c

Pistlar:

14. ágúst 2018 kl. 11:54

Pétur Blöndal (peturb.blog.is)

Tugþúsundir flokka á Fiskideginum mikla

Það var líf í tuskunum í fiskvinnslunni Marúlfi á Dalvík sl. miðvikudagsmorgun þegar meira og minna allir krakkar í sveitarfélaginu komu þar saman. Enda stóð ekki lítið til. Verkefnið var að pakka inn 15 þúsund skömmtum af þorski og bleikju í álpappír, þannig að hægt yrði að grilla það ofan í tugþúsundir gesta á Fiskideginum mikla. Fljótlega voru 140 krakkar á aldrinum þriggja og upp í sautján komin í hárnet og vinnugalla, farin að pakka í kassa, merkja og gera allt klárt.

„Suma krakkana hitti ég fyrst þegar þeir voru þriggja og nú eru þau orðin unglingar,“ sagði Friðrik V. þegar ég heyrði í honum um helgina, en þessi meistarakokkur er einn fjölmargra sem leggja hönd á plóg. „Enda eru þau orðin alvön, mæta tímanlega og fara beint í röð, þvo sér um hendurnar, fá sér svuntu, setja á sig hanska og hárnet og fara að vinna. Þetta gekk svo hratt núna, að ég þurfti að flýta pítsunni í hádeginu og segja lélega brandara á milli til að tefja aðeins fyrir!“Endurvinnsla1

Það er hreint ótrúlegt að upplifa þá vináttu og ósérhlífni sem liggur að baki Fiskideginum mikla, þar sem tugþúsundir koma saman og heilt bæjarfélag breiðir út faðminn. Í húsagörðum er ausið súpu í skálar fyrir hvern sem njóta vill á föstudeginum og á laugardeginum er boðið upp á súshí, fiskipítsu, fiskipylsur, fiskisúpu, harðfisk og grillaðan fisk – og svo er tónleikadagskráin á heimsmælikvarða.

Þegar mannfjöldinn er slíkur varðar miklu að umgjörðin sé traust. Liður í því er að huga að flokkun og endurvinnslu og þar láta skipuleggjendur hátíðarinnar ekki sitt eftir liggja. Mikið var lagt upp úr því að flokkunarker væru aðgengileg á svæðinu og kynnir hátíðarinnar og brautryðjandi Júlíus Júlíusson fór reglulega yfir það með gestum. Undirtektir voru frábærar. Sumir gengu jafnvel svo langt að gæða sér á kræsingunum við flokkunarkerin sjálf svo að umbúðirnar rötuðu nú örugglega á sinn stað.  

Flokkun og endurvinnsla er auðvitað undir samtakamætti almennings komin og öllum má vera ljóst að mikil vitunarvakning hefur orðið hér á landi. Grunnurinn að átakinu á Fiskideginum mikla er lagður með samstarfi fjögurra aðila, Samáls – samtaka álframleiðenda, Sæplasts, Gámaþjónustu Norðurlands og Fiskidagsins mikla. Nú var flokkaður álpappír, plast og almennt sorp ásamt því að dósir og plastflöskur voru flokkaðar af Björgunarsveitinni á Dalvík og rann ágóðinn af þeirri söfnun óskiptur til sveitarinnar. Á næstu árum er stefnt að enn meiri flokkun og að því að fá fleiri að borðinu.

Þegar ég átti samtalið við Friðrik V. sagði hann skemmtilegt að geta sagt við krakkana og unglingana sem pökkuðu inn fiskinum í álpappír að efnt yrði til flokkunarátaks og álið myndi nýtast aftur til framleiðslu á öðrum hlutum, til dæmis pönnukökupönnum. Hverjum finnast ekki pönnukökur góðar? Það munar nefnilega um ál sem safnað er, enda er það þeim eiginleika gætt að það má nýta aftur og aftur án þess það tapi upprunalegum gæðum.

Flokkun og endurvinnsla er bylgja sem verður ekki stöðvuð og það var gaman að sjá hversu vel tókst til á Fiskideginum mikla.  

Pétur Blöndal

Pétur Blöndal

Þessa þanka skrifar framkvæmdastjóri Samáls, samtaka álframleiðenda, bókahöfundur og forðum blaðamaður.

Meira