c

Pistlar:

15. nóvember 2014 kl. 14:18

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Einstök framleiðni íslenska sjávarútvegsins

Rannsóknir Íslenska sjávarklasans á efnahagslegu umfangi þessa klasa síðastliðin ár sýna að fyrirtæki sem honum tilheyra standa undir um 25-30% landsframleiðslunnar. Þar af hefur beint framlag hins hefðbundna sjávarútvegs (veiða og vinnslu) verið í kringum 10% á allra síðustu árum.

Í nýrri skýrslu Íslenska sjávarklasans er birt efnahagslegt yfirlit yfir sjávarklasann á Íslandi fjórða árið í röð. Það er mikill fengur að þessum skýrslum og þær hafa áður verið gerðar að umtalsefni í pistlum hér. Einhverra hluta vegna fá þær ekki mikla almenna umræðu frekar en annað fræðilegt efni um okkar mikilvægustu atvinnugrein. Og að ríkisútvarpið geri tilraun til að fjalla um sjávarútveginn með þessum hætti ja, það verður að telja nánast útilokað.

En víkjum aðeins að skýrslunni sjálfri. Í stað þess að leggja höfuðáherslu á að meta tölfræðilega efnahagslegt umfang klasans í heild er kastljósinu beint að þeim breytingum og þeirri þróun sem nú á sér stað í sjávarútvegi og öðrum greinum  sjávarklasans. Líkt og fyrri ár fylgir þó ítarlegri greining á veltu tæknifyrirtækja klasans í skýrslunni og svo ýmsar efnahags- og aflatölur fyrir árið 2013. Skýrslunni er þannig ætlað að gefa heildstæða mynd af stöðu sjávarútvegsins og sjávarklasans. Þar er litið til baka á það sem liðið er en einnig horft fram á veginn og drepið á mörgum viðfangsefnum, tækifærum og áskorunum sem standa fyrirtækjum sjávarklasans á Íslandi næst.starfandi

Er sjávarútvefurinn framleiðnihæsta grein landsins?

Ástæða er til að stoppa sérstaklega við eina setningu í skýrslunni. Þar segir: ,,Sjávarútvegurinn er mikilvægasta atvinnugrein landsins að því leyti að hún stenst alþjóðlegan samanburð með tilliti til framleiðni og skilar þar að auki mjög miklum virðisauka til þjóðarbúsins í formi launa og hagnaðar.” Þessi fullyrðing - sem verður ekki hafnað - er gríðarlega mikilvæg til að skilja mikilvægi sjávarútvegsins í íslenska hagkerfinu. Á meðan margar atvinnugreinar og þá sérstaklega hið opinbera glíma við slaka framleiðni þá hefur sjávarútvegurinn náð gríðarlegum árangri. Lykilþáttur þar er geta hans til að fjárfesta í nýjum framleiðslutækjum. Margir þeirra sem gagnrýna fyrirkomulag og þróun í veiðum og vinnslu hér á landi gagnrýna einnig skort á framleiðni hér á landi. Það hlýtur því að vera lærdómsríkt fyrir þá hina sömu að sjá hvernig sjávarútveginum hefur tekist að auka framleiðni sína jöfnum höndum.  

Í skýrslunni er einmitt bent á að nýliðið fiskveiðiár markaði viss þáttaskil í atvinnugreininni með tilkynningum um stóraukna fjárfestingu í nýjum fiskiskipum sem væntanleg eru á næstu árum. Hægt er að taka undir að sú fjárfesting er þörf enda hluti fiskveiðiflotans kominn fram yfir miðjan aldur og löngu tímabært að skipta út mörgum þeirra skipa sem nú hverfa væntanlega úr flotanum. Skýrsluhöfundar benda réttilega á að nýfjárfesting í fiskiskipum nú sé þannig öðrum þræði dregin áfram af algerri nauðsyn. Á þessu ári hefur verið tilkynnt um nýsmíði 10 nýrra fiskiskipa sem bætast munu við flotann á næstu árum. Þær fjárfestingar eru bráðnauðsynlegar til að tryggja framleiðni áfram í sjávarútvegi.  

Til að skilja getu sjávarútvegsins til að bregðast við nýjum áskorunum er forvitnilegt að skoða viðbrögðin við komu makrílsins. Árið 2008 fór 94% makrílaflans til mjöl- og lýsisvinnslu. Nú fer líklega minna en 20% aflans í slíka vinnslu og allur afli sem hægt er að setja í verðmætari vinnslu er fluttur út frosinn og í litlu magni ferskur. Á skömmum tíma hefur greinin algerlega snúið við verðmætasköpun við vinnslu á nýrri tegund sem kom heldur óóvænt inn í okkar landhelgi.

Mikilvægi fjárfestingar í sjávarútvegi fyrir aðrar greinar

En í endurnýjun flotans felst einnig mikilvægt viðskiptatækifæri fyrir fjölmörg tæknifyrirtæki sjávarklasans á Íslandi. Í skýrslunni er sagt að hægt sé að tala um nokkra tæknibyltingu í veiðitækni, aflameðferð og fullvinnslu afurða um þessar mundir, svo mikil hefur gróskan verið undanfarið.

Í skýrslunni er bent á að í nýsmíði þeirra skipa sem þegar eru í smíðum fyrir íslensk sjávarútvegsfyrirtæki eru send jákvæð skilaboð um bætta hráefnanýtingu og aukna verðmætasköpun, sem birtist meðal annars í breyttum áherslum í vinnslu uppsjávarfisks til manneldis og aukinni ferskfiskvinnslu bolfisks á síðustu misserum. Með brotthvarfi nokkurra frystitogara og tilkomu nýrra ísfisktogara sem koma til með að leysa þá af kristallast einnig geta íslensks sjávarútvegs til að bregðast við breyttum ytri aðstæðum og samkeppnisstöðu sinni á alþjóðlegum markaði.


Skýrsluhöfundar benda á að sögulega lág atvinnufjárfesting er meiriháttar vandamál í fjölmörgum atvinnugreinum á Íslandi og benda á samhengi sem mikilvægt er að hafa í huga. ,,Þessi litla fjárfesting á sér vafalítið margrar rætur, sú augljósasta er erfið eiginfjárstaða margra fyrirtækja. Önnur rót vandans er kerfislægur í íslenska hagkerfinu þar sem vinnuafl er í mörgum tilfellum einfaldlega ódýrara en fjármagn við núverandi aðstæður á Íslandi. Þetta á líklega við um einhverja fiskvinnslu í landi, þar sem störfum fjölgar, en líklega ekki í veiðum og vinnslu úti á sjó, þar sem störfum fækkar. Frá árinu 2008 hefur starfandi í fiskiðnaði fjölgað úr 3.000 í 5.000 samkvæmt tölum Hagstofunnar en starfandi við fiskveiðar hefur aftur á móti fækkað úr 4.200 í 3.600. Samkeppnisforskot Íslands í framleiðslu sjávarafurða liggur því nú að hluta í lágum framleiðslukostnaði í landi þar sem hægt er að fullvinna afurðir.” Þetta er mikilvægt að hafa í huga þegar skoðað er samhengi milli mikilvægi fjárfestinga og framleiðniaukningar. Þar skiptir miklu að láta ekki annað, svo sem stjórnvaldsákvarðanir, ekki rugla myndina.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.