c

Pistlar:

30. janúar 2014 kl. 23:18

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Fátækt útrýmt árið 2035?

Hugsanlega myndu flestir í sporum Bill Gates vera nokkuð bjartsýnir á tilveruna. Maður sem hefur vanist þeirri hugsun að vera ríkastur manna á jörðinni og er í aðstöðu til að gera nokkurn veginn það sem hann vill ætti bara að vera nokkuð ánægður.  Og sannast að segja er Bill Gates bjartsýn og nánast sjálfsumglaður, svo mjög að manni dettur í hug kvæði Sigurðar Péturssonar sýslumanns sem er að líkindum ort á 18. öld:

Hann var ríkur; hann átti auðinn

uxa, hesta, skip og sauðinn,

handarjökul og hrannarglans,

hér með átti hann ennþá meira,

sem alla furða mun að heyra,

það voru ótal þúsund manns.

Sigurður hefur ekki haft ímyndunarafl til að sjá fyrir sér auðsæld manna eins og Bill Gates en í kvæðum sínum tók hann gjarnan málstað hinna undirokuðu um leið og hann spottaði höfðingjana fyrir ranglæti þeirra og hroka. Á þeim tíma sem Sigurður var uppi var upplýsingin að halda innreið sína á Íslandi, vonum seinna myndu margir hafa sagt, enda hafði hún riðið húsum í Evrópu um nokkurt skeið þar á undan. Landsmenn urðu hins vegar að þola ríflega 100 ár til viðbótar áður en efnahagur tók að batna verulega.

Hugsanlega er Bill Gates besta dæmið um ,,upplýsingamann" í heiminum í dag. Eftir að hafa áskotnast auður sem jafnast á við efnahag smærri ríkja heims hefur hann helgað sig baráttu fyrir bættum heimi. Er nú svo komið stofnun sú sem kennd er við Bill og Melindu konu hans hefur afl á við flestar alþjóðlegar stofnanir þegar kemur að skipulagningu og framkvæmd mannúðarmála eins og áður hefur verið rakið í pistlum hér. Þegar Bill Gates hefur upp raust sína leggja flestir við hlustir. Fyrir skömmu kom út árlegt ávarp hans og þar varpar hann fram þeirri spá að fátækt verði útrýmt árið 2035. Þar sem svartsýnismennirnir eru oftast heldur meira áberandi en þeir bjartsýnu þá má ætla að margir hrökkvi við þegar þeir sjá slíka spásögn. Hugsi jafnvel sem svo að þetta sé annað hvort barnaskapur hjá auðmanninum eða hreinn og klár áróður. Þá væntanlega áróður í þeim tilgangi að fá fólk til að sætta sig við magurt hlutskipti í stað þess að ráðast í endurbætur á samfélaginu á forsendum stéttabaráttunnar eða annarra handhægra byltingaaðferða.

Bill-Gates-Foundation-world-health-problems

Millistéttir að verða til

En margt styður málflutning Gates enda setur hann fram ýmsar tölur máli sínu til stuðnings og flestar benda þær til umtalsverðra breytinga í efnahag heimsins. Upp úr 1960 var svo komið að nánast allur mælanlegur auður heims var í vestrinu. Tekjur á mann í Bandaríkjunum voru þá 15.000 dollarar. Hver fjögurra manna fjölskylda hafði úr 60.000 dollurum að moða á ári. Í öðrum heimsálfum; Asíu, Afríku og Suður-Ameríku var fólk sannarlega fátækt. Tekjur á mann í Brasilíu voru 1.987 dollarar, í Kína voru tekjurnar 928 dollarar og í Botswana aðeins 383. Þegar hugsað er til þess að lengi vel var það viðmið við lýði að ef fólk hafði undir einum dollara á dag þá var það fátækt. Sé það viðmið notað var hver einasti íbúi Botswana fátækur!  Gates rifjar upp sín fyrstu heimsókn til höfuðborgar Mexíkó árið 1987. Hann segist hafa orðið undrandi á allri þeirri fátækt sem hann sá þar. Varla hafi verið rennandi vatn að fá og stór hluti íbúanna þurfti að leggja á sig að ferðast langa vegalengd til þess að ná í neysluhæft vatn. Mengunin hafi verið slík að starfsmaður Microsoft í borginni taldi sig þurfa að senda börn sín reglulega til Bandaríkjanna til að fylgjast með heilsu þeirra. Gates telur að þarna hafi orðið gríðarleg breyting. Loftið sé nú eins hreint og í Los Angeles (sem varla telst til fyrirmyndar en er samt framför), bæjarbragurinn hefur gerbreyst vegna nýrra háhýsa og stórbættra samgöngumannvirkja. Þó enn sé mikið um fátækt í borginni geti aðkomumaður ekki annað en undrast breytingarnar segir Gates.  Lífshættir millistéttarinnar séu að verða ríkjandi.  

Önnur dæmi segja svipaða sögu. Tekjur á mann í Tyrklandi og Chile eru nú jafnmiklar og þær voru í Bandaríkjunum 1960. Malasía er við það að ná þessu viðmiði og sama má segja um Gabon. Þá er ekki verið að tala um þær ótrúlegu breytingar sem hafa orðið á Indlandi, í Kína, Brasílíu og mörgum öðrum nýmarkaðsríkjum. Síðan 1960 hafa tekjur á mann í Kína áttfaldast, á Indlandi hafa þær fjórfaldast, þrefaldast í Brasilíu og smáríkið Botswana, sem var tekið sem dæmi hér að framan sem það fátækasta af öllu fátækum, þar hafa tekjurnar 30 faldast og eru meðaltekjur þar núna um 12.000 dollarar á ári. Nú sé komin fram hópur þjóða með bærileg lífsgæði sem varla var til umræðu fyrir 50 árum.

Þjóðir eru ekki dæmdar til fátæktar

Gates segir að allt þetta hafi kollvarpað þeirri staðföstu trú margra að fátækar þjóðir séu dæmdar til halda áfram að basla í fátækt. Þvert á móti séu margar þeirra nú með lífvænleg hagkerfi. Hlutfall ofurfátækra landa hafi dregist saman um helming síðan 1990. Þó enn búi um milljarður manna við fátækt þá sé langt í frá að þessum hópi séu allar bjargir bannaðar. Gates gengur meira að segja svo langt að segja að skilgreiningin í þróaðar og vanþróaðar þjóðir eigi tæpast lengur við. Sum lönd sem áður töldust í hóp þróunarlanda teljist nú þróuð. Vissulega finnist lönd sem lítil sem engin merki sýni um framþróun en þau séu í raun sárafá.

Við skulum gefa Gates orðið: ,,Ég er nógu bjartsýn til að koma með spásögn. Árið 2035 munu varla verða til fátæk ríki í heiminum og þá styðst ég við núverandi skilgreiningu á fátækt. Nánast öll lönd heims munu þá hafa náð því að vera með lægri meðaltekjur (e. lower-middle income) eða ríkari. Lönd munu læra af farsælli nágrönum sínum og geta hagnýtt sér nýja og breytta tækni og upplýsingar svo sem á sviði bólusetningar, betra útsæðis og hinnar stafrænu byltingar. Vinnuafl þessara landa verður verðmætara vegna aukinnar menntunar og mun draga að sér nýtt fjármagn til fjárfestinga."

Vissulega eru nokkur lönd sem virðast dæmd til að hírast í myrkrinu. Norður-Kórea er augljóst dæmi og stríð getur leikið lönd grátt eins og við erum að sjá í Sýrlandi þessi misserin. Það breytir hins vegar ekki heildarmyndinni, heimurinn þokast hægt og bítandi í átt til þróunar og framfara segir Gates og það er freistandi að taka undir það með honum. Því miður verður þó áfram til fátækt fólk í öllum hlutum heims. Flest fólk mun þó lifa í löndum sem eru sjálfbjarga segir Gates. Allar þjóðir Suður-Ameríku, Asíu og Mið-Ameríku (að Haítí hugsanlega undanskyldu) munu verða komnar í hóp millitekjuþjóða árið 2035. Meira en 70% þjóða heims munu þá hafa hærri meðaltekjur en eru í Kína í dag. 90% þeirra munu hafa hærri meðaltekjur en finnast á Indlandi nútímans. Ef þetta gengur eftir mun heimurinn sannarlega breytast en það eru einmitt breytingar undangenginna áratuga sem styðja þessa spá ríkasta manns heims.