c

Pistlar:

2. maí 2013 kl. 18:19

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hvað vill þjóðin í orkumálum?

Það er ávallt erfitt að meta hvað kosningar segja um vilja kjósenda þegar kemur að einstökum málaflokkum. Sérstaklega þegar tveir málaflokkar vegast á eins og á að hluta til við um náttúruvernd og orkunýtingu. Bæði Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur sögðu fyrir þessar kosningar að þeir vildu taka upp rammaáætlun og ekki var annað að heyra en að þessir flokkar styddu frekari nýtingu orkuauðlindarinnar, a.m.k. meiri en síðasta ríkisstjórn sem virtist vera alfarið á móti nýtingu orkulinda landsins. Eða allt þar til Bakkaverkefnið var samþykkt í ríkisstjórninni sem kom mörgum stuðningsmönnum ríkisstjórnarflokkanna á óvart, sérstak innan Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs.

Ef við skoðum fyrst það sem Sjálfstæðisflokkurinn lagði áherslu á í kosningabaráttunni þá sést að hann taldi að arðsöm uppbygging og nýting vistvænna auðlinda landsins í sátt við umhverfissjónarmið væri lykilatriði í framtíðaruppbyggingu íslensks hagkerfis. „Opinber raforkufyrirtæki skulu hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem þeim er treyst fyrir með sjálfbæra nýtingu, hagkvæmni og verðmætasköpun að leiðarljósi. Auður Íslendinga felst ekki einungis í fallvötnunum og þeirri orku sem býr í iðrum jarðar, heldur einnig og ekki síður í sérþekkingu sem heimsbyggðin kallar eftir," sagði í stefnuskrá Sjálfstæðismanna.

Framsóknarflokkurinn var heldur stuttorðari í sinni stefnu en hann lagði áherslu á að nýta og þróa áfram endurnýtanlega orkugjafa. Flokkurinn lagði áherslu á að rammaáætlun yrði endurskoðuð í samræmi við niðurstöðu faghópa sérfræðinga.

Hver vill virkjun?

Þessi flokkar fengu sterkt umboð til að ráða hér málum næstu fjögur árin. En hvað vill þjóðin þegar kemur að orkunýtingu í okkar orkuríka landi? Jú, líklega höfum við öll ákveðna þolinmæði fyrir því raski sem má verða vegna slíkra hluta eins og á reyndar við um aðra athafnamennsku í landinu. Sumir hafa þannig litla þolinmæði þegar kemur að orkuframkvæmdum og enn minni þegar kemur að stóriðju. Og eru jafnvel fljóti að kenna þeim um breytingar sem gætu átt allt aðrar skýringar eins og hefur verið rakið áður. En látum það vera. Skoðum vilja þjóðarinnar eins og hann hefur birst í skoðanakönnunum í gegnum tíðina. Hafa verður í huga að þessar niðurstöður geta breyst mjög frá einum tíma til annars. Í könnun sem Gallup gerði fyrir iðnaðarráðuneytið seinni hluta árs 2003 kom í ljós að tveir af hverjum þremur landsmönnum voru fylgjandi álveri Alcoa á Reyðarfirði. Þá hafði stuðningur við verkefnið aukist um sex af hundraði frá sambærilegri könnun sumarið á undan. Þetta sýndi hins vegar afstöðu fólks lengst af og sýnir að ákvarðanir um álversframkvæmdir voru teknar í góðum takti við þjóðarviljann á þeim tíma.

Það sést jafnvel enn betur þegar könnun Gallup, sem birtist í desember 2006, er skoðuð. Þar kom í ljós að stuðningur við byggingu álvera var enn mikill. Þannig voru rúmlega 58% Norðlendinga hlynnt byggingu álvers við Húsavík og rúmlega 75% Húsvíkinga. Í könnun þessari kom einnig í ljós, að hvorki fleiri né færri en 82% Austfirðinga voru hlynnt byggingu álversins við Reyðarfjörð. Þessar tölur lækka um leið og horft er til fylgis við slíkar framkvæmdir á landsvísu. Þó sýndi könnunin að 51% á landsvísu studdu byggingu álversins fyrir austan. Í frétt Morgunblaðsins á þeim tíma undruðust menn þessa niðurstöðu í ljósi mikillar náttúruverndarbylgju sem hafði gengið yfir landið sumarið á undan. Þrátt fyrir það vildi þjóðin virkja og nýta auðlindirnar hvað sem hávaðasamur minnihluti hefur reynt að segja síðar meir.

Þegar spurt er um einstaka virkjun

En hugsanlega breytist þessi afstaða þegar spurt er um einstakra framkvæmdir á Norðurlandi. Á aðalfundi Landverndar í aprílmánuði var kynnt niðurstaða könnunar sem Capacent Gallup vann fyrir Landvernd. Samkvæmt henni eru 43,6% svarenda andvíg virkjanaframkvæmdum í Bjarnarflagi við Mývatn en 30,5% eru hlynnt þeim. Í sömu könnun var spurt um afstöðu fólks til þess að fleiri álver yrðu reist hér á landi til viðbótar við þau sem þegar eru starfandi. 51,3% reyndust andvíg fleiri álverum en 30,9% hlynnt. Ekki finnast upplýsingar um nákvæmlega hvernig spurningarnar eru orðaðar en í ljósi umræðunnar koma þessar niðurstöður ekki á óvart. Hafa verður í huga þegar þessi niðurstaða er skoðuð að engin vill í raun virkjun eða mannvirkið sem slíkt. Það eru væntanlega störfin sem skapast vegna virkjana sem fólk sækist eftir. Ef spurt hefði verið; telurðu ásættanlegt að ráðast í Bjarnaflagsvirkjun til að skapa hundruð varanlegra starfa á Húsavík - þá er hugsanlegt að niðurstaðan hefði orðið önnur.

Töldu jarðvarma æskilegri

En fleiri kannanir hafa verið gerðar um lík málefni sem forvitnilegt getur verið að rýna í. Þannig töldu tveir af hverjum þremur æskilegra að nýta jarðvarma en fallvötn í könnun sem Capacent Gallup gerði fyrir Orkuveitu Reykjavíkur seinni hluta árs 2007. Í könnuninni var boðið upp á fjóra kosti, það er hvort æskilegra væri að nýta jarðvarma, virkja fallvötn, báðar leiðir væru jafn æskilegar eða báðar jafn óæskilegar.

Tæp 66 prósent sögðu jarðvarmann æskilegri, tæpur fjórðungur nefndi báðar leiðir, rúm níu prósent sögðu virkjun fallvatna æskilegri og 0,3 prósent töldu báða kosti jafn óæskilega.

Þessi könnun var gerð þegar umræða um umhverfisáhrif vatnsaflsvirkjana var fyrirferðamikil og því töldu margir skynsamlegt að hverfa yfir í jarðvarma. Sem er kannski ekki svo skynsamlegt þrátt fyrir allt því hröð nýting hans til raforkuframleiðslu er hugsanlega eitthvað sem ekki ber að stefna að.