c

Pistlar:

1. desember 2017 kl. 13:43

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Er lágvaxtalandið Ísland til?

Greiningardeild Arion banka bauð til fundar í morgun þar sem íslenska vaxtaumhverfið var til umræðu. Yfirskrift fundarins var: „Lágvaxtalandið Ísland: Hvenær kemur þú?” Líklega hefði það einhvertímann þótt saga til næsta bæjar að ræða Ísland í samhengi við lága vexti en þannig er það nú samt. Verðtryggð húsnæðislán eru nú með 2,77% vexti og munar um minna þegar verðbólgan er ekki hærri. Við erum því að lifa óvenjulega tíma og eðlilegt að menn velti fyrir sér hvernig næstu misseri verða. Verðbólguvæntingar eru nú með þeim hætti að ástæða er til nokkurrar bjartsýni, sýni menn skynsemi við samningaborðið eins og vikið verður að síðar.

Greinendur Arion banka bentu á í samantekt sinni að undanfarin ár og áratugi hafa vextir og verðbólga lækkað á Vesturlöndum. Þessi þróun, sem margir klóra sér í kollinum yfir, hefur náð til Íslands að því leyti að verðbólga hefur sjaldan verið jafn lítil jafn lengi. Bæði vegna lítillar verðbólgu en einnig vegna lægri raunvaxta (verðtryggðra vaxta). Auk þess virðist sem Seðlabanki Íslands geti náð markmiði um verðstöðugleika með lægri raunvöxtum en áður þó að vissulega séu margir til að gagnrýna hve hægt hefur gengið að lækka vexti. Það er niðurstaða sérfræðinga greiningardeildar Arion banka að ef skoðað er úr hverju nafnvextir eru almennt samsettir virðist flest rök hníga til umtalsvert lægri vaxta en við Íslendingar þekkjum sögulega. Þar vega þungt kraftar til lægri raunvaxta, lækkun verðbólguvæntinga og lækkun skulda.verdb

Verðbólguvæntingar óvenjulegar

Horfum til verðbólguvæntinga en þær eru þær væntingar sem lánveitandi hefur, og lántaki sættir sig við, um hvernig verðbólga þróast. Þær hafa sögulega verið mjög háar á Íslandi enda verðbólga oft verið mikil.

Samspil vaxta, verðbólgu og launa er óumdeilt og við Íslendingar stöndum kannski á ákveðnum tímamótum þar, nú þegar 80 kjarasamningar eru lausir og framundan er mikið „kjarasamningaár”. Hvernig vinnst úr því? Nú gætum við verið að sjá tímamót þegar kemur að verðbólguvæntingum en sögulega hefur okkur Íslendingum gengið illa að hafa stjórn á verðbólguvæntingum eins og rakið er í meðfylgjandi grafi. 

Af hverju skiptir það máli? Jú, vegna þess að væntingar um verð og hvers kyns efnahagsþróun eru að talsverðu leyti sjálfsuppfyllandi. Í kynningu greiningardeildar Arion banka voru nokkur dæmi tínd til um hvað veldur lágum verðbólguvæntingum:

  • Launþegar krefjast minni launahækkana sem leiðir til minni verðbólguþrýstings vegna launakostnaðar
  • Fyrirtæki sitja e.t.v. frekar á sér með að velta öllum breytingum beint út í verðlagið ef þau eru ekki hrædd við að lenda á eftir verðbólgukúfnum
  • Fjárhagsáætlanir fyrirtækja, heimila og hins opinbera miðast við minni verðbólgu
  • Hægt að snúa þessu öllu við ef verðbólguvæntingar eru háar

Seðlabankinn sér sig líka síður knúinn til að hækka vexti vegna annarra þátta ef verðbólguvæntingar eru við markmið eins og síðustu misseri sýna.

Næst stöðugleiki?

Engum dylst að ný ríkisstjórn er mynduð utan um að ná stöðugleika í samfélaginu. Ef verðbólga fer af stað má segja að það hafi brugðist. Nú er það svo að nær alla verðbólgu síðustu fjögur ár má rekja til húsnæðiskostnaðar. - Og það jafnvel þó að laun hafi hækkað um 35% frá ársbyrjun 2014.

Áform um að skila mun minni afgangi á fjárlögum næsta árs gætu sett drauga fortíðar af stað og  minnka líkur á að vextir lækki frekar eins og Hörður Ægisson, leiðarahöfundur Fréttablaðsins, bendir á í dag. Þar er varað við að aukin ríkisútgjöld og uppnám á vinnumarkaði geti hæglega stefnt efnahagsárangrinum í hættu með þekktum afleiðingum. Því er hægt að taka undir með Herði að stærsta verkefni nýrrar stjórnar verði að koma í veg fyrir að sú atburðarás – gengislækkun, aukin verðbólga og hærri vextir – endurtaki sig. Það væri hrapalegt þegar við höfum náð að svæfa verðbólguvæntingar svo rækilega.

 

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.