Pistlar:

8. nóvember 2017 kl. 15:35

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Arðgreiðslur Landsvirkjunar

Samanlagðar arðgreiðslur Landsvirkjunar á árunum 2020-2026 geta að öllu óbreyttu numið um 110 milljörðum króna eða tæplega 16 milljörðum króna á ári. Þetta kom fram í máli Harðar Arnarsonar forstjóra Landsvirkjunar á opnum haustfundi fyrirtækisins í Hörpu í síðustu viku. Hörður sagði að stefnt væri að því að byrja að auka arðgreiðslur hægt og rólega, þegar á næsta ári. Það er mikil breyting frá því sem hefur verið undanfarin ár en þá hafa arðgreiðslur numið að meðaltali 1,5 milljarði króna á ári.

Þetta eru ánægjuleg tíðindi þó þau séu ekki beinlínis óvænt. Stefnt hefur verið að þessum arðgreiðslum í langan tíma en nú liggur fyrir í fyrsta sinn hvernig þeim verður háttað. Um leið blasir við að ákveðin stefnubreytinga er að verða hjá Landsvirkjun. Í dag er unnið að tveimur virkjunum á vegum félagsins, Þeistareykjum og stækkun Búrfells, en aðrar virkjanir ekki í framkvæmdafasa og reyndar óvíst með öll frekari virkjanaáform. Þá er margt sem bendir til þess að þeir tímar, þegar samið var við stóra kaupendur og virkjað í framhaldi þess séu liðnir. Hugsanlega er nú að verða meiri sátt um starfsemi Landsvirkjunar þó orkuöflun í framtíðinni muni alltaf kalla á umdeildar ákvarðanir. Það er til dæmis umhugsunarefni að lagst sé gegn því að reisa vindmillur á Hafinu fyrir ofan Búrfell þó fáir staðir í heiminum bjóði upp á jafn góð skilyrði fyrir vindmillur sem hafa lítið rask í för með sér. Á Hafinu eru síðan allar tengingar til staðar þannig að ekki þarf að ráðast í mikil línumannvirki en það eru líklega þær framkvæmdir innan orkugeirans sem verða hvað mest umdeildar næstu árin. landsv

Þjóðarsjóður

„Ég tel tímabært að við Íslendingar stofnum sérstakan orkuauðlindasjóð, fullveldissjóð okkar Íslendinga, sem í myndi renna allur arður af nýtingu orkuauðlindanna," sagði Bjarni Benediktsson, þáverandi fjármálaráðherra á ársfundi Landsvirkjunar 2015. Hann ræddi þetta einnig í ræðu sinni 2016 og Benedikt Jóhannesson, núverandi fjármálaráðherra, hélt uppteknum hætti og minntist á sjóðinn á ársfundi Landsvirkjunar fyrr á árinu. Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar er talað um stöðugleikasjóð sem haldi utan um arð af orkuauðlindum í eigu ríkissjóðs, tryggi komandi kynslóðum hlutdeild í ávinningi af sameiginlegum auðlindum og geti verið sveiflujafnandi fyrir efnahagslífið. Nefnd á vegum forsætisráðherra vinnur að útfærslu slíks sjóðs.

Ýmsar tölur hafa verið nefndar um stærð stöðugleika/þjóðarsjóðs og meðal annars sagt að í honum geti orðið allt að 500 milljarðar króna eftir 20 ár. Vissulega er horft til olíusjóðs Norðmanna en fyrirkomulag sjóðsins verður þó að henta íslenskum aðstæðum. Talað hefur verið um að sjóðurinn komi að innviðauppbyggingu hérlendis og að hann yrði notaður til að borga niður skuldir. Sjálfsagt má færa fyrri því skynsamleg rök að farsælast sé að slíkur þjóðarsjóður fjárfesti alfarið erlendis. En um allt slíkt þarf að vera sátt og sumum kann að þykja nauðsynlegt að fjárfesta á Íslandi og ríkissjóður skortir alltaf fé. Ákvörðun um framhald málsins bíður nýrrar ríkisstjórnar.

Hvað skapar grunn fyrir arðgreiðslur Landsvirkjunar?

Hörður rakti í erindi sínu hvernig lagður hefur verið grunnur að þessari auknu arðgreiðslugetu í rekstri fyrirtækisins. Þar nefndi hann til:

  • endursamninga við alþjóðlega stórnotendur
  • nýja viðskiptavini og mikla eftirspurn
  • byggingu tveggja nýrra virkjana án aukningar skulda
  • framkvæmdir og aðgerðir sem bætt hafa nýtingu raforkukerfisins
  • skynsamlegar fjárfestingar í viðhaldi aflstöðva, sem gert hafa að verkum að ekki er uppsöfnuð fjárfestingarþörf og
  • lækkandi fjármagnskostnað, sem helgast af lægri skuldum og bættu lánhæfismati

Endurnýjanleg orka er verðmætari

Á fundinum fóru sérfræðingar Landsvirkjunar yfir það hvernig virði endurnýjanlegrar orku hefur aukist að undanförnu, hér heima og í öllum heiminum, í kjölfar vitundarvakningar um umhverfis- og loftslagsmál. Þannig var það eitt meginstef fundarins að endurnýjanleg orka er verðmætari en önnur orka og mest aukning verður í notkun endurnýjanlegra orkugjafa í framtíðinni. Þar er staða Landsvirkjunar augljóslega sterk.

Sæstrengur settur til hliðar?

Hlutverk Landsvirkjunar er að hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem fyrirtækinu er trúað fyrir með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi. Undanfarið hefur fyrirtækið unnið að því að skapa forsendur fyrir hækkun á arðgreiðslum. Um leið virðist fyrirtækið hafa sett til hliðar umræðu um sæstreng.

Umhverfisstjóri Landsvirkjunar, Ragnheiður Ólafsdóttir, rakti á fundinum hvernig fyrirtækið stefnir að því að verða kolefnishlutlaust árið 2030. Kolefnisspor Landsvirkjunar er nú um 3,5 grömm af koltvísýringi á hverja kílóvattstund, en sem dæmi má nefna að spor Fljótsdalsstöðvar er um 1,5 grömm á kílóvattstund, borið saman við 700 grömm eða þaðan af meira af orkuvinnslu með kolum eða olíu. Ef Landsvirkjun nær markmiðum sínum á þessu sviði er það merkileg þróun.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.