c

Pistlar:

12. apríl 2015 kl. 12:59

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Nígería: Íslenskur viðskiptavinur á tímamótum

Nígería er fjölmennasta land Afríku og býr yfir gríðarlegum náttúruauðævum. Landið skiptir okkur Íslendinga talsverðu máli þar sem þangað eru fluttar út fiskafurðir fyrir 12 til 14 milljarða króna á ári. Þar voru fyrir skömmu forsetakosningar sem geta markað þáttaskil í lýðræðisþróun þar og hugsanlega víða í álfunni. Niðurstaða kosningarinnar hefur í för með sér að nýr forseti tekur við völdum síðar í mánuðinum og er það í fyrsta sinn í sögu Nígeríu sem valdaskipti eru með friðsömum hætti, ef allt gengur að óskum.nigeria-foreign-policy-1584

Lyktir kosninganna urðu þær að Muhammadu Buhari, frambjóðandi APC-flokksins og fyrrverandi herforingi, sigraði Goodluck Jonathan, sitjandi forseta. Niðurstaðan kom mörgum á óvart en kosningunum hafði verið frestað um sex vikur vegna árása hryðjuverkasamtakanna Boko Haram sem hafa myrt yfir þúsund manns á þessu ári. Buhari er múslimi en Jonathan kristin. Svo virðist sem kjósendur hafi treyst betur hinum aldna hershöfðingja til að stilla til friðar en öryggismál voru einmitt á oddinum í kosningunum og Buhari hélt því fram að Goodluck Jonathan hefði hvorki vilja né getu til að ráðast gegn Boko Haram sem hefur verið að efla ítök sín síðan hreyfingin kom fram fyrir rúmum 10 árum. Talið er að 10 til 15 þúsund manns hafi látið lífið af völdum samtakanna sem halda stóru svæði í norðurhluta Nígeríu í herkví. Goodluck Jonathan hafði sett herlög í gildi á stórum svæðum en ekki haft árangur sem erfiði.

Buhari þekkir af reynslu að þolinmæði er ekki alltaf mikil í Nígeríu en hann náði sjálfur völdum í herforingjabyltingu 1984 en var steypt af stóli árið eftir í annarri herforingjabyltingu, þá undir forystu Ibrahim Badamasi Babangida sem landsmenn kölluðu IBB til þægindaauka! Babangida var um margt athyglisverður leiðtogi, leitaði eftir samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, réðist í ýmsar umbætur og efldi tengsl landsins við múslimaheiminn. Hann þótti ekki barnanna bestur þegar kom að mannréttindamálum en samþykkti lýðræðislegar kosningar og vék í kjölfar þeirra 1993.

Sístækkandi hagkerfi

Á síðasta ári fór landsframleiðsla Nígeríu framúr Suður-Afríku og varð þar með sú mesta í Afríku. Landið er nú með 21. stærsta hagkerfi heimsins. Nígería er um það bil átta sinnum stærra en Ísland en það var ensk nýlenda fram á 20. öldina og er enska ríkismál þar en Nígería er þriðja fjölmennasta enskumælandi þjóð í heiminum. Í Nígeríu búa um 175 milljónir manna og landið er stundum kallað Afríski risinn enda áttunda fjölmennasta land heims. Hinum megin við Atlantshafið er S-Ameríski risinn, Brasilía, en þeir eru litlu fleiri en Nígeríumenn þó að Brasilía sé mörgum sinnum stærra land að flatarmáli. Mannfjölgun er mikil í báðum þessum löndum og því spáð að þau færist ofar á lista helstu efnahagsvelda heims.

Nígería er eitt olíuauðugasta land heims en við þekkjum það líklega helst í gegnum sameiginlega viðskiptasögu sem oftar en ekki hefur tengst umræðu um hina landlægu spillingu sem þar er að finna. Í eina tíð voru sögur um Nígeríu-pappírana þekktir húsgangar hér þó erfitt sé að sjá á hvorn aðilann hallaði. Á seinni árum hafa margir fengið furðuleg ,,viðskiptaboð” frá nígerískum heimilisföngum en þau boð ætti engin að þiggja. Efnahagslífið í Nígeríu er í 120 sæti þegar kemur að frjálsræði  og hefur lítillega verið að þokast til betri vegar. Líklega er óhætt að segja að sú framþróun sé mjög hæg en landið er um miðbik landanna sunnan Sahara þegar kemur að efnahagslegu frelsi.

Nígería er í hópi olíuframleiðenda eins og Kúveit, Írak, Íran, Noregur, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Angóla og Venesúela með 1,5 til tvær milljónir tunna á dag hvert land. Miðað við núverandi olíuverð eru þessi lönd að glíma við samdrátt en fáir efast um að olía eigi eftir að hækka aftur í verði. Það mun færa Nígeríumönnum nýjar áskoranir. Við verðum að hafa í huga að Nígería hefur aðeins notið sjálfstæðis í ríflega 50 ár (frá 1960) og innviðir lýðræðis og stjórnsýslu veikburða. Borgaraleg réttindi eru ótraust og öryggi borgara verulega ábótavant. Einn útflytjandi tjáði pistlaskrifara að þegar nígerískir viðskiptavinir kæmu til landsins vildu þeir gjarnan dvelja hér aukalega í nokkra daga til að njóta þess frelsis og öryggis sem hér er að finna.

Mikilvægt viðskiptaland

Eins og áður er Nígería mikilvægt viðskiptaland fyrir okkur Íslendinga. Útflutningsverðmæti hertra fiskafurðanna til Nígeríu nam um 13,5 milljörðum á ellefu fyrstu mánuðunum á síðasta ári eins og kom fram í Fiskifréttum fyrir stuttu. En á öllu árinu 2013 nam þessi útflutningur rúmum 12,4 milljörðum. Lítill sem engin innflutningur er frá Nígeríu. Nokkrar sveiflur eru í verði og fyrir nokkrum árum urðu íslenskir útflytjendur að taka á sig verðlækkun, meðal annars vegna þessi að innflytjendur í Nígeríu sameinuðust. Verðið hefur verið að hækka síðan og þessi útflutningur er okkur Íslendingum mikilvægur. Er vonandi að ástand haldi áfram að þróast með þeim hætti í Nígeríu að hann verði tryggur.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.