Pistlar:

23. nóvember 2017 kl. 16:13

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Bókadómur: Framfarir eða bjartsýni?

Tímarnir eru nú erfiðir

og heimurinn orðinn gamall og vondur.

Stjórnmálin eru spillt.

Börn bera ekki lengur virðingu fyrir foreldrum sínum.

Rist í stein í Kaldeu. 3800 f. Kr.270

Þessi fornu spakmæli má finna í upphafi eftirmála bókarinnar Framfarir sem kom út á íslensku fyrir skömmu. Í bókinni reynir sænski sagnfræðingurinn Johan Norberg að gefa lesendum innsýn í það hvernig málum vindur fram í henni veröld. Ekki vandalaust enda má segja að stjórnmál nútímans snúist meira og minna um meta og skilja hið sanna ástand heimsins - og ef slíkur skilningur fæst, að bregðast við því á einhvern uppbyggilegan hátt. Það, hvernig við skiljum heiminn og framvindu hans getur verið mjög mismunandi og víða er tekist á um fréttamat fjölmiðla. Við sjáum slíka hugsun hér á landi en mikið af fréttum dagsins snúast um það sem miður fer í samfélaginu og skort á viðbrögðum og aðgerðum við því. Fréttamat fjölmiðla leiðir þannig fram endalaus tilvik þar sem hið sérstaka og afbrigðilega er áberandi en síður það sem byggist á þróun og telst til framfara. En rétt eins og upphafsorðin sýna þá er þetta ekki ný nálgun, kannski að manninum sé áskapað að harma liðna tíma og óttast breytingar.

Norberg er á líkum slóðum og nokkrir þeirra sem hafa áður verið til umfjöllunar á þessum vettvangi. Þar má nefna menn eins og Matt Ridley og Hans Rosling. Sá síðarnefndi lést fyrir stuttu en var sérlega áhrifamikill fyrirlesari og fræðimaður. Undirritaður minntist hans í pistli hér. Rosling sagði okkur að ástandið í heiminum væri að batna en neitaði þó að láta kalla sig bjartsýnismann. Hann sagðist trúa á möguleika mannsins. Bók Ridley Heimur batnandi fer (The Rational Optimist: How Prosperity evolves) kom út fyrir nokkrum árum á íslensku og hefur verið talsvert vitnað til hennar á þessum vettvangi. Allir þessir menn hafa komið hingað til lands og haldið eftirtektarverða fyrirlestra sem undirritaður hefur átt þess kost að hlýða á. Á hverjum tíma hefur þó verið næsta hljótt um komur þeirra í samfélaginu.fram

Svartsýni ráðandi í umræðunni

Í upphafi bókar sinnar rekur Norberg hvernig svartsýnin virðist ráðandi í heimsmynd nútímamannsins. Hann bendir á að fimmtíu og átta af hverjum hundrað Bretum, sem í nýlegri þjóðaratkvæða greiðslu völdu að segja skilið við Evrópusambandið, töldu að lífið verra verra nú en fyrir þrjátíu árum. Árið 1955 töldu þrettán af hverjum hundrað almennum borgurum í Svíþjóð að aðstæður í samfélaginu væru „óbærilegar“. Eftir að þeir höfðu notið aukins einstaklingsfrelsis, hækkandi tekna, minnkandi fátæktar og betri heilbrigðisþjónustu í meira en hálfa öld taldi meira en helmingur Svía að ástandið væri óbærilegt!

Og rétt eins og Hans Rosling þá undrast Norberg heimsýn landa sinna en flestir myndu væntanlega halda að sænskt samfélag sé upplýst, svona kannski rétt eins og það íslenska. Fyrir nokkrum árum lét Norberg gera könnun þar sem eitt þúsund Svíar voru spurðir átta spurninga um þróun heimsins. Norberg segir að þekkingarskortur þeirra hafi reynst ótrúlegur. Að meðaltali höfðu allir aldurs- og tekjuhópar rangt fyrir sér þegar þeir svöruðu þessum átta spurningum. Þeir töldu heiminn slæman og að hann færi versnandi og vanmátu flestir þær framfarir sem orðið höfðu. Sjötíu og þrír af hundraði töldu að hungur væri orðið alvarlegra og sjötíu og sex af hundraði að örbirgð hefði aukist á tímabili þegar dregið hafði hraðar úr hvoru tveggja en nokkru sinni áður í sögu mannkyns. Þeir Svíar í könnuninni sem hlotið höfðu æðri menntun vissu enn minna um árangurinn sem náðst hafði í baráttunni við hungur og fátækt. Það varð Norberg tilefni vangaveltna um hversu gamlar og úreltar kennslubækurnar væru sem þeir lásu. Er þetta ekki eitthvað sem mætti eins velta fyrir sér hér á landi?

Af þessu tilefni bendir Norberg á: „Þrátt fyrir það sem við heyrum í fréttum og hjá mörgum rithöfundum er saga okkar tíma sú að við erum vitni að mestu framförum á lífsskilyrðum sem nokkurn tíma hafa átt sér stað. Nú dregur hraðar úr fátækt, vannæringu, ólæsi, barnaþrælkun og ungbarnadauða en nokkru sinni fyrr í sögu mannkynsins. Lífslíkur við fæðingu hafa aukist yfir tvöfalt meira á síðustu öld en á næstu 200.000 árum á undan. Hættan á að einstaklingar standi frammi fyrir stríði, deyi af völdum náttúruhamfara eða búi við alræðisstjórn er minni en nokkru sinni fyrr. Líkurnar á því að barn sem fæðist nú nái eftirlaunaaldri eru miklu meiri en líkurnar á að forfeður þess næðu að verða fimm ára.”

Í bókinni er þannig að finna mikilvægar athugasemdir við sjónarhorn nútímans. Norberg bendir á að þegar einhver skrifar bók með jákvæðum skilaboðum um ástand heimsins sé ekki nauðsynlega verið að predika yfir hinum sannfærðu. Hann vitnar til rithöfundarins Ronald Bailey sem hefur gert mikið til að andmæla tilfinningunni um yfirvofandi eymd og hörmungar. „Þegar hann lagði tillögu um þetta fyrir útgefanda sinn vörpuðu viðbrögðin einmitt ljósi á það sem fólk vill lesa: „Ron, við gefum þessa bók út og græðum báðir dálítið af peningum. En ég skal segja þér að ég hefði getað gert þig að auðugum manni hefðir þú komið með bók sem spáir endalokum heimsins.“ (bls. 209)

Efasemdir um gildi sannleikans

Tíðarandi undanfarinna áratuga hefur fært okkur efasemdir um gildi sannleikans fyrir sagnfræði. Það sé í raun engin sannleikur, aðeins túlkanir. Þessu til viðbótar hefur hin heimspekilega umræða sett fram vangaveltur um að sannleikurinn hafi í raun ekkert gildi, hvorki fyrir sagnfræðinga né aðra. (Sjá Ádrepur, um sannleika, hlutleysi vísinda, málfrelsi og gagnrýna hugsun eftir Róbert H. Haraldsson 2010).

Í skrifum sínum vitnar Róbert til heimspekingsins Arthur C. Danton og gagnrýni hans á sjónarhornshyggju (e.perspectivism). Um það segir Danton, í þýðingu Róberts: „Við getum ekki rætt um satt eða rétt sjónarhorn heldur einungis ríkjandi sjónarhorn. Þar sem við getum ekki höfðað til neinnar staðreyndar sem er óháð því sjónarhorni sem hún styður, þá getum við gert lítið annað en að halda okkar eigin sjónarhorni fram og reyna eftir bestu getu að þröngva því upp á aðra.”

Þetta minnir okkur á að við lifum á póstmódernískum tímum en það kann eigi að síður að vera nauðsynlegt að velta fyrir sér hvað við raunverulega vitum. Einhversstaðar verðum við þó að standa. Sama hver sjónarhorn okkar eru, að endingu veltur trúverðugleiki okkar á því hvernig við notum heimildir og setjum fram rök okkar. Í daglegri umræðu hellast yfir okkur tölur og rannsóknir sem við eigum erfitt með að meðtaka, skilja og setja í samhengi. Við sjáum einnig að fjölmiðlar svara þessu með því að horfa á hið sértæka og keppast við að leiða fram fólk sem telur sig bera skarðan hlut frá borði í velferðarsamfélagi nútímans. Í þessu kraðaki getur verið erfitt að setja upplýsingar í skynsamlegt samhengi og fá sjónarhorn sem segir okkur yfir höfuð nokkuð.

Framfarasinni

Líklega er hægt að setja Norberg í hóp framfarasinna, rétt eins og tvo þá aðra fræðimenn sem hér hafa verið tilgreindir. Framfaratrú Norberg sést kannski ágætlega af lokaorðum hans: „Jafnvel þótt hægt sé að tortíma auði og mannslífum hverfur þekkingin sjaldan. Hún heldur áfram að vaxa. Þess vegna er ólíklegt að einhver afturkippur tortími framförum mannkynsins algjörlega. Framfarir verða þó ekki sjálfkrafa. Allar þær framfarir sem lýst er í þessari bók eru afrakstur vinnu dugandi fólks, vísindamanna, uppfinningamanna og frumkvöðla með undarlegar nýjar hugmyndir og hugrakkra einstaklinga sem börðust fyrir frelsi til að gera nýja hluti á nýjan hátt. Eigi framfarir að halda áfram verðum við öll að vera kyndilberar þeirra.” (bls. 221)

Bók Norberg er hressandi og upplífgandi lesning. Hann sækir heimildir sínar víða og reyndir að setja þær í skiljanlegt samhengi. Fyrir vikið er bókin þægileg aflestrar. Bókin skiptist í 10 kafla og kaflauppsetning er skilmerkileg og Norberg heldur vel utan um efnið og er fjörlegur í stíl. Kaflarnir fjalla um efni eins og fæðu, hreinlæti, lífslíkur, fátækt, ofbeldi, umhverfi, læsi, frelsi, jafnrétti og síðan næstu kynslóð. Á þann hátt tekur Norberg sig í gegnum flest umræðuefni nútímans og setur fram áhugaverð sjónarhorn. Það er því ekki hægt annað en að mæla með lestri þessarar bókar fyrir þá sem vilja leita að nýju og áhugaverðu sjónarhorni á þróun mála.

Framfarir (Progress)

Höfundur: Johan Norberg 2016

Þýðandi: Elín Guðmundsdóttir

Útgefandi Almenna bókafélagið - BF-úgáfa ehf. og

GAMMA Capital Management hf.

Reykjavík 2017

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.