c

Pistlar:

29. janúar 2013 kl. 14:52

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Skýr niðurstaða í Icesave-málinu

Óhætt er að leyfa sér að ætla að Icesave-krafan á hendur íslenskum skattgreiðendum sé endanlega úr sögunni eftir niðurstöðu EFTA-dómstólsins í gær. Óréttmætum kröfum verður ekki komið á Íslendinga í þessu máli og er ljóst að nokkrum stórslysum hefur verið afstýrt. Niðurstaðan segir okkur að þjóðin hafði fullkomlega lögmæt sjónarmið á bak við sig þegar hún hafnaði öllum tilraunum til að taka við þessum reikningi vegna falls einkabanka.

Það er athyglisvert að lesa niðurstöðu EFTA-dómstólsins, ekki síst vegna þess hve skýr og afdráttarlaus hún er. Það er manni til efs að sjónarmið Íslendinga hafi verið dregin fram á jafn skýran og einfaldan hátt. Það er engin lagaheimild fyrir ríkisábyrgð á innstæðukerfinu hér á landi eða á hinu Evrópska efnahagssvæði. Og um leið er ljóst að ekki er um að ræða neina mismunun þar sem engin hefur fengið greitt úr Tryggingasjóði innstæðueigenda. Það sem skiptir þó mestu - og getur haft áhrif víða - er að enn á ný stendur aðferðarfræði neyðarlaganna en EFTA-dómstólinn var í aðra röndina að fjalla um þau og beitingu þeirra.

Andi neyðarlaganna og gjaldeyrishöft

Neyðarlögin eru merkileg að því leyti að þau gera meðal annars tilraun til að skilja að einkaskuldir og opinberar skuldir. Um leið senda þeir spákaupmönnum heimsins skilaboð um að þeir verði ekki skornir úr snörunni þegar bólan springur. Það er fullkomlega eðlilegt að breyta kröfuröðinni við fall banka og tryggja innstæður umfram skuldabréfaeigendur eins og íslenska leiðin segir til um. Það er vegna þess að skuldabréfaeigendur eru oftar en ekki bóluvaldar. Á meðan venjulegt fólk verður að treysta á banka til að geyma peningana sína geta skuldabréfaeigendur nýtt sér undur fjármálamarkaða og skuldagírun kerfa. Þeir sem vilja nýta sér slíka aðferðafræði við ávöxtun fjár verða að bera ábyrgð á henni sjálfir. Neyðarlögin hafa sýnt að eignarrétturinn getur takmarkast af þeim áhættum sem kerfið hefur búið til. Jafnvel þó við viljum reka þjóðfélag sem virðir eignarréttinn þá höfum við sýnt að hann getur verið takmörkunum háður. Þessi andi neyðarlaganna ætti að ná til vaxtagreiðslna og meðhöndlunar þess erlenda fjármagn sem hér er fast inni og hefur kallað yfir okkur gjaldeyrishöft.

Því er það svo að þessi niðurstaða EFTA-dómstólsins ætti að vera íslenskum stjórnvöldum hvatning til að taka á gjaldeyrishöftum. Það er nefnilega svo skattgreiðendur og borgarar þessa lands skulda ekki spákaupmönnum skýringar á því hvernig við stýrum okkar fjármálaumhverfi og umgjörð okkar gjaldmiðils. Ef það þýðir það að því óþolinmóða fjármagni sem hér er statt sé haldið inni lengur og á lægri vöxtum verður svo að vera. Þeir kusu þá kerfisáhættu sem fylgir því að koma með fjármagn inn í íslensku bankabóluna. Það er tímabært að stjórnvöld fari að horfa til hagsmuna fólksins í landinu en ekki spákaupmanna sem hér eiga fé.