c

Pistlar:

23. nóvember 2014 kl. 13:13

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Gróska og nýsköpun í sjávarútvegi

Íslenskur sjávarútvegur hefur í gegnum tíðina verið undirstaða atvinnusköpunar í landinu og grundvöllur fjölþætts atvinnulífs. Hann hefur verið uppspretta fæðu fyrir þjóðina og skipað mikilvægan sess í samfélaginu, bæði menningarlega og fjárhagslega. Á þessum orðum hefur Rúnar Jónsson, forstöðumaður sjávarútvegs hjá Íslandsbanka, nýlega skýrslu bankans um sjávarútveg. Eins og lesendur hafa tekið eftir þá er sjávarútvegurinn gerður að umræðuefni með reglubundum hætti í pistlum hér og oftar en ekki reynt að minna á mikilvægi hans með líkum orðum og Rúnar gerir. Það er nefnilega þannig á Íslandi í dag að stór hluti landsmanna hefur til þess að gera litla innsýn í rekstur og störf sjávarútvegs. Þrátt fyrir að hann sé gríðarlega mikilvægur fyrir íslenskt hagkerfi (45% af heildarútflutningsverðmætum landsins) þá er hagkerfið ekki eins háð honum og var áður. Um leið hefur umfjöllun fjölmiðla um rekstur og umhverfi sjávarútvegsins minnkað verulega og helst að hann sé til umræðu þegar hinni pólitísku hlið er snúið fram. - Og það gerist oft þar sem stöðugt er verið að breyta rekstrarumhverfi sjávarútvegsins. Nú er komið fram nýtt frumvarp um sjávarútveginn sem mun án efa setja hann í kastljós umræðunnar á næstunni. Í þeirri umræðu er mikilvægt að hafa hugfast að á bak við hina pólitísku umræðu er gríðarlega mikilvæg atvinnugrein. Eins og skýrsla Íslandsbanka minnir rækilega á. Við skulum skoða nokkrar af þeim staðhæfingum sem þar er að finna.

Þar kemur meðal annars fram að beint framlag sjávarútvegs til landsframleiðslu var 10% árið 2013. Hlutfall veiða var 6,3% og hlutfall vinnslu 3,7%. Óbeint framlag sjávarútvegs er talsvert umfangsmeira og hafa rannsóknir á vegum Íslenska sjávarklasans bent til þess að fyrirtæki sem tilheyra sjávarklasanum standi undir um 25-30% landsframleiðslunnar en sú skýrsla var nýlega gerð að umtalsefni hér. Þegar þetta er skoðað verður einnig að hafa í huga að síðastliðna þrjá áratugi hefur þorskaflinn dregist saman um næstum helming en á sama tíma hafa útflutningsverðmæti aflans aukist um 138%. Þrátt fyrir stöðugt minnkandi afla hefur sjávarútvegurinn gengið í gegnum þessa breytingu og náð að halda sjó. Við skulum ekki gleyma því að íslenski sjávarútvegurinn er sá eini innan OECD sem ekki nýtur ríkisstyrkja. Að sjávarútvegurinn skyldi geta tekist á við svo gríðarlegan samdrátt á okkar mikilvægasta nytjastofni er í raun einstakt.þorskafli

Nokkrar staðreyndir til að horfa til

Hér má sjá yfirlit yfir þau lykilatriði sem koma fram í skýrslunni:

  • 8.600 manns störfuðu með beinum hætti við sjávarútveg á árinu 2013. Fleiri störf voru í landi en úti á sjó í fyrsta sinn síðan árið 2004 og störfuðu 5000 manns í landi eða um 58%.
  • Íslenski fiskiskipaflotinn hefur dregist saman í fjölda og brúttótonnum, hvoru tveggja um 15% frá árinu 2000 og var meðalaldur flotans 25 ár á árinu 2013.
  • Síðastliðna þrjá áratugi hefur þorskaflinn dregist saman um næstum helming en á sama tíma hafa útflutningsverðmæti aflans aukist um 138%.
  • Tekjur sjávarútvegsfélaga árið 2013 námu 263 milljörðum sem er 5% samdráttur frá fyrra ári. EBITDA var 62 milljarðar og dróst hún saman um 20% frá árinu 2012.
  • Arðgreiðslur á árinu 2013 námu tæpum 12 milljörðum og hafa aukist um 5,5 milljarða á milli ára eða sem nemur 87%.
  • Fjárfestingar í sjávarútvegi voru 11 milljarðar árið 2013 sem er 22% yfir meðalfjárfestingu síðastliðins áratugar eða svo.
  • Opinber gjöld sjávarútvegsfélaga árið 2013 námu 24,5 milljörðum og hafa þau rúmlega þrefaldast frá árinu 2009.
  • Útflutningsverðmæti sjávarafurða hefur aukist um 31% undanfarin 5 ár og námu þau 272 milljörðum á árinu 2013.
  • Á árinu 2013 var í fyrsta skiptið flutt út meira magn sjávarafurða til Rússlands en til Bretlands og Noregs sem hingað til hafa verið helstu viðskiptalönd íslenskra sjávarafurða.
  • Mikil gróska er í nýsköpun í tengslum við sjávarútveg og eru íslendingar á meðal fremstu þjóða í fullnýtingu sjávarafurða.
  • Áætlanir gera ráð fyrir að fiskeldisframleiðsla muni tvöfaldast á milli áranna 2013 og 2015 og að um 13.700 tonnum verði slátrað árið 2015.

Gróska í sjávarútvegi

Í skýrslunni er minnt á að mikil gróska er í íslenskum sjávarútvegi núna og það birtist með margvíslegum hætti. Rekstur veiða og vinnslu gengur almennt vel og aflabrögð hafa verið góð. Hér hefur þó verið minnt á að víða má sjá blikur á lofti, meðal annars vegna pólitískrar hættu (Rússland, en stór hluti makrílsins fer þangað), markaðshættu sem birtist í stöðugum markaðsáskorunum (flæði fisks úr Barentshafi) og svo  líffræðilegar áskoranir vegna hugsanlegs aflabrests eins og í loðnu. Aukin gjaldtaka af greininni hefur leitt til samþjöppuna þó það hafi án efa ekki verið ætlunin. Við sjáum það í skýrslu Íslandsbanka að fjárfesting er að aukast en hún var orðin allt of lá. Nýsköpun eykst um leið sem er frumforsenda þess að við getum haldið áfram að reka öflugan og arðsaman sjávarútveg. Það hlýtur alltaf að vera lykilmarkmið.

Það gleymist oft hve stóru hlutverki sjávarútvegurinn gegnir á landsbyggðinni en 81% þeirra sem starfa í greininni eru búsettir úti á landi. Þannig stendur sjávarútvegurinn undir 11% starfa á landsbyggðinni en aðeins rúmlega 1% starfa á höfuðborgarsvæðinu. Verðum við ekki að ætla að það hafi talsverð áhrif á umræðuna.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.