c

Pistlar:

4. apríl 2013 kl. 12:13

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Virkjanir, lífsgæði og umhverfið

Elliðaárnar og umhverfi þeirra er gríðarlega vinsæl útivistarparadís hjá höfuðborgarbúum. Þar má vetur sem sumar sjá mikinn fjölda fólks njóta útiveru og þeirrar náttúru sem þar er að finna. Vitaskuld er náttúran ekki óröskuð en líklega munu flestir Reykvíkingar sammála um að umhverfi sé fallegt og áhugavert. Ég veit að erlendum gestum finnst tilkomumikið að ganga þarna um og telja svæði einstakt.

En það er ekki aðeins að náttúra svæðisins sé falleg heldur hefur það einnig nýst til þess að bæta lífsskilyrði í Reykjavík. Rafstöðin við Elliðaár var tekin í notkun sumarið 1921 og var raforkan framleidd með tveimur vélum og flutt eftir háspennuraflínu að aðveitustöð á Skólavörðuholti. Í rafstöðinni má sjá tækjabúnað sem er sá elsti sinnar tegundar á landinu sem enn er í notkun. Segja má að rafmagnsframleiðslan í Elliðaánum hafi verið upphaf rafvæðingar bæjarins. Áður höfðu verið reknar litlar olíurafstöðvar og því var Elliðaárstöðin til að draga úr mengun á sínum tíma um leið og hún sparaði innflutt eldsneyti.

Vesturfari og konungur komu að málum

Það mun reyndar hafa verið vesturfarinn Frímann B. Arngrímsson sem hvatti fyrstur manna til athugunar á möguleikum til virkjunar Elliðaánna til hitunar og lýsingar húsa í Reykjavík. Bæjarstjórn samþykkti þó ekki byggingu rafstöðvar þar fyrr en í september 1918. Guðmundur Hlíðdal og Jón Þorláksson, verkfræðingar, voru þá búnir að leggja fram tillögur um virkjanir þar. Önnur byggðist á breytingu farvegar ánna og virkjun við Grafarvog en hin á virkjun við Ártún.

Bæjarstjórn ákvað 4. desember 1919 að reisa 1.500 hestafla stöð við Ártún og að stífla árnar rétt fyrir ofan Árbæjarhólma. Þaðan var lögð rúmlega eins kílómetra löng þrýstivatnspípa úr timbri að stöðvarhúsinu og nýtanlega fallhæð var 40 metrar. 10. maí 1921 eða átján mánuðum eftir samþykki bæjarstjórnar var stöðin tekin í notkun. Straumi var hleypt á til bæjarins 23. maí. Kristján X og Alexandrína drottning hans vígðu stöðina 27. júní 1921.

Árið 1922 var stíflan síðan hækkuð og 1923 var var rafali bætt við og árið 1933 hinum fjórða, auk hækkunar stíflunnar öðru sinni. Þá var afl stöðvarinnar orðið 3160 kW eins og það er enn þá. Fjórða vélasamstæðan framleiddi rafmagn, sem var notað vegna framkvæmda við Ljósafossvirkjun í Soginu þar til hún var gangsett 1937. Hinn 3. júní var farið að nota rafmagn í bænum. Rafmagn komst í 773 hús í júní og næstu sex mánuði bættust 100 við en nánari upplýsingar um þetta má finna á heimasíðu Orkuveitu Reykjavíkur. Rafvæðing Reykjavíkur var hafin sem hafði mikil áhrif, bætti lífsskilyrði og lífsgæði bæjarbúa.

Átti að útvega rafmagn en dró úr mengun

Eftirspurnin eftir rafmagni jókst með vaxandi íbúafjölda. Reykvíkingar höfðu notað kol, olíu og gas til ljósa, hitunar og eldamennsku, en rafmagnið sannaði fljótt gildi sitt. Brátt voru komnir raflampar til lýsingar á götum, í verslunum, samkomuhúsum og á heimilum og iðnaður jókst. Elliðaárstöðin hætti að anna eftirspurninni óbreytt, þannig að nauðsynlegt var talið að ráðast í þessar stækkanir.

Elliðaárstöðin er enn þá rekin frá októberbyrjun til aprílloka með fullum afköstum og vélaraflið er óbreytt frá 1933. Árið 1969 var Árbæjarstíflan endurbætt og suðurhlutanum breytt í yfirfallsstíflu, sem er stýrt með geiralokum. Jarðvegsstíflan við norðurendann var endurbyggð og nýtt varðskýli reist í stað hins gamala árið 1980.

Myndu íbúar vilja hverfa til fyrra horfs?


En af hverju er verið að rekja þetta hér? Jú stundum er vert að minnast þess að arður af framkvæmdum getur orðið annar og meiri en til var stofnað, þannig var í fyrstu aðeins ætlunin að afla rafmagns frá Elliðaárstöðinni en um síðir dró hún verulega úr mengun. Í dag eru mannvirkin óumdeilur hluti af umhverfinu, rétt eins og til dæmis Sognsvirkjanirnar. Það væri forvitnilegt að kanna hug íbúa í nágreninu; hvort þeir myndu vilja láta rífa mannvirkin við Elliðaárnar eða láta þau standa. Það væri vel mögulegt að rífa stíflu og hús og færa umhverfið aftur til fyrra horfs. Sá er þetta skrifar hefur efasemdir um að íbúarnir myndu vilja það svo tamt er þeim orðið að líta á mannvirkin sem hluta af umhverfinu. Þetta er ekki sagt til að gera lítið úr þeim breytingum sem mannvirki hafa á náttúruna en fráleitt er að tala eins og margir náttúruverndarsinnar sem láta stundum eins og allt sé lagt í rúst og ekkert sé afturkræft. Í Elliðaárdal væri hægt að færa allt til fyrra horfs kysu íbúar það og hugsanlega án mikils kostnaðar þar sem önnur og arðbærari orkumannvirki hafa tekið við. Þetta á líka við um þau mannvirki sem mest er rifist um í dag. Ef Kárahnjúkastífla yrði rifin - sem vel er mögulegt - þá tekur líklega ekki nema nokkra áratugi þar til endurnýjunarmáttur náttúrunnar hefur fært allt í fyrra horf.