c

Pistlar:

27. október 2017 kl. 10:25

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Skógrækt og loftslagsmál

Fyrir stuttu var sagt frá því að á Skeiðarársandi væri að vaxa upp sjálfsáin birkiskógur sem væri um 30 ferkílómetrar að flatarmáli. Þeir náttúrufræðingar sem lýstu fyrirbærinu voru vægast sagt undrandi á þessum sprengikrafti náttúrunnar. Margt kemur til. Nýtt land hefur birst eftir að jökull tók að hopa og jökulár hafa breytt framburði sínum. En einnig urðu tilteknar aðstæður að vera til staðar til þess að af þessu gæti orði en talið er að einhverskonar „fræsprengja” hafi orðið í skógunum í kringum Skaftafell. En þetta er merkilegt náttúrufyrirbæri sem sýnir okkur að um leið og Íslendinga bíða mikil tækifæri samfara hlýnandi loftslagi og við að fást við hlýnun andrúmslofts þá er ljóst að skógrækt getur skipt miklu máli.

Við upphaf landnáms er talið að um 25 til 40% landsins hafi verið skógi vaxið. Í dag lætur nærri að þetta hlutfall sé um 2%. Upp úr miðri síðustu öld, þegar uppblástur var sem mestur, var þetta hlutfall komið niður í 1%. Þrátt fyrir mikið starf á sviði skógræktar síðustu áratugi höfum við aðeins náð að auka þetta hlutfall um 1%. Augljóslega má miklu breyta og í þessu geta falist mikil tækifæri til að takast á við nýjar áskoranir í umhverfismálum og til að stemma stigum við aukningu koldíoxíðs í andrúmsloftinu.

Þjórsárdalur og kraftur gróðursins

Fyrir stuttu fór undirritaður um Þjórsárdal og skoðaði þetta ægifagra svæði sem varð að auðn við stórt Heklugos á 12. öld. Hekla hefur aftur og aftur höggvið nær byggð og gróðri á þessum slóðum en alltaf kemur gróðurinn aftur og nú af miklum krafti.  Merkilegt er að sjá þá miklu uppgræðslu sem þar hefur orðið undir ýmsum formerkjum, meðal annars vegna tilstyrks átaks eins og Hekluskóga. Á sínum tíma átti Landsvirkjun mikinn þátt í að græða upp auðnina í kringum Búrfell og í Þjórsárdal og segir sagan að sunnlenskum bændum hafi þótt meira til um það en virkjunina sjálfa. Nú er ræktarlegt skóglendi að finna í mynni dalsins og birki og aðrar plöntur að teygja sig upp úr söndunum. Meðal annars vegna þess að Þjórsá hefur verið beisluð.

Síðasta föstudag var haldið umhverfisþing í Hörpu og margt áhugaverðra erinda. Forvitnilegast var án efa hve lausnamiðuð umræðan er orðið og fróðlegt að sjá þær lausnir sem þar voru teiknaðar upp. Að hluta til erum við að sjá markaðslausnir verða til þar sem verð er sett á mengunina og úrlausnin tekur mið af því. Hluti koldíoxíðvandans (Koltvísýringur, koltvíoxíð eða koltvíildi, auðkennt Co2) verður væntanlega leystur með því að binda það og þar duga náttúrulegar lausnir best. Hér fylgir með mynd af uppblásnum mel sem auðvelt væri að klæða gróðri.2015-07-09 18.16.41

Grænkustuðullinn hækkar!  

Grænkustuðull landsins, þ.e. magn græns gróðurs, hefur á 30 ára tímabili, 1980-2010, aukist um hvorki meira né minna en 80%. Á sama tíma hefur og vaxtarhraði birkis áttfaldast miðað við árin í kringum 1970. Ekki hefur dregið úr þessu síðustu ár og ljóst að gróðurlína landsins hefur færst upp um hundruð metra síðustu áratugi sem hefur auðvitað gríðarleg áhrif á Co2 upptöku. Þetta hefur einnig marktæk áhrif á framleiðni og samkeppnishæfni íslensks landbúnaðar og gerir honum kleift að rækta með góðum árangri tegundir, sem áður var undir hælinn lagt með, svo sem ýmsar korntegundir og repju.  Boðuð hækkun kolefnisgjalds mun sennilega gera það að verkum, að stórfelld repjuræktun til framleiðslu á eldsneyti og mjöli verður arðsöm. Markaður verður fyrir alla þessa framleiðslu innanlands, þar sem eru olíufélögin og laxeldisfyrirtækin og fleiri.

Þá mun binding koldíoxíð á hvern hektara skóglendis hérlendis vaxa, sem gerir íslenska skógarbændur vel samkeppnishæfa um verð á koldíoxíðkvóta á Evrópumarkaði, ef hann þróast með svipuðum hætti og ráðgert er til dæmis í Kanada en Bjarni Jónsson rafmagnsverkfræðingur hefur skrifað mikið um þessi mál og af mikilli þekkingu. Þarna eru augljóslega gríðarleg tækifæri.

„Við eigum yfrið nóg af landi. Skógar vaxa vel á Íslandi ef rétt er að staðið. Þekkingarinnar hefur verið aflað. Rækta má nytjaskóga á auðnum sem áður voru gróið land. Auðnir sem nú losa verulegt kolefni - af því að jarðvegur í þeim er enn að rotna - geta á stuttum tíma orðið að nytjaskógum sem binda verulegt kolefni og gefa miklar afurðir. Þannig má snúa losun í bindingu og fá að auki dýrmætar afurðir skógarins þegar tímar líða,” skrifaði Pétur Halldórsson,  kynningarstjóri Skógræktarinnar, í grein fyrir stuttu eins og lesa má hér.

Pétur benti á að fyrir 500 milljónum ára var hlutfall koltvísýrings í andrúmslofti jarðarinnar 15 sinnum meira en nú er. Við slíkar aðstæður gætum við ekki lifað. Svo fóru að þróast skógar. Þetta sýnir okkur að gríðarleg tækifæri felast í því að horfa til náttúrunnar og nýta hana til að skapa það jafnvægi sem dugar henni og mönnum best.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.