Öðru hvoru er ástæða til að velta fyrir sér atvinnustefnu hins opinbera, ekki síst til að meta hvaða afstöðu stjórnvöld hafa til atvinnulífsins í landinu. Fyrsta spurningin hlýtur þó að vera hvort það eigi yfir höfuð að vera atvinnustefna hjá ríkisvaldinu? Er skynsamlegt að ríkisvaldið sé að móta eða leggja línurnar fyrir atvinnulífið í landinu? Endar það ekki með ýktum áherslum á fáar tilteknar greinar sem síðar leiðir af sér kollsteypu og gjaldþrot?
Nokkur atvik að undanförnu varpa ljósi viðhorf almennings og stjórnvalda til atvinnustefnu hér á landi. Það vakti athygli þegar kom í ljós að 94% landsmanna telja íslensk fyrirtæki skipta öllu eða miklu máli þegar kemur að því að skapa góð lífskjör á Íslandi. Þetta birtist í könnun sem Capacent Gallup vann fyrir Viðskiptaráð Íslands í aðdraganda Viðskiptaþings sem haldið var í síðustu viku. Á Viðskiptaþingi á sér stað samtal milli þátttakenda í atvinnulífinu og annara sem láta sig það einhverju varða; einstaklinga, hagsmunasamtaka og stjórnvalda. Það samtal er mis gáfulegt en allt þar til nú hefur forsætisráðherra landsins viljað vera hluti af þessu samtali, ýmist með því að útskýra eigin stefnu eða leggja við hlustir um það sem aðrir segja. Að þessu sinni kaus forsætisráðherra að vera áberandi í fjarveru sinni.
Mikilvægi smáfyrirtækja
Þó fyrrnefnd könnun sýni að almenningur telur að fyrirtæki skipti öllu máli þegar kemur að lífskjörum þá eru sannarlega ólíkar áherslur. Á fundi sem haldinn var í húsakynnum Sjálfstæðisflokksins fyrir skömmu um mikilvægi smáfyrirtækja vakti athygli mína að engin af þingmönnum flokksins sá sér fært að mæta. Smáfyrirtæki hafa þó alltaf verið kjarninn í atvinnulífi hverrar þjóðar. Þetta var Margrét Thatcher óþreytandi við að minna flokksmenn sína á sem margir hverjir vissu næsta lítið um atvinnurekstur þar sem ætternið hafði fært þeim allt á silfurfati í hinu stéttskipta Bretlandi. Þessu er gerð ágæt skil í nýrri mynd um Járnfrúna sem enn má sjá kvikmyndahúsi í Reykjavík. Það eru smáfyrirtækin - með 5 til 10 starfsmenn - sem skapa flest störf í þjóðfélaginu. Þau eru mikilvægust en einhverra hluta vegna eru það stórfyrirtækin sem fá mesta athygli, jafnt hjá þeim sem hafa trú á atvinnulífinu og hjá þeim sem augljóslega hafa það ekki. Það er þó lággróðurinn sem skiptir mestu, þar verða til störfin og verðmætasköpunin og er þá ekki verið að gera lítið úr félögum sem hafa vaxið til þess styrks sem þau hafa í dag.
Í síðustu viku var hér breskur prófessor, Robert Wade, sem hefur látið sig Íslands miklu varða og hefur fengið stöðu spámanns hjá sumum vinstri mönnum. Hann hélt fyrir lestur við Háskóla Íslands og í sjónvarpsþættinum Silfri Egils mælti hann fyrir einhverskonar atvinnustefnu háskólasamfélagsins. Nokkuð sem af hógværð var kölluð ,,vitræn atvinnustefna”! Allt virtist þetta snúast um að hér yrði að þróa nýjar atvinnugreinar í stað þeirra sem hefðu brugðist áður, svo sem fjármálageirans. Ef skilja mátti prófessorinn rétt þá taldi hann að háskólasamfélagið væri best til þess fallið að móta slíka atvinnustefnu. Hann taldi að markaðurinn væri svo ófullkominn að honum væri ekki treystandi og því yrðu háskólaprófessorar eins og hann að hugsa stefnuna! Það er til fólk sem allt þekkir en ekkert veit, var haft eftir heimsspekingnum Immanuel Kant í eina tíð. Þó Robert Wade komi hingað öðru hvoru, spjalli við vini sína í háskólanum og lesi hagskýrslur bendir samtali hans við Egil Helgason í gær til þess að hann viti lítið um íslenskt atvinnulíf.
Núverandi ríkisstjórn hefur sagt stórfyrirtækjum stríð á hendur og skiptir litu hvort þau eru í iðnaði eða sjávarútvegi. Á sama tíma vekur undrun hversu hirðulaus og skilningslaus yfirvöld eru gagnvart smáfyrirtækjum. Hátt í tvö hundruð breytingar á skattareglum síðustu þrjú ár hafa valdið þeim gríðarlegum erfiðleikum. Hækkun á tryggingagjaldi hefur mest áhrif á ráðningar smáfyrirtækja. Sama má segja um ýmis önnur íþyngjandi ákvæði.
Með skófarið á bakinu
Hér á viðskiptavef Morgunblaðsins um helgina var athyglisvert viðtal við eigendur tískuhönnunarfyrirtækisins Kron, þau Hugrúnu Árnadóttur og Magna Þorsteinsson. Þar kom fram að þrátt fyrir að hönnun og öðrum skapandi greinum hafi verið gert hátt undir höfði eftir hrun hjá íslenskum almenningi er upplifun þeirra Hugrúnar og Magna sú að hið opinbera sýni slíkri starfsemi lítinn skilning og hafi lítinn áhuga á að styðja við slíka starfsemi hér á landi. Einu styrkirnir sem hafa boðist eru frá einkaframtakinu.
Samskiptum sínum við stjórnvöld lýsa þau með eftirfarandi hætti: „Þeir sem geta breytt þessu, það er ráðuneytin, vísa alltaf á Íslandsstofu eða sendiráðin á meðan ákvörðunarvaldið er inni í ráðuneytunum sem virðast ekki hafa mikinn áhuga á að styðja við bakið á litlum fyrirtækjum sem eru að feta sín fyrstu spor í útflutningi.“ Í viðtalinu er rakið hvernig stjórnvöld hefta og stöðva framtakssemi hina ungu hönnuða með íþyngjandi regluverki og tafsömum og illiskiljanlegum tollareglum. Að ekki sé talað um vandkvæði þau sem gjaldeyrishöftin valda.
Allt segir þetta okkur að sem áður er árangursríkasta atvinnustefnan að gefa framtakssömu fólki tækifæri til að láta drauma sína rætast. Það eru gömul og ný sannindi.