c

Pistlar:

18. maí 2014 kl. 13:42

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Breytingar og byggðaþróun

Líklega var það gríski heimsspekingurinn Herakleitosi sem orðaði fyrst með skýrum hætti þá hugsun að allt sé breytingum undirorpið; maður stígur aldrei tvisvar í sömu ánna, benti hann á. En þó að hin augljósa lexía lífsins sé, að aðeins er víst, að allt breytist þá er eins og mannskepnunni sé áskapað að snúast gegn breytingum. Sérstaklega virðist stjórnmálaöflunum vera mikilvægt að reyna að stjórna heiminum þannig að breytingar verði sem minnstar. Allt í þeirri trú að skipulag verði að vera á hlutunum og ef skipulagið á að virka er ekki pláss fyrir breytingar. Í því sambandi má rifja upp gamansögu af Salisbury lávarði, fyrsta forsætisráðherra Breta á 20. öldinni (1895-1902), en þegar hann var beðinn af Viktoríu drottningu að íhuga umbótatillögur var svarið: Breytingar? En yðar hátign, eru hlutirnir ekki nógu slæmir fyrir eins og þeir eru? En auðvitað gengur það ekki, hið ófyrirséða tekur völdin, hreyfing tekur kyrrstöðunni fram. Hafa verður í huga að eina ráðið til að tryggja að hægt sé að stíga í sama vatnið tvisvar er að stífla ánna og breyta henni í kyrran poll. Nokkuð sem fáir vilja í raun enda drekkur engin vatn úr slíkum polli.

Þróun byggðar er eitt þeirra atriða sem stjórnmálamenn vilja svo gjarnan stýra og stöðugt heyrast fréttir af byggð í hættu eða ,,þorpi á heljarþröm" eins og fjölmiðlar á níunda áratug síðustu aldar sögðu gjarnan. Þá var hart sótt að ýmsum sjávarþorpum og var þá ekki hægt að kenna kvótakerfinu um eins og núna. Staðreyndin er sú að flest þorp á Íslandi eru sjávarþorp og þau hafa átt sitt ris og fall, oft vegna atburða sem flestum reynist ófært að stýra, svo sem viðkomu fiskistofna, nú eða breytinga á samgöngum. Við skulum skoða nærtækt dæmi. Pistlaskrifari hefur lengi haft mikið yndi af því að koma á Eyrarbakka og er sannfærður um að bæjarfélagið eigi áhugaverð tækifæri í ferðaþjónustusamfélagi því sem er að verða til hér á landi. Saga Eyrarbakka er hins vegar áminning um að allt er breytingum undirorpið. Við skulum stikla á stóru.

Í hafnlausu landi

Frá landnámi hafa skip komið að landi í kringum ósa Ölfusár. Á 13. öld er Einarshöfn höfn Skálholtsbiskupa og aðal útflutningsstaður Suðurlands og þangað komu að sjálfsögðu skip Hákons Noregskonungs eftir að Íslendingar sóru honum hollustu sína. Einarshöfn var undanfari Eyrarbakka en eins og annað er ofrausn að tala um höfn, lengst af voru engar hafnir á Íslandi og skipakomur að utan voru bundnar við sumarmánuðina. Að vetri sigldi engin. Verslunin festi smám saman rætur en fátt markvert gerist næstu aldir eða allt þar til Danakonungur heimilar dönsku verslunarfélagi að setja upp sumarverslunarstað í Einarshöfn 1602, rétt í þann mund að einokunarverslunin heldur innreið sína. Lefolii-ættin eignast dönsku einokunarverslunina á Eyrarbakka 1868 en um þær mundir var svo mikill kraftur í Eyrarbakkaversluninni að hún rak jafnframt útibú í Hafnarfirði. Auk þess var verslunin með aðstöðu í Þorlákshöfn og á Stokkseyri. Mikil stakkaskipti urðu á verslunarháttum til hins betra við þetta og verslunin var sú viðamesta á landinu í tíð Lefolii. Margir fleiri efndu til verslunarreksturs á Eyrarbakka næstu áratugi. Eyrarbakki varð einn stærsti bær á Íslandi og var á þeim tíma mun stærri en t.d. Reykjavík og leit lengi út fyrir að Eyrarbakki yrði höfuðborgin. Árið 1880 lögðu Sunnlendingar til við Alþingi að Eyrarbakki fengi kaupstaðaréttindi en af því varð ekki vegna andstöðu á þingi.

En það voru breytingar á samgöngum sem höfðu að lokum mest að segja um það að Eyrarbakki missti stöðu sína sem verslunarstaður. Í lok 19. aldar verður til vísir að vegakerfi á Suðurlandi, nokkuð sem hentaði ekki Eyrarbakka sem hætti smám saman að vera í alfaraleið. Hafist var handa við gerð vegar milli Eyrarbakka og Kaldaðarnes 1878. Smíði Ölfusárbrúar hefst 1890 og kom brúarefni til landsins það ár. Vegir voru engir og efnið var dregið á sleðum á harðfenni og ís um veturinn upp að Selfossi. Var því verki að mestu lokið í janúar 1891 en brúin var vígð í september sama ár.

Samgöngur móta atvinnulífið

Árið 1919 voru tólf verslanir á Eyrarbakka en þá bjuggu um eittþúsund manns á staðnum. Árið 1920 verður ákveðinn vendipunktur og Eyrarbakki missir stöðu sína og Selfoss tekur við sem höfuðstaður Sunnlendinga. Bílaöldin var runnin upp og Eyrarbakki varð úrleiðis. Stórfljótin Ölfusá og Þjórsá höfðu verið brúuð og samgöngur þræddu sig í gegnum brúarstæðin. Egill Thorarensen fékk verslunarleyfi á Selfossi 1919 og Kaupfélag Árnesinga hóf sína vegferð. Einnig skipti máli að höfnin í Reykjavík var tekin í notkun 1917 og með stækkandi skipum missti Eyrarbakki aðdráttaraflið. Höfnin sjálf var reyndar aldrei merkileg enda nánast fyrir opnu úthafi. Á velmektardögum Eyrarbakka lágu öll kaupskip fyrir akkerum á sjó úti. Engin treysti sér á stórskipi inn í skerjagarðinn. Frá 1919 og framyfir 1960 fækkar íbúum Eyrarbakka og þeir verða fæstir 460 uppúr 1960. Verslununum fækkaði líka þar til einn þrjóskur kaupmaður sat eftir. Nútíminn afvopnaði verslunarstaðinn Eyrarbakka.

Í byrjun 20. aldar hófst tímabil útgerðar og fiskvinnslu á Eyrarbakka og störfuðu þar örfá fiskvinnslufyrirtæki fram eftir öldinni. Hafnleysi stóð útgerð þó alltaf fyrir þrifum og með tilkomu brúar yfir Ölfusárósa í lok aldarinnar lagðist útgerð smám saman af. Þorlákshöfn byggðist upp og varða að duga þessum landshluta sem frá náttúrunnar hendi býr við hafnarleysi. Áður hafði umtalsverðum fjármunum verið varið í að reyna að bæta hafnirnar á Stokkseyri og Eyrarbakka en að lokum sáu menn að það svaraði ekki kostnaði. Skynsamara væri að byggja upp góða aðstöðu í Þorlákshöfn og treysta á samgöngur á landi. Rétt eins og Selfossbrúin forðum reyndist brú yfir Ölfusárósa móta atvinnulífið. Ný tækifæri sköpuðust sem kölluðu á breytingar.   

Hraði breytinganna eykst


Ef eitthvað er þá eykst hraði breytinga stöðugt og það á sannarlega við síðustu ár og áratugi á Eyrarbakka. Landsbankinn lokar útibúi sínu á Eyrarbakka 2001. Síðasta matvöruverslunin lokaði 2002. Símstöðin lokar sama ár og Íslandspóstur lokar afgreiðslu sinni 2007. Ekki tók betra við í atvinnulífinu. Iðnfyrirtækið Alpan var flutt til Rúmeníu árið 2006 eftir langa baráttu.  Ísfold hættir rekstri 2006 og fiskvinnslan Fiskiver lokar 2006. Eyrarbakki er nú hluti af sveitarfélaginu Árborg og líklega eru helstu tækifæri bæjarins í dag á sviði ferðamennsku. Þar skiptir sagan og sú menningarlega sérstaða sem bærinn hefur mestu. Hvernig til tekst mun byggjast á því hvernig bæjarbúum tekst að takast á við breytingar framtíðarinnar - því þær munu án efa verða sem hingað til.  

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.