Pistlar:

23. september 2017 kl. 13:20

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Rafrænir borgarar í Eistlandi

Smáríki eins og Eistland þurfa stöðugt að berjast fyrir tilveru sinni. Baráttan fyrir sjálfstæði varð hluti af sjálfsvitund landsmanna allan tímann sem þeir lifðu undir oki ráðstjórnarríkjanna. Eistar voru einir Eystrasaltsþjóðanna til að setja upp útlagastjórn sem starfaði allt frá 1953 til þess að landið fékk aftur sjálfstæði. Þar sem til dæmis bandarísk stjórnvöld viðurkenndu aldrei innlimun Eystrasaltslandanna þá skipti útlagastjórnin verulegu máli. Ýmsum borgaralegum réttindum eistneskra útlaga var viðhaldið með þeim hætti en mest um vert er að Eistar geta sýnt samfellu í sjálfstæði sínu, nokkuð sem er þeim augljóslega mikilvægt í dag.20170824_213014

Síðan Eistland fékk aftur sjálfstjórn hefur það leynt og ljóst reynt að styrkja sjálfstæði og fullveldi landsins. Í því ljósu verður að skoða hve fúsir Eistar eru að gera samstarfssamninga við vesturlönd, hvort sem það er við hernaðarbandalög eins og Nató eða efnahagsbandalag eins og ESB. En skoðun á þeirri utanríkispólitík dugar ekki ein og sér til þess að skilja stefnu og viðleitni Eista til þess að viðhalda sjálfstæði landsins. Einnig er nauðsynlegt að skoða efnahagslegar og samfélagslegar áherslur til að fá fulla mynd. Þar birtist skjótt sá eindregni vilji eistneskra stjórnvalda að færa landið í fremstu röð þegar kemur að upplýsingatækni og rafrænum samskiptum. Metnaðurinn á því sviði er mikill og hefur fært landinu sýnilegan ávinning nú þegar.

Rafrænn borgari

Hugsanlega er metnaðarfyllsta áætlunin á sviði rafrænar þjónustu að skapa grundvöll fyrir rafræna borgara í Eistlandi (E-recidence). Um er að ræða rafræna skráningu sem fæst með einföldum hætti og dugar sem staðfesting fyrir viðskiptum. Hin rafræni borgari mun greiða sem svarar 400 evrum til eistneska ríkisins fyrir þjónustuna og markmiðið er að fá sem svarar 10 milljónir rafrænna borgara. Ef það gengur eftir getum við hætt að rukka landsmenn um skatta segja eistneskir embættismenn brosandi. Í dag eru innheimtar 50 evrur fyrir skráninguna og hafa ríflega 21.000 einstaklingar nýtt sér þjónustuna. Þeim fjölgar hægt og bítandi. Gert er ráð fyrir að útvíkka þjónustuna um leið og gjaldið er hækkað. Vitaskuld felast í slíku kerfi margvíslegar hættur, meðal annars tengdar peningaþvætti, aflandsstarfsemi og tilraunir til að fela peningaslóð. En stjórnvöld í Eistlandi segjast bjartsýn á að geta bitið slíkt af sér.

Rafræn stjórnsýsla

En Eistar státa líka af ýmsum öðrum rafrænum afrekum. Þannig reka þeir rafræna stjórnsýslu sem þeir fullyrða að spari um 2% af landsframleiðslu. Ein birtingamynd þess er að þriðjungi færi eru á biðlista eftir sjúkrahúsþjónustu. Síðan 2007 hefur fólk aðgang að eigin heilsufarsupplýsingum og getur fylgst með notkun þeirra og ráðstafað upplýsingum þaðan að eigin vild. Eistar treysta sér til að fullyrða að þeir séu með besta skólakerfi í heimi! Hvað sem hæft er í því þá skora þeir í það minnsta hátt í Pisa-könnunum. Kosningar í landinu eru rafrænar og frá og með 2020 er gert ráð fyrir að öll gögn verði rafræn. 95% landsmanna telja fram til skatts á netinu. Unnið er að upptöku rafræns gjaldmiðils.

Markaðsvæðing og einkavæðing

Þegar landið fékk sjálfstæði 1991 var innan við helmingur landsmanna með aðgang að síma. Eina gáttin við útlönd var finnskur farsími sem geymdur var í kjöllurum utanríkisráðuneytisins. Í dag er landið framarlega á flestum sviðum tækni og nýsköpunar. Árið 2000 var aðgangur að Internetinu skilgreint sem grundvallarmannréttindi. Markaðsvæðing, einkavæðing og einföldun skattkerfisins hafa verið hryggjastykki í hagstjórn landsins á meðan peningastefnan hefur að mestu verið sett í hendur Seðlabanka Evrópu. Áhersla er á að halda skrifræði í kringum atvinnulífið í lágmarki og að það gangi til dæmis greitt að stofna nýtt fyrirtæki. Samkvæmt upplýsingum Alþjóðabankans voru um 14.000 ný fyrirtæki skráð árið 2011, 40% fleiri en árið 2008. Um það bil 15% landsframleiðslunnar kemur nú frá hátæknifyrirtækjum.

Að sjálfsögðu hafa Eistar sín vandamál við að stríða og eitt af því er þröng staða eldri borgara sem verða að gera sér að góðu 400 evrur á mánuði til að lifa af. Aðrir þeir hópar sem eru til umræðu hér á landi eiga einnig í erfiðleikum í Eistlandi. Velgengni nýsköpunarfyrirtækja og uppgangur á mörkuðum hefur aukið reiknaðan ójöfnuð í landinu. Eigi að síður má vænta þess að sú áhersla sem er á að auka þjóðartekjum muni um síðir efla hag allra með einum eða öðrum hætti. Landsmenn eru á einu máli um að mestu skipti að tryggja pólitískan stöðugleika og standa vörð um fullveldi landsins.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.