Pistlar:

23. október 2017 kl. 12:00

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Kosið um hamingjuna?

 

Ljóð um hamingjuna

Hamingjan er ekki til sölu:

fljúgið of heim allan

gangið búð úr búð

– engin hamingja

Hamingjan er það ódýrasta sem til er:

kostar ekkert

– það dýrasta:

kostar allt.

Bíðið ekki hamingjunnar:

hún kemur ekki af sjálfu sér

– eltið hana ekki:

hún flýr.

Hamingjan er alstaðar og hvergi:

í ofurlítilli tó undir norðurásnum

á hafi úti

við þitt brjóst.

Þetta er hamingjan:

að yrkja jörðina

að yrkja ljóðið

og elska jörðina og ljóðið.

Þetta ljóð eftir Jóhannes úr Kötlum heitir Ljóð um hamingjuna og reynir í einfaldleika sínum að fanga það erfiða hugtak. Þannig reynir skáldið að lýsa þeim sem leita að einhverskonar lífssannindum og jafnvel hamingju. Skáldið bendir á að hamingjuna sé ekki hægt að kaupa og leiðin að henni sé ekki í gegnum neyslukapphlaup af hvaða tagi sem það nú er. Líklega verða þetta að teljast gamalkunn heilræði og niðurstaðan er alltaf sú sama, við verðum sjálf að finna hamingjuna og hún er ekki auðfundin. Allir óska sér hamingju en flestir leita langt yfir skammt og fá aldrei nóg í stað þess að yrkja jörðina og elska. Það er í það minnsta boðskapur þessa ljóðs sem er ekki birt hér vegna þess að ritara greinarinnar þyki það svo gott (þrátt fyrir lof bókmenntafræðinnar) heldur hins, hvernig skáldið reynir að fanga þetta óræða hugtak, beitandi mörgum sjónarhornum.

En hver er bestur að leiðbeina okkur þegar kemur að hamingjunni? Eru það skáldin en þeim er tamara að yrkja um ást í meinum og leitina að hamingjunni - ekki endilega hvar hana er að finna. Jóhannes sjálfur mun oft hafa verið heldur vansæll og gerði útgefanda sinn gráhærðan með sífeldum óskum um hærri skáldalaun eins og lesa mátti um í ævisögu Ragnars í Smára eftir Jón Karl Helgason. En það er önnur saga. Margir Íslendingar leita svara í einhverskonar íhugun og líklega hefur sjaldan verið meira framboð af námskeiðum eða leiðbeiningum um hvernig fólk getur fundið innri ró og jafnvel leitað hamingjunnar. En það virðist ekki duga til.

Þróunin óhagstæð hamingjunni?

Framundan eru kosningar. Þær snúast meðal annars um hvernig við getum bætt samfélagið og vonandi að endingu gert íbúa þess hamingjusamari. Það kann því að vera mótsagnakennt að stundum virðast þeir sem virka óhamingjusamir hafa mest um það að segja hvert stefna skal. Í það minnsta ef maður reynir að lesa í hugarástand þeirra sem mest hafa sig í frammi í samfélagsumræðunni og beita reiði og öfund til að ná athygli. Að því leyti má segja að þróunin sé heldur óhagstæð hamingjunni.

Í Morgunblaðinu um helgina var fjallað um tíðni geðraskana hér á landi. Þar kom fram að ný­gengi ör­orku vegna geðrask­ana hef­ur tvö­fald­ast á tíma­bil­inu 2011 til 2016. Á síðustu 12 mánuðum hafa 264 karl­ar verið metn­ir ör­yrkj­ar vegna geðrask­ana. Af heild­ar­fjölda ör­orkumata hjá körl­um mynda geðrask­an­ir lang­stærst­an hluta þeirra eða um 37,2% allra sjúk­dóms­grein­inga. Geðrask­an­ir eru því al­geng­asta or­sök ör­orku hjá körl­um. Alls hafa 288 kon­ur fengið 75% ör­orkumat vegna geðrask­ana á síðustu 12 mánuðum og eru geðrask­an­ir 30,2% allra ör­orkumata þegar flokkað er eft­ir sjúk­dóms­grein­ingu hjá kon­um.

Sem gefur að skilja eru ýms­ar kenn­ing­ar í gangi og íslensk yfirvöld eru núna ásamt öðrum að reyna að átta sig bet­ur á því hvað veld­ur þessari öfugþróun sem er ekki bundin við Ísland. Forstjóri Tryggingastofnunar bendir á í áðurnefndri grein að það sé margt sem kem­ur til greina; auk­in spenna í sam­fé­lag­inu, breytt­ur vinnu­markaður, og svo að sjálfsögðu hin mikla streita og streitu­tengd­ir sjúk­dóm­ar sem svo mjög eru til umræðu nú. Streitu­tengd­ir sjúk­dóm­ar, kvíði og þung­lyndi eru þeir sem flokk­ast und­ir geðrask­an­ir í ör­orkumati Trygg­inga­stofn­un­ar. Það er kannski óvarlegt að segja að þarna ráði óhamingjan ein en þessi þróun er heldur dapurleg. Í janú­ar 2017 voru sam­tals 3.334 karl­menn ör­yrkj­ar vegna geðrask­ana og 3.851 kona. Þetta er nánast jafn margir og búa á Selfossi, mínum gamla heimabæ. Er því nema von að menn spyrji sig að því hvort óhamingja landsmanna sé að aukast, nú þegar við upplifum meiri efnahagslega velsæld en áður. health-happiness

Hamingjusaga mannkynsins

Yuval Noah Harari er líklega umtalaðasti sagnfræðingur nútímans og án efa einn eftirtektarverðasti samfélagsrýnir okkar daga. Í bók sinni Sapiens: A Brief History of Humankind fjallar hann mikið um hamingjuna og hvernig hún speglast í sögu mannkynsins. Harari er reyndar á því að maðurinn hafi verið hamingjusamastur á hirðingjaskeiðinu sem gæti hafa ríkt allt þar til fyrir 12 þúsund árum. Þá hafi maðurinn verið til þess að gera áhyggjulaus, lifað nokkurn veginn í núinu, haft nóg að bíta og brenna og sjúkdómar fátíðir. Það hafi ekki verið fyrr en með landbúnaðarbyltingunni sem fór að halla undan fæti og svo enn frekar þegar borgir taka að myndast. Kenningar Harari eru ögrandi og hann slær fram tilgátu um að hugsanlega hafi landbúnaðarbyltingin verið eitt allsherjar gabb! Eftir hana hafi maðurinn verið verið fastur í viðjum framleiðslutækjanna. Kunnugleg nálgun en ekki verður séð að Harari sé Marxisti umfram annað en þetta minnir að sjálfsögðu á firringarhugtakið sem Karl Marx fékk að hluta til lánað frá Hegel.

Harari bendir réttilega á að sagnfræðingum sé ekki tamt að fjalla um hamingjuna. Alla jafnan séu þeir ekki að meta framvindu sögunnar eftir því hversu hamingjusamir mennirnir séu frá einum tíma til annars. Harari telur þetta hins vegar mikilvæga spurningu sem hugmyndafræði eða stjórnmálastefnur séu yfirleitt ekki að fást við og í reynd sé erfitt að svara þessum spurningum þar sem öll gögn um þróun hamingjunnar vanti. Hugsanlega kann að verða breyting á því en eins og lesendur þessara pistla hafa tekið eftir þá er hér gjarnan fjallað um vísitölu félagslegra framfara (Social Progress Index).

Kosið um hamingjuna?

Þrátt fyrir allt hafa sum ríki sett það á stefnu sína að auka hamingju þegna sinna og mælikvarði sá sem mælir vísitölu félagslegra framfara (Social Progress Index) er beinlínis settur upp með það í huga að unnt sé að mæla hamingjuna. Þar er Ísland í þriðja sæti, næst á eftir nágrönum okkar í Noregi og Danmörku. Öfundsverð staða en dugar ekki til.

Social Progress Index (SPI) vísitalan er sett saman af teymi hagfræðinga undir stjórn Michael E. Porter, prófessors í hagfræði við Harvard háskóla. Við uppröðun á lista SPI er horft framhjá hefðbundnum mælikvörðum hagfræðinnar, mælikvörðum á borð við hagvöxt og þess í stað litið til lífsgæða og tækifæra til velgengni. Listinn styðst við opinber gögn og er meðal annars litið til heilsufars, mannréttinda og menntunar, auk annarra þátta. Í stuttu máli má segja að listinn horfi fremur til þess hvað kemur út úr kerfinu heldur en þess sem fer inn í það. Í stað þess að einblína á framlög til heilbrigðismála er reynt að horfa til þess heilbrigðis sem framlögin skila til samfélagsins. Í því ljósi blasir við að þessi aðferðarfræði getur hæglega nýst stjórnvöldum við forgangsröðun, stefnumótun og ákvarðanatöku. Og hugsanlega fundið leiðir til að auka hamingju þegnanna.

Michael E. Porter hélt fyrirlestur hér á landi fyrir tæpum tveimur árum og var þá tíðrætt um hamingjuna, hve mikla hamingju væri hægt að mæla og hvernig hún birtist í einstökum þjóðfélögum samkvæmt mælingum eins og þeim sem SPI stendur fyrir. En um leið benti hann á að huglæg upplifun eins og hamingja er ákveðið vandamál þegar verið er að smíða mælitæki sem eiga að endurspegla velsæld mannsins í samfélaginu. Það var enda athyglisvert að fátækt ein og sér segir ekki alla söguna samkvæmt skilgreiningu Porters þó að peningar séu alstaðar afl þeirra hluta sem gera þarf. En með því að veita fólki tækifær má ná langt á hamingjumælikvörðum. Að því leyti má segja að krónur og aurar einir saman mæli sannarlega ekki hamingjuna. Það eru gömul sannindi sem mörg þjóðfélög geyma með sér í einni eða annarri mynd.

Að gleyma stund og stað

Flest þjóðfélög hafa einhver svör eða hugsun um hamingjuna en það virðist flestum þjóðfélögum sameiginlegt að þegnar þeirra eru leitandi í hamingjuleit sinni. Sum þjóðfélög hafa til þess að gera einföld ráð. Í japönsku er að finna hugtakið „Ikigai” sem má túlka á ýmsa vegu en er þó ætlað að tjá það ástand sem veitir fólki mesta ánægju eða fullnægju. Jafnvel einhverskonar hamingju. Hugtakið vísar til þess þegar fólk nær að gera eitthvað sem fær það til að gleyma  stað og stund og þannig finna lífi sínu tilgang. Þarna blandast saman hvað viðkomandi er góður að gera og hvað honum líkar að gera en það er líklega hægt að slá því föstu að það fari saman. Það er ekki vandalaust að finna Ikigai þó flestir geti sjálfsagt samsamað sig einhverju verki þar sem þeir gleyma sér algerlega. Jafnvel svo að menn gleymi að borða eða drekka. Japanir ráðleggja fólki að finna sitt Ikigai og tvinna því saman við daglegt líf. Þetta mun sérstaklega gagnast fólki sem er óhamingjusamt í vinnu sinni. Nokkuð sem virðist einkenna velmegunarsamfélög vesturlanda.

Það veldur óhamingju að ætlast til of mikillar hamingju, sagði Tómas Guðmundsson skáld. Hugsanlega erum við komin á þann stað að væntingar okkar eru komnar fram úr því sem hægt er að krefjast af samfélaginu. Smáríkið Bútan er heldur afskekkt konungsveldi í Himalayafjöllum en það hefur einsett sér að efla hamingju þegna sinna. Ekki með því að lofa þeim áhyggjulausu velferðarríki enda leyfir fjárhagur ríkisins það ekki. Þess í stað telja landsmenn að virðing fyrir náttúru, menningu, sjálfbærni og gömlum gildum sé leiðin til þess að efla hamingju landsmanna. Væri það eitthvað sem hægt væri að bjóða íslenskum kjósendum?

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.