c

Pistlar:

7. maí 2018 kl. 14:57

Már Wolfgang Mixa (marmixa.blog.is)

Safn 10 erlendra hlutabréfa

Viðskiptablaðið hafði samband við mig í lok árs 2005 og bað mig um að mynda safn 12 erlendra hlutabréfa. Nýlega fór ég yfir ávöxtun safnsins síðustu 12 ár. Með því að líta til þeirra 10 hlutabréfa í safninu sem enn eru skráð á hlutabréfamörkuðum, þá sést að safnið meira en sexfaldaðist í virði frá ársbyrjun 2006 til dagsins í dag. Svarar það til um það bil 17% árlegrar ávöxtunar samanborið við 6% árlegrar ávöxtunar á S&P 500 hlutabréfavísitölunni. Væru arðgreiðslur einnig teknar með í dæmið þá væri árleg ávöxtun í kringum 1-2% hærri.

Ég endurtek leikinn núna en vel í þetta sinn einungis 10 bréf. Eftir þrjú ár mun ég fara yfir ávöxtun þessa safns og bera hana saman við S&P 500 hlutabréfavísitöluna.

Safnið í ár samanstendur aðallega af rótgrónum fyrirtækjum. Ekkert af fyrirtækjunum er almennt skilgreint sem tæknifyrirtæki. Það er heldur ólíkt safninu frá árinu 2006. Það innihélt meðal annars tvö af fimm FANG fyrirtækjunum (Facebook, Amazon, Apple, Netflix og Google) en afstaða fjárfesta á þeim tímapunkti gagnvart tæknifyrirtækjum var enn afar neikvæð, ólíkt því sem staðan er í dag. Það er því afar ólíklegt að þetta safn nái að skila sömu ávöxtun og 2006 hlutabréfasafn mitt en á móti kemur að áhættan í fjárfestingum bréfanna ætti að vera minni. Því má við bæta að áhætta á fjárfestingum er oftast miklu meira en flestir fjárfestar telja sig trú um, svo það er alveg mögulegt að töluvert tap verði á þessum fjárfestingum.

Fram kemur nafn fyrirtækis, stafir þess á bandaríska hlutabréfamarkaðinum, lokagengi hlutabréfanna síðastliðinn föstudag (4. maí, 2018) og síðan stutt umfjöllun af hverju ég vel hvert þeirra.

1.     Kraft-Heinz (KHC) - $58,01

Þetta matvælafyrirtæki var sameinað úr tveimur rótgrónum matvælaframleiðendum fyrir rúmum þremur árum síðan. Flestir ættu að þekkja suma vöruflokka þess eins og Oscar Mayer, Kraft ost, Maxwell House kaffi og Heinz baunir og tómatssósu. Þó svo að nær engin vöxtur sé reiknaður í sjóðsstreymisgreiningu flestra greiningaraðila þá er núverandi gengi töluvert langt undir því sem að sjóðsstreymis greiningar þeirra gefa til kynna varðandi virði fyrirtækisins. Umræða um að neytendur séu að flykkjast yfir í matvæli sem seld eru í verslunum eins og Whole foods er hins vegar tröllríðandi þessa daganna. Þetta tel ég hafi skapað kauptækifæri í KHC, en gengi þess hefur fallið um meira en þriðjung á aðeins einu ári í þessari umræðu. Tel ég líklegt að fyrirtækið bregðist við smám saman við breyttum áherslum neytenda. Verði auk þess niðursveifla í efnahagnum þá fara neytendur að kaupa aftur ódýrari matvörur eins og þær sem KHC framleiðir. Þetta er ein stærsta eign í safni Berkshire Hathaway, eignhaldsfélaginu sem er stýrt af Warren Buffett, og hafa fáir hagnast á því að veðja á móti honum.

2.     UPS (UPS) - $111,31

Gengi bréfa í UPS hefur sveiflast lítið síðustu fimm ár. Fyrirtækið er ásamt FedEx leiðandi í vöruflutningum á heimsvísu. Margir fjárfestar hafa selt bréf sín í fyrirtækinu undanfarna mánuði í kjölfar frétta um að Amazon sé að fara að sjá sjálft um sendingarþjónustu sína. Ég tel aftur á móti að fleiri fyrirtæki séu einmitt að fara að beina verslun sinni í átt að veraldarvefnum. Wal-mart er til að mynda að auka vöxt sinn langmest með netviðskiptum. Enginn viðskiptavinur UPS myndar meira en 3% tekna fyrirtækisins. Því á vöxtur UPS ekki eftir að minnka með minni viðskiptum frá Amazon (þó að hann dragist líklegast saman hjá því fyrirtæki næstu ár) heldur á hann eftir þvert á móti eftir að aukast enn frekar samhliða almennri þróun á netviðskiptum.

3.     Costco (COST) – $195,19

Uppáhaldsfyrirtæki allra Íslendinga (sjá til dæmis http://www.irpa.is/article/view/a.2017.13.2.2/pdf) er að mínu mati einnig góð fjárfesting. Það verður þó að taka það fram að mikill vöxtur er nú þegar reiknaður í virði fyrirtækisins. Sá vöxtur hefur aftur á móti verið að mestu leyti tengst nýjum verslunum í Bandaríkjunum og söluaukningu á þeim verslunum sem fyrir eru. Enn sem komið er vita fáar manneskjur utan Bandaríkjanna um tilvist Costco. Þetta tel ég eigi eftir að breytast. Costco verslanir verða komnar til allra Norðurlanda innan tíðar og hið sama á við um flesta heimshluta. Ef vöxturinn veldur aftur á móti vonbrigðum er ljóst að verðmiðinn á hlutabréfum þess eigi eftir að lækka verulega.

4.     General Mills (GI) - $42,54

Annar matvælaframleiðandi er á lista mínum, en gengi bréfa þess þessa daganna hefur ekki verið jafn lágt í fimm ár. General Mills framleiðir til að mynda Cheerios, Betty Crocker, Bugles and Old El Paso. Það er ekki einungis lítill vöxtur sem er reiknaður í virði fyrirtækja eins og GI og KHC, heldur einnig sú staðreynd að fyrirtæki eins og Amazon og Costco eigi eftir að ná betri samningum vegna ríkjandi markaðsstöðu þeirra á smásölumarkaðinum. Það er örugglega eitthvað til í slíku. Vörumerki þessara matvælaframleiðanda eru þó það sterk að þau eiga eftir að standa slíkan storm af sér. Með alla þá neikvæðu umræðu sem tröllríður hlutabréf matvælaframleiðanda í dag tel ég rétt að yfirvigta slík bréf í hlutabréfasöfn.

5.     Barclays (BCS) - $11,36

Þrátt fyrir að tæp 10 ár séu liðinn frá því að hrunið átti sér stað þá er gengi á bréfum bankans enn nálægt þeim slóðum sem þau féllu í þegar að hamagangurinn í hruninu var sem mestur. Það er í dag rétt rúmlega 50% af innra virði bankans, sem þýðir að fjárfestar áætla að bankinn nái ekki að vinna betur úr innra virði þess næstu árin að það sé í raun að mynda neikvætt fjárstreymi að teknu tilliti til eðlilegar arðsemiskröfu eigin fjár. Nýlega keypti fjárfestingarsjóður stóran hlut í bankanum til að knýja fram breytingar, ég tel líklegt að þær skili árangri.

6.     General Electrics (GE) - $14,10

GE var ekki fyrir það löngu síðan nokkurs konar táknmynd fyrir yfirburðum bandarísks efnahags. Í dag, eftir nokkur mögur ár, hefur fyrirtækið neyðst til þess að lækka arðgreiðslu þess en slíkt hefur aðeins einu sinni áður gerst í sögu GE. Fyrirtækið hefur meðal annars þurft að enduráætla eldri uppgjör sem sýndu miklu betri afkomu heldur en raun bar vitni. Þetta lyktar eins og WorldCom og Enron áður en þau fyrirtæki hurfu af sjónarsviðinu. Líklegt er að margir fjárfestar hafi selt bréf sín með reynslu þeirra fyrirtækja í huga. Staðan er þó ekki verri en svo að gert er ráð fyrir að fyrirtækið hagnist um $1,0 á hlut í ár. Haldist hagvöxtur þokkalegur þá eiga kaup í dag eftir að skila góðri ávöxtun. Það er eiginlega einungis tvennt í boði, annaðhvort lítur maður út eins og snillingur eða bjáni eftir þrjú ár fyrir að hafa keypt GE á þessum tímapunkti. Ég er búinn að vera það lengi í fjárfestingum að ég get alveg litið öðru hverju út eins og bjáni og liðið bara allt í lagi með það.

7.     Pfizer (PFE) - $34,84

Ég tel að fjárfestar eigi helst alltaf að eiga lyfjafyrirtæki í hlutabréfasöfnum þeirra, nema þegar að mikil bjartsýni ríkir um framtíð þeirra (slíkt er þá almennt í gengi þeirra). Það á svo ekki við í dag. Gengi bréfa fyrirtækisins er ekki sérstaklega hátt í dag né er það lágt. Það getur aftur á móti nýtt skattaafslátt Trump til að auka fjármagn í rannsóknir þess og auk þess kaupa eigin bréf. Þetta er enn ein kaupin sem ég mæli með á þeim forsendum að bréfin séu ekki það viðkvæm fyrir almennum hækkunum eða lækkunum á hlutabréfamörkuðum.

8.     Wal-mart (WMT) - $87,53

Gengi bréfa Wal-mart hafði lítið hreyfst í mörg ár þangað til nýlega. Fyrirtækið var eitt sinn ráðandi á smásölumarkaði en því tókst með einhverjum hætti að klúðra netviðskiptum sínum herfilega. Það var til dæmis verið með ólíkindum hversu slappt viðmót netviðskipta var hjá fyrirtækinu í mörg ár. Þetta hefur loks verið að breytast undanfarið og hafa hlutabréf þess hækkað mikið síðustu mánuði, þó svo að þau hafi lækkað um 20% frá því sem þau fóru um stundarsakir hæst í. Fyrirtækið getur nýtt sér verslanir út um öll Bandaríkin og jafnvel víðar um heiminn mikið betur sem birgðastöðvar fyrir netviðskipti. Það má segja að kaup í Wal-mart séu ákveðið veðmál um að netviðskipti fyrirtækisins nái loks flugi.

9.     Procter & Gamble (PG) - $72,43

Bréf í PG eru í dag nánast á sömu slóðum og þau voru árið 2008 áður en hrunið átti sér stað. Það er ein góð ástæða fyrir því að virði bréfanna hafi ekki hækkað jafn mikið og önnur bréf og hún er sú að fyrirtækið greiðir út stóran hluta af hagnaði sínum í arð, eða í kringum 70% síðustu ár. Það þýðir að fjárfestar fá hagnað fyrirtækisins meira í formi arðs frekar en hækkun á virði bréfa PG og einnig að fjármagn til endurfjárfestinga er tiltölulega lítið, sem þýðir minn vöxt. Arðgreiðsluhlutfallið miðað við núverandi markaðsvirði er tæplega 4%, sem er um 1% hærra en fjárfestar fá fyrir 10 ára bandarísk ríkisbréf. PG framleiðir vörur sem fólk notar í daglegu lífi eins og Head & Shoulders, Mr. Clean og Pampers bleyjur. Í mínum huga er fjárfesting í PG ekki ólík fjárfestingu í skuldabréfum. Fyrirtækið er afar lítt skuldsett, í afar stöðugum rekstri og með hátt lánshæfismat. Önnur „leiðinleg“ fjárfesting sem ég mæli með.

10.  Kellogs (K) - $59,80

Ég hlýt að vera svangur þegar ég skrifa þetta því Kellogs er þriðja matvælafyrirtækið á lista mínum. Öll lögmál varðandi áhættudreifingu eru því foknar út í veður og vind. Enn á ný eru rökin þau að slík fyrirtæki hafa afar litinn vöxt í verðmati þeirra. Það þarf nánast töluverðan samdrátt í sölu til að réttlæta núverandi gengi þeirra. Ég tel leiðina niður fyrir hlutabréf slíkra fyrirtækja vera töluvert styttri en leiðina upp á við.

Ef ég mætti taka skortstöðu í einhverju fyrirtæki þá væri það Tesla. Ég fjalla nánar seinna um það. Það er freistandi að halda sig við Amazon en ég er hreinlega örlítið smeykur við að mæla með kaupum í því í dag eftir að fyrirtækið hafi hækkað í virði um 70% síðustu 12 mánuði án stórtíðinda. Ég væri frekar til í að fjárfesta í því í næstu kreppu.

Erlendar fjárfestingar eru að mínu mati góður tími fyrir Íslendinga. Auk hlutabréfa er í fyrsta sinn í langan tíma orðið hugsanlega í lagi að fjárfesta í bandarískum skuldabréfum. Í mínum huga er það einungis tímaspursmál hvenær íslenska krónan veikist um 10-20% (ég er ekki að segja að það sé handan hornsins) og því er lag að fjárfesta eitthvað af peningum erlendis.

Þrátt fyrir að erlendar vísitölur hafi hækkað mikið í virði á slíkt alls ekki við um öll bréf. Bréfin 10 í safninu að ofan eiga það flest sammerkt síðustu árin að hafa hækkað hóflega í virði en hluti af skýringunni er að þau greiða stóran hluta hagnaðar síns út til hluthafa í formi arðs.

Það ætti ekki að skipta neinu máli í þessari umfjöllun er rétt er þó að taka það fram að ég á hlutabréf í nokkrum af ofangreindum fyrirtækjum.

Fyrir þá sem vilja lesa sér til um ávöxtun 2006 safns míns þá afrita ég umfjöllun um það að neðan sem nýlega birtist á sama vettvangi.

MWM

17% 2006 hlutabréfasafnið

Viðskiptablaðið bað mig um að koma með tillögu að erlendu safni hlutabréfa í árslok 2005. Hugmyndin var eitthvað á þá leið að slíkt safn gæfi fjárfestum hugmynd um mengi af hlutabréfum sem ýmsir aðilar á markaðinum teldu vera vænlegt til árangurs að teknu tilliti til ávöxtunar og áhættu.

Ég valdi 12 hlutabréf. Af þeim eru 10 enn skráð á markaði en tvö voru keypt af fjárfestum sem síðan afskráðu þau. Bréfin í safninu voru:

JPM bank

Citigroup bank

Wal-mart

Home Depot

Merck

Pfizer

Microsoft

Nokia

Amazon

Apple

Opera

Dell

Tvö síðasttöldu félögin var kippt af markaði, en sjálfur stofnandi Dell, Michael Dell, leiddi yfirtökuna á Dell. Verðið var á um það bil helming þess verðs sem það var þegar ég valdi það í safnið. Opera var afskráð af markaði en endurskráð sem Otello. Ég finn ekki upplýsingar um hvernig skipahlutföllin voru hjá Opera og get því ekki tjáð mig um það.[i]

Ekki hafði ég efni á því að fjárfesta sjálfur í þessum bréfum enda átti ég á þeim tímapunkti von á tvíburum og framundan var því ærin kostnaður við að stækka heimili mitt. Vona ég að einhver annar hafi þó gert það. Ávöxtun safnsins hefur nefnilega verið ævintýralega góð. Ég undanskil í útreikningum bréfin sem voru afskráð og einnig arðgreiðslur sem safnið hefur veitt árlega, sem ég myndi giska á hefði verið í kringum 1-2% árlega. Ávöxtunin er reiknuð í bandaríkjadollurum.

Hefði verið fjárfest í safninu í jöfnum hlutföllum þá hefði verið að ræða 10 bréf sem hefðu til dæmis verið $100.000 virði hvert, eða samtals $1,0 milljónir. í dag væri virði þessa 10 bréfa safns komið í $6,3 milljónir. Svarar það til um það bil 17% árlegrar ávöxtunar. Árleg ávöxtun S&P 500 hlutabréfavísitölunnar á sama tímabili var 6%, sem í lágu vaxtaumhverfi er ásættanleg ávöxtun.

Af hverju hefur ávöxtunin verið svona góð? Svarið einskorðast að stórum hluta til við tvö félög, Amazon og Apple. Þetta voru tvö félög sem fjárfestar höfðu enn á þessum tímapunkti efasemdir um. Það átti sérstaklega við um Amazon. Ég var undir töluverðum áhrifum af bókinni Good To Great eftir Jim Collins. Hann leggur mikla áherslu á það að fyrirtæki þurfi stöðugt að vera í nýjungarsköpun og taka áhættur. Amazon var á þeim tíma að taka ýmsar áhættur og fjölluðu flestir fjölmiðlar um það sem ekki gekk upp hjá fyrirtækinu en veittu því minni athygli hvaða þættir væru að tryggja fyrirtækinu yfirburði á smásölumarkaði veraldarvefsins. Síðan safnið var birt á síðum Viðskiptablaðsins hefur virði Amazon rúmlega 32-faldast og Apple rúmlega 16-faldast í virði.

Lyfjafyrirtækin Pfizer og Merck hafa veitt þokkalega ávöxtun á tímabilinu. Citigroup var berskjaldað gagnvart fjármálakrísunni árið 2008 og eru bréf þess í dag einungis 15% af því virði sem þau voru þegar að safnið var birt en JPM bankinn var hefur aftur á móti hækkað mikið í virði á tímabilinu, enda er bankinn stýrður af afar góðu teymi. Wal-mart hefur einnig veitt þokkalega ávöxtun en Home Depot hefur aftur á móti meira en þréfaldast í virði á tímabilinu. Ég valdi einnig tvo fyrrum risa í tæknigeiranum í safnið, Microsoft og Nokia, með það í huga að sú neikvæðni sem enn ríkti þá í garð tæknifyrirtækja væri verðlögð í gengi þeirra fyrirtækja og gott betur. Nokia hefur síðan þá nánast horfið af sjónarsviðinu og hefur gengi þess skroppið enn meira saman og er nú einungis um þriðjungur af því sem það var í ársbyjun 2006. Gengi Microsoft hefur aftur á móti meira en þrefaldast á tímabilinu.

Hægt er að draga lærdóm af þessu. Hér eru nokkrir punktar.

Gengi safna (og vísitalna reynda líka) veltur oft á fáum fyrirtækjum. Það sem getur virst vera örugg fjárfesting á einum tímapunkti þarf alls ekki að vera svo, Citigroup er ágætis dæmi um það en bankinn var á þeim tíma sem safnið var sett fram stærsta fjármálafyrirtæki heims. Maður á alltaf að dreifa áhættu. Mótsagnarkennt eins og það má virðast þá felst oft í því fjárfestingar að ákveðnu marki í vaxtarfyrirtækjum, ekki bara það sem „allir“ telja vera öruggar fjárfestingar. Hafandi sagt það, maður á líka að fjárfesta í „leiðinlegum“ fyrirtækjum, eins og til dæmis Wal-mart. Gengi fyrirtækja sem hafa fallið mikið getur enn haldið áfram að falla enn meira eins og sést á gengi Nokia. Stundum rísa risar þó aftur upp á afturlappirnar eins og gengi bréfa Microsoft gefur vitnisburð um. Ekki er nóg að kaupa eitt fyrirtæki í ákveðnum geira, JPM bankinn bjargaði ávöxtun þessa safns þegar kom að fjármálafyrirtækjum. 

Því má við bæta að til að ná svipaðri markaðsáhættu og flestar vísitölur hlutabréfa þá þarf einungis að kaupa 18-20 hlutabréf sem eru vel dreifð hvað varðar atvinnugeirum.

MWM

[i] Ef einhver hefur upplýsingar um þetta þá má sá aðili hafa samband við mig.

Már Wolfgang Mixa

Már Wolfgang Mixa

Lektor í fjármálum við Háskólann í Reykjavík.

Stýrði rannsóknum á fjárfestingum sparisjóðanna við gerð Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um rannsókn á aðdraganda og örsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna, 2013-2014.

Meðdómari í tveimur veigamiklum málum tengd fjármálahruni Íslands.

Einn af höfundum "Costco skýrslunnar" í samstarfi við Zenter rannsóknir.

Starfaði í 15 ár í íslenskum bönkum og sparisjóðum sem forstjóri, yfirmaður verðbréfasviðs, við lausafjárstýringu, eigin viðskipti (innlend og erlend hlutabréf & skuldabréf), sjóðastýringu (innlend og erlend hlutabréf & skuldabréf), eignastýringu, FX, miðlun verðbréfa, uppsetningu séreignalifeyrissparnaðar, uppsetningu millibankaviðskipta, uppsetningu erlendra verðbréfaviðskipta og greiningu á fjárfestingakostum.

PhD Business Administration - Háskólinn í Reykjavík 2016

MSc Fjármál fyrirtækja - Háskóli Íslands 2009

B.S.B.A. Finance - University of Arizona 1994

B.A. Philosophy - University of Arizona 1994

Löggiltur verðbréfamiðlari - USA 1996 og Ísland 2001

Greinasafn - http://www.slideshare.net/marmixa

Hægt er að skrá sig á póstlista með því að senda beiðni til marmixa@yahoo.com með "póstlisti" í Subject. 
 

Besta ráðgjöfin: "When there is a stock-market boom, and everyone is scrambling for common stocks, take all your common stocks and sell them. ... No doubt the stocks you sold will go higher. Pay no attention to this -- just wait for the (recession), which will come sooner or later. When this (recession) -- or panic -- becomes a national catastrophe ... buy back the stocks. No doubt the stocks will go still lower. Again pay no attention. Wait for the next boom. Continue to repeat this operation as long as you live, and you'll have the pleasure of dying rich." Fred Schwed, 1940

Meira