c

Pistlar:

6. janúar 2014 kl. 16:13

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Besta ár allra tíma!

Um nýliðin áramót birtust óteljandi úttektir og greinar sem reyndu að meta stöðu mála í heiminum. Sem gefur að skilja eru þessar úttektir undir ýmsum formerkjum, stundum til að skemmta og stundum til að upplýsa. Víða mátti sjá það viðhorf að nýliðið ár hefði verið það besta sem mannkynið hefur upplifað. Samkvæmt þeim aðferðum sem þar er beitt er ekki ólíklegt að ætla að svo hafi einnig verið með undanfarin ár og einnig þau sem eftir eiga að koma, nema beinlínis komi til heimsstyrjaldar eða einhverrar þeirrar alheimshörmungar sem margir hafa gaman af því að velta fyrir sér.

Í mörgum þessara greina sem gera árið upp ríkir framfarahyggja sem er studd af tölulegum gögnum. Um slíka framsetningu má alltaf deila en eðlilegt er að reyna að koma við slíkum viðmiðum þar sem það á við. Það er reyndar svo að heimurinn hefur undanfarin áratug stuðst við markmiðssetningu þá sem finna má í þúsaldarmarkmiðunum svokölluðu. Þau gefa sterkar vísbendingar um að heiminum þoki áfram þrátt fyrir bölsýnina sem alla jafna dynur á okkur. Hugsanlega finnst mönnum affarasælast að ástunda svartsýni, það er eins og mörgum finnist stutt á milli bjartsýni og barnaskapar. Sá er varar við virðist alltaf vera með allt á hreinu, eða er það svo?

Þúsaldarmarkmiðin komu í kjölfar þess að í september árið 2000 hétu fulltrúar 147 ríkisstjórna að stuðla að því að fátækt í heiminum myndi minnka um helming fram til ársins 2015. Þetta var eitt af þeim mörgu markmiðum sem sett voru fram undir formerkjum þúsaldarmarkmiðanna (Millennium Development Goals - MDGs) Sameinuðu þjóðanna. Ríkisstjórnir um allan heim hétu því þá að berjast fyrir menntun og eyða hungri, fátækt og mannskæðum sjúkdómum fyrir árið 2015. Undirritaður gerði þessum markmiðum ýtarleg skil í nokkrum pistlum sem birtust síðasta sumar í tilefni komu Ban Ki-Moon, aðalritara Sameinuðu þjóðanna, hingað til lands.

Aldrei sköpuð eins mikil verðmæti

En víkjum að nýliðnu ári. Tímaritið The Spectator var með umfjöllun um miðjan desember þar sem reynt var að útskýra af hverju 2013 er það besta í sögu mannkyns (eins og tímaritið leyfði sér að fullyrða í fyrirsögn). Þar var tæpt á mörgum þáttum en byrjað á því að fullyrða að aldrei hafi verið sköpuð jafn mikil verðmæti í heiminum. Og það sem meira er, aldrei hafi þessum auði verið deilt út á eins jafnan hátt. Til að útskýra þetta fara þeir einmitt yfir þúsaldarmarkmiðin og þá vegvísa sem þar má finna. Þar er mikilvægust skilgreiningin á algeri örbirgð (exstreme poverty) en það á við um fólk sem reynir að komast af á 1,25 Bandaríkjadölum á sólarhring. (The Spectator styðst reyndar við 1 dollara viðmiðið sem var hækkað upp sökum verðbólgu fyrir nokkrum árum.) Verulega hefur unnist í stríðinu við örbirgð og hundruð milljóna manna flust úr þeim hópi á undanförnum árum.

Flest viðmið sem sett voru fram vegna þúsaldarmarkmiðanna sýna umtalsverða breytingu. Þar munar auðvitað mestu um efnahagslega framþróun í löndum eins og Kína og Indlandi en sökum mannfjölda þar þá sveigja þau ein og sér öll heimsmeðaltöl. En það skiptir líka máli að miklar breytingar hafa orðið í Suður-Ameríku með Brasilíu í fararbroddi. Einnig hafa orðið gríðarlegar breytingar í Afríku og er nú svo komið að menn trúa því í alvöru að hægt sé að þoka málum þar áfram til betri vegar. Svo dæmi séu tekin þá stunda nú talsvert fleiri börn í löndum sunnan Sahara skóla en áður. Víða í löndum Afríku er nú umtalsverður hagvöxtur þó pólitískur óstöðugleiki sé sem fyrr helsta áhyggjuefnið.

aramot2014

Þokar málum áfram á Íslandi?

Og hvað er hægt að segja um stöðu mála á Íslandi? Er hér ekki allt í volæði sem áður? Nú þegar við erum að jafna okkur á afleiðingum bankahrunsins er áhugavert að lesa um það ástand sem hér ríkti í kjölfar siðaskiptanna á 16. öld en undirritaður hefur nýlega verið að lesa stórmerka bók Vilborgar Auðar Ísleifsdóttur, Bylting að ofan. Hún er byggð á doktorsritgerð Vilborgar um siðbreytinguna og gefur skýra innsýn í lífshætti hér á landi á þeim tíma. Það hvarflar að manni við lestur bókar Vilborgar að Ísland hafi verið nánast  óbyggilegt land á þeim tíma enda lífsskilyrði fádæma hörð. Í dag er Ísland í fjórða sæti yfir langlífi í heiminum, og við höfum verið svo lengi í efstu sætum á þeim lista að við erum hætt að taka eftir því. Lífslíkur og heilsufar hér á landi er með því besta sem gerist í heiminum og flestir öfunda okkur af því. Almenn vellíðan er hér meiri en víðast annars staðar.

En árið 2013 markaði líka tímamót að því leyti að þá er talið að í fyrsta skipti hafi fleiri dáið af völdum lífsstílstengdra sjúkdóma í heiminum en af völdum hungurs eða vanæringar. Yfir þriðjungur jarðarbúa er nú yfir kjörþyngd og einn milljarður manna telst eiga við offitu að glíma. Við Íslendingar höfum ekki farið varhluta af slíkum breytingum og um hver áramót strengir stór hluti landsmanna heiti um að hreyfa sig meira.

Margt jákvætt hefur einnig gerst þótt ekki fari hátt um það. Lengi vel tók sjórinn mikla tolla og stundum var eins og landsmenn sættu sig við það. Hið örlagaríka ár 2008 urðu þau tímamót að engin sjómaður fórst í sjóslysi. Það hefur gerst að minnsta kosti einu sinni síðan. Það hefðu þótt mikil tíðindi í eina tíð þegar sjórinn krafist gríðarlegra fórna af þessari fámennu þjóð á hverri vetrarvertíð. Yfir þessum breytingum er sannarlega hægt að gleðjast.