c

Pistlar:

15. júní 2017 kl. 16:54

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Efnahagsástandið aldrei verið betra!

Efnahagsástandið hefur aldrei verið betra að mati seðlabankastjóra, í það minnsta ekki á hans ævi! „Ég man ekki eftir að þetta hafi verið svona,“ sagði Már í viðtali þegar greint var frá vaxtalækkun í vikunni. En ljóst er að í alþjóðlegu samhengi er staða Íslands góð og helstu viðfangsefnin efnahagsstjórnar er að glíma við mikla spennu, frekar en að örva hagvöxt með stuðningsaðgerðum. Hér á landi er nú full atvinna og lífskjör hafi snarbatnað.  

Seðlabankinn lækkaði stýrivexti um fjórðung úr prósenti, annað skiptið í röð. Í yfirlýsingu peningastefnunefndar segir að horfur séu á hröðum hagvexti á árinu og útlitið hafi lítið breyst frá síðustu spá bankans. Vöxturinn sé sem fyrr drifinn áfram af örum vexti í ferðaþjónustu og einkaneyslu auk þess sem útlit sé fyrir töluverða slökun í aðhaldi opinberra fjármála í ár. Verðbólga sé áþekk því sem hún hefur verið undanfarið misseri, en undirliggjandi verðbólga virðist hafa minnkað. Þá hafi verðbólguvæntingar til bæði skamms og langs tíma minnkað. Skýr merki séu um spennu í þjóðarbúskapnum sem kalli á peningalegt aðhald. Að mati Seðlabankans er efnahagsástandið hér á landi mjög gott um þessar mundir og að mati seðlabankastjóra jafnvel betra en nokkru sinni.

„Ég held að á minni ævi hafi efnahagsástandið aldrei verið betra. Við erum með fulla atvinnu og rúmlega það, lífskjörin eru að batna, talið í tveggja stafa tölu á einu ári. Við erum með miklu meiri varasjóði alls staðar, miklu stærri gjaldeyrisforða heldur en við höfum nokkurn tíma verið með nema kannski hlutfallslega í lok seinni heimsstyrjaldarinnar. Við erum með miklu meira eigið fé í bankakerfinu, miklu meira laust fé. Við erum með viðskiptaafgang og það verulegan og við eigum meiri eignir í útlöndum heldur en við skuldum. Þannig að ég man ekki eftir neinu slíku og ástandið er óvenju gott,“ segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri.

Hlaupum yfir nokkrar efnahagsstærðir á Íslandi sem skýra þessi ummæli seðlabankastjóra.kronan

Staða þjóðarbúsins:

  • Skuldir við útlönd eru minni eignir.
  • Atvinnuleysi er lítið sem ekkert (undir 3 prósent).
  • Eigið fé í bankakerfinu mikið og traust.
  • Gjaldeyrisforðinn stór.
  • Mikill afgangur á viðskiptum við útlönd.
  • Lífskjör batna hratt og skuldastaða hins opinbera hefði styrkst.
  • Kaupmáttaraukning viðvarandi.
  • Skuldir heimila dragast saman.
  • Rekstur fyrirtækja gengur vel.

Hagvöxtur í hæstu hæðum og landsframleiðsla aldrei meiri:

  • Hagvöxtur 7,2% á síðasta ári.
  • Hagstofan hefur hækkað hagsvaxtarspá vegna yfirstandandi árs
  • Hagvöxtur var 5% á fyrsta ársfjórðungi sem er mesti vöxtur á fyrsta ársfjórðungi síðan 2008.
  • Magn vergrar landsframleiðslu á mann á Íslandi árið 2016 var 29% yfir meðaltali Evrópusambandsríkjanna 28, samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum.
  • Ísland var 5. í röð 37 Evrópuríkja þegar kemur að landsframleiðslu.
  • Hagvöxturinn var drifinn áfram af einkaneyslu og utanríkisverslun, en þetta er þriðji fjórðungurinn í röð þar sem framlag utanríkisverslunar til hagvaxtar er jákvætt.
  • Samsetning hagvaxtar er því ennþá mjög hagstæð, þó að framlag fjárfestingar hafa minnkað samanborið við síðustu fjórðunga.

Heildarskuldir ríkisins:

  • Voru 69,5% af áætlaðri landsframleiðslu á fyrsta ársfjórðungi 2017.
  • Hlutfallið er það lægsta frá hruni.
  • Hefur stöðugt lækkað frá fjórða ársfjórðungi 2014.

Fjármál hins opinbera:

  • Hreinar tekjur ríkisins á fyrsta ársfjórðungi 2017 námu 17,6 milljörðum króna.
  • Eru það  hæstu ársfjórðungstölur þess efnis frá hruni.
  • Tekjuafkoman er 3,1% af landsframleiðslu ársfjórðungsins.
  • Til samanburðar voru hreinar tekjur ríkissjóðs neikvæðar um 2,5% af landsframleiðslu síðasta árs, ef stöðugleikaframlag er ekki talið með.
  • Samneysla hefur aukist um 1,8% umfram verðbólgu frá síðasta ársfjórðungi
  • Launakostnaður hefur aukist töluvert.
  • Á móti vegur að skatttekjur og -tryggingargjöld til ríkisins hafi aukist nokkuð, eða um 7,6% milli ára.

Hlutfall skulda lækkað:

  • Samhliða bættri afkomu ríkissjóðs hefur hlutfall skulda af landsframleiðslu lækkað stöðugt frá árslokum 2014.
  • Nú er það komið niður í 69,5% , sem er lægsta skuldahlutfall frá hruni. Hæst var  skuldahlutfallið í tæpum 110% árið 2011.
  • Samkvæmt fjármálaáætlun stjórnvalda fyrir árin 2018 til 2022 er gert ráð fyrir að skuldirnar muni lækka enn meira og verði komnar undir 60 % hlutfall á næsta ári.

Verðbólgan lág:

  • Verðbólga hefur haldist undir 2,5 prósent markmiði Seðlabankans í meira en 40 mánuði í röð og mælist nú 1,7 %.
  • Ytri verðbólguskilyrði hafa verið hagfelld Íslandi, þar sem olíuverð hefur haldist lágt og þá hefur mikil styrking krónunnar ýtt innfluttum verðbólguþrýstingi niður.
  • Sú verðbólga sem er, stafar af miklum hækkunum fasteignaverðs.

Fasteignamarkaðurinn:

  • Hvergi í heiminum hefur húsnæðisverð hækkað eins mikið og á Íslandi undanfarin misseri.
  • Hækkunin undanfarna tólf mánuði, á höfuðborgarsvæðinu, nemur um 20 prósent, og gera flestar spár ráð fyrir áframhaldandi hækkunum, þó líklegt sé að eitthvað róist á markaðnum.
  • Framboð af eignum er takmarkað og hefur það leitt til mikillar spennu á markaðnum, þar sem eftirspurn er mikil.
  • Að undanförnu hafa sést merki um að framboðsskortur á íbúðum sé farinn að stuðla að því að viðskipti eru færri nú með íbúðir, en þau hafa verið undanfarin ár.
  • Í hagsjá Landsbankans segir að samfelld aukning hafi verið á árunum 2009 til 2016, en á þessu ári sést að velta í fasteignaviðskiptum er að minnka. Haldi kaupmáttaraukningin áfram, þá gæti spenna á markaðnum aukist enn og ljóst að uppbyggingin á frekari eignum er að í kappi við tímann, svo að ójafnvægi skapi ekki meiri vanda.

Hagstæður viðskiptajöfnuður:

  • Í fyrra var afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum 155 milljarðar króna, en útlit er fyrir að hann verði jafnvel enn meiri á þessu ári, eða um 160 milljarðar króna.
  • Það sem mestu skiptir í þessu samhengi er hinn mikli vöxtur sem verið hefur í ferðaþjónustu, en spár gera ráð fyrir að erlendum ferðamönnum muni fjölga um 500 þúsund á þessu ári. Í fyrra voru þeir 1,8 milljónir en í ár verða þeir 2,3 milljónir.

Ferðaþjónustan áfram í vexti:

  • Í Morgunblaðinu í dag kom fram að Isavia áætlar nú að 1.500 ný störf verði til á Keflavíkurflugvelli í ár. Það er nokkuð meira en í fyrri spá en alls áætlar Isavia að allt að 4.500 ný störf verði til á vellinum 2017-2020.
  • Til marks um mikinn vöxt á Suðurnesjum, þá fjölgaði íbúum Reykjanesbæjar um 1.100 milli ára, sé miðað við stöðuna í maí síðastliðnum samanborið við sama mánuð í fyrra.
  • Fátt bendir til annars en að vöxtur í ferðaþjónustu verði umfram flestar spár á þessu ári.
  • Á fyrstu mánuðum ársins var vöxturinn 56 prósent, en kortavelta ferðamanna jókst um 28 prósent.

 

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.