Pistlar:

8. júní 2017 kl. 20:42

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Heimur Uber bílanna

Pistlahöfundur tók þátt í stuttri umræðu um leigubílaþjónustuna Uber á Facebook fyrir skömmu. Rifjaði þar upp vikudvöl í Washington fyrir rúmu ári síðan þegar þjónusta Uber var nýtt allan tímann (eftir að hafa tekið rándýran leigubíl frá flugvelli á hótelið). Ég er nú ekkert sérlega nýungagjarn en dóttirin benti mér á þennan valkost enda hafði hún notað Uber á meðan á  ársdvöl sinni í Washington stóð og verið ánægð með.

Ég gerði mér far um að ræða við alla bílstjóranna og allir virtust sáttir við hlutskipti sitt en í flestum tilvikum litu þeir á þetta sem hlutastarf. Tveir þeirra voru frá Afríku - annar leit á sig sem ljóðskáld og stýrði pólitísku riti í heimalandinu. Hinn - sem var frá Nígeríu - vildi endilega komast í fisksölusamband við Ísland þegar hann heyrði hvaðan ég var! Einn Uber-ökumaðurinn hafði misst starf sem skrifstofumaður og sagðist þokkalega sáttur við aksturinn en hann hafði stokkið inn í Uber- samfélagið þegar hann missti vinnuna. Fyrir utan hvað þetta var þægilegt, ódýrt og áreiðanlegt fyrir mig sem viðskiptavin. Er nema vona að maður velti því fyrir sér hvort þetta sé  svo slæmt þó að Uber hafi sannarlega mikil áhrif á stétt leigubílstjóra og fyrirtæki þeirra.

Allar breytingar til bölvunar!

En ekki sjá allir þetta sem kost. Einn Facebook-spjallarinn svaraði þessum hugleiðingum svona: „Þetta breiðist út um allt samfélagið, fólk sem er í tímabundnum störfum, réttindalaust, verktakar eða á núll samningum. Snýst ekki bara um Uber þótt það sé ein birtingarmyndin.” Datt mér þá í hug orð sem eignuð eru Andrési Björnssyni, fyrrverandi útvarpsstjóra, en hann mun hafa sagt að allar breytingar væru til bölvunar og sumar væru beinlínis stórhættulegar! Sannarlega umhugsunarverð viðvörunarorð!

Það er auðvitað spurning af hverju upplýstir einstaklingar taka slíka afstöðu til tæknibreytinga og meðfylgjandi breytinga á störfum og þjónustu. Uber er hluti af deilihagkerfinu og byggir fyrst og fremst á appi sem sem tengir saman þjónustuaðila og viðskiptavini. Uber á þannig enga bíla. Þjónustuaðilinn - í þessu tilviki bílstjórinn - á í flestum tilvikum bílinn og er í samningssambandi við Uber en ekki launþegasambandi. Verðið hjá Uber er umtalsvert lægra en hjá hefðbundnum leigubílum enda má segja að verulegur sparnaður felist í að þurfa ekki að reka leigubílastöð og tilheyrandi þjónustu sem kemst fyrir í appinu sjálfu. Þá er ljóst að nýting bíla, sem eru einkabílar, er í flestum tilvikum betri en ella.Fouzan-ALi

Uber var stofnað 2009 og fyrstu bílarnir byrjuðu að keyra ári síðar. Uber hefur þróað þjónustu sína hratt og árið 2015 hóf félagið að kynna sjálfkeyrandi bíla en félagið hyggst hasla sér völl á þeim vettvangi í framtíðinni. Rétt eins og önnur bandarísk tæknifyrirtæki hefur Uber verið djarftækt við að þróa viðskiptahugmyndir sínar og þannig komið fram með margvíslegar útfærslur á upphaflegu hugmyndinni, sem gekk einfaldlega út á að tengja saman farþega og ökumann á skilvirkan hátt. Markaðsvirði Uber í dag er um 70 milljarðar Bandaríkjadala og áhöld um hvort félagið stendur undir því enda umtalsverðar væntingar í þeirri verðlagningu. Tekjur Uber á síðasta ári námu 5,5 milljörðum dala og það er enn að brenna peningum. Að því leyti treystir Uber enn á áhuga fjárfesta en félagið þarf að ná tökum á rekstrinum ef það á að halda stöðu sinni sem leiðandi fyrirtæki í sínum geira.  

Ný tegund af þjónustu

Það hefur ekki alltaf verið vandræðalaust að taka leigubíla í útlöndum. Oftar en ekki hefur maður verið plataður. Eitt sinn var ég gripinn af leigubílstjóra við Orly-flugvöll sem hafði engin leyfi og enga kunnáttu. Það var meiriháttar barátta að fá hann til að skila mér á réttan stað. Einnig hafa farþegar oft mátt greiða ökutúrinn dýru verði, sérstaklega ferðamenn. Margt af þessu breyttist með Uber en það vill reyndar svo til að hugmyndin að Uber kviknaði þegar félagarnir Travis Kalanick og Garrett Camp gátu ómögulega fengið leigubíl í miðri snjókomu í París veturinn 2008! En kerfi Uber byggist á því að báðir aðilar geta skipst á upplýsingum og gefið hvor öðrum einkunn. Þannig er tryggt að kerfið man ef Uber-bílstjórinn bregst eða svindlar á farþeganum. En ekkert kerfi er óskeikult og vitaskuld hafa komið upp margvísleg atvik í samskiptum, rétt eins og með hefðbundna leigubílstjóra. Óhætt er þó að álykta að þau séu færri í Uber-kerfinu en hefðbundnum leigubílaakstri.

Í áðurnefndum viðvörunarorðum var vikið að stöðu ökumanna sem launþega en leigubílstjórar hafa reynt að hindra innkomu Uber á þeim forsendum að þeir eyðileggi áratuga kjarabaráttu stéttarfélaga þeirra. Ökumenn hjá Uber líta á sig sem óháða verktaka (e. independent contractor) og kaupa þar af leiðandi sínar tryggingar sjálfir. Þeir Uber-ökumenn sem eru í hlutastarfi virðast almennt ánægðari en þeir sem eru í fullu starfi en þeir síðarnefndu hafa verið að reyna að ná saman um hagsmunamál sín með stofnun hagsmunafélaga. En Uber stendur fast á því að félagið ráði enga starfsmenn, það bjóði mönnum eingöngu samstarf um notkun á tæknibúnaði. Fyrir það tekur það þóknun sem nemur á milli 20 til 30% af fargjaldinu. Það sé síðan bílstjóranna sjálfra að afla sér trygginga og greiða launatengd gjöld. Félagið hefur hins vegar sýnt viðleitni til að bregða út af þessu og hefur meðal annars átt í samningaviðræðum í Frakklandi til að komast inn á þann markað. Í London hefur dómstóll úrskurðað að Uber beri vinnuveitendaábyrgð á bílstjórunum.

Útbreidd þjónusta

Í dag er þjónustu Uber að finna í ríflega 600 borgum um heim allan en margar borgir hafa bannað þjónustu þeirra eða skert hana, meðal annars vegna þrýstings frá leigubílstjórum sem eðlilega óttast mjög um störf sín. Meðal þeirra sem hafa lagst gegn starfsemi Uber eða þrengt hana eru lönd eins og Danmörk, Frakkland og Þýskaland. Ekki eru líkindi þess að þjónusta Uber komi hingað til lands í bráð þó sannarlega skorti leigubíla á álagstímum. Í desember síðastliðnum greindi Fréttablaðið frá því að það hefði fengið eftirfarandi svar um starfsemi Uber hér á landi frá Samgöngustofu: „Uber fellur því eins og staðan er í dag ekki undir þau lög og reglur sem gilda um leigubifreiðar. Til að Uber gæti starfað hér á landi þyrfti því að koma til breyting á regluverkinu. Eitt það helsta er að gefa þyrfti starfsemina frjálsa.“

En eins og áður sagði hefur Uber þróað þjónustu sína áfram og nýtt þekkingu sína á flutningum (e. logistic) til þess að margfalda þjónustuframboði. Félagið hefur mikinn metnað til þess að koma að sjálfvirkni bíla sem myndi þó hafa í för með sér grundvallarbreytingu á starfseminni og meðal annars auka fjárfestingakostnað fyrirtækisins. Þar eru horfur á að félagið verði í samkeppni við Google, Amazon og jafnvel Apple. Þessi höfuðfyrirtæki bandarískrar hátækni ætla sér stóran hlut í sjálfvirknivæðingu framtíðarinnar þar sem gervigreind mun gegna mikilvægu hlutverki.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.