum "Costco skýrslunnar" í samstarfi við Zenter rannsóknir.

Starfaði í 15 ár í íslenskum bönkum og sparisjóðum sem forstjóri, yfirmaður verðbréfasviðs, við lausafjárstýringu, eigin viðskipti (innlend og erlend hlutabréf & skuldabréf), sjóðastýringu (innlend og erlend hlutabréf & skuldabréf), eignastýringu, FX, miðlun verðbréfa, uppsetningu séreignalifeyrissparnaðar, uppsetningu millibankaviðskipta, uppsetningu erlendra verðbréfaviðskipta og greiningu á fjárfestingakostum.

PhD Business Administration - Háskólinn í Reykjavík 2016

MSc Fjármál fyrirtækja - Háskóli Íslands 2009

B.S.B.A. Finance - University of Arizona 1994

B.A. Philosophy - University of Arizona 1994

Löggiltur verðbréfamiðlari - USA 1996 og Ísland 2001

Greinasafn - http://www.slideshare.net/marmixa

Hægt er að skrá sig á póstlista með því að senda beiðni til marmixa@yahoo.com með "póstlisti" í Subject. 
 

Besta ráðgjöfin: "When there is a stock-market boom, and everyone is scrambling for common stocks, take all your common stocks and sell them. ... No doubt the stocks you sold will go higher. Pay no attention to this -- just wait for the (recession), which will come sooner or later. When this (recession) -- or panic -- becomes a national catastrophe ... buy back the stocks. No doubt the stocks will go still lower. Again pay no attention. Wait for the next boom. Continue to repeat this operation as long as you live, and you'll have the pleasure of dying rich." Fred Schwed, 1940

Meira