c

Pistlar:

14. desember 2017 kl. 21:27

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Fjárlögin: Gerbreytt skuldastaða ríkissjóðs

Síðustu ár hafa verið ís­lensku þjóðarbúi hag­stæð á flesta vegu. Á síðasta ári var hag­vöxt­ur 7,4% og vöxt­ur­inn hef­ur haldið áfram í ár sem er þá sjö­unda árið í röð sem lands­fram­leiðslan eykst. Í nóvemberhefti Peningamála birti Seðlabankinn nýja þjóðhagsspá þar sem gert var ráð fyrir 3,7% hagvexti í ár. Þjóðhags­spá Hag­stof­unn­ar ger­ir ráð fyr­ir að nokkuð dragi úr á næsta ári og hag­vöxt­ur verði 3,1% og 2,5-2,6% á ári fram til árs­ins 2023. Gangi spá­in eft­ir mun­um við Íslend­ing­ar þá hafa notið 13 ára samfellds hag­vaxt­ar­skeiðs.

Það sem meira er, skuldastaða þjóðarbúsins hefur gerbreyst og skiptir litlu hvar gripið er niður. Erlend staða þjóðarbúsins er nú jákvæð, skuldir ríkis og sveitarfélaga hafa stórlega lækkað og það sama má segja um skuldir fyrirtækja og heimila í landinu. Hér verður stuttlega rýnt í skuldastöðu ríkissjóðs eins og hún birtist í fjárlagafrumvarpinu sem kynnt var fyrr í morgun.

Ríkissjóður nýtur einstakra kjara

Áður en það er gert er þó rétt að benda á tíðindi sem bárust í gær af fjármögnun ríkisins en þá var greint frá því að ríkissjóður hefði gefið út skuldabréf að fjárhæð 500 milljónir evra, sem jafngildir um 61,5 milljörðum króna. Skuldabréfin bera 0,5% fasta vexti og eru gefin út til 5 ára á ávöxtunarkröfunni 0,56%. Fjárfestar sýndu útgáfunni mikinn áhuga og nam eftirspurn um 3,9 milljörðum evra eða ríflega áttfaldri fjárhæð útgáfunnar.

„Þessi útgáfa markar tímamót en ríkissjóður hefur aldrei tekið lán á hagstæðari kjörum,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, af þessu tilefni. Athygli vekur að viðbrögð fjárfesta voru vel umfram væntingar en eftirspurn var ríflega átta sinnum meiri en framboðið. Þátttakan í endurkaupunum og eftirspurn eftir nýju útgáfunni er merki um traust fjárfesta og er viðurkenning á þeim góða árangri sem náðst hefur ríkisfjármálum og við stjórn efnahagsmála. Þarna skiptir auðvitað máli að nýtt lánshæfismat Fitch birtist í síðustu viku og hefur það án efa einnig haft jákvæð áhrif. Ríkissjóður hefur nú greiðan og einstakan aðgang að erlendum lánsfjármörkuðum og er ansi langt frá þeim veruleika sem birtist í tilkynningu Steingríms J. Sigfússonar, þáverandi fjármálaráðherra, þegar hann skrifaði upp á erlend lán með 4,993% vöxtum um mitt ár 2011 og sagði það tímamót fyrir Ísland.skuld

Skuldir ríkissjóðs lækka hratt

Ein af helstu ástæðum betri kjara ríkissjóðs er sú staðreynd að skuldir ríkissjóðs, sem hlutfall af landsframleiðslu, hafa lækkað hratt síðustu ár samhliða aukinni landsframleiðslu. Nú nálgist sameiginlegt skuldahlutfall ríkis og sveitarfélaga það að fara undir 30 prósenta markið sem kveðið er á um í lögum. Þar munar mestu um skuldalækkun ríkissjóðs sem hefur verið hraðari en hjá sveitarfélögunum.

Vaxtagjöld ríkissjóðs á næsta ári eru áætluð 72 milljarðar króna og afgangur fjárlaga 35 milljarðar. Í þessari vaxtagjaldatölu eru meðtalin 14 milljarða króna reiknuð vaxtagjöld vegna reiknaðra lífeyrisskuldbindinga.

Eig­in­fjárstaða heim­il­anna ekki betri í 10 ár

Skuld­ir fyr­ir­tækja hafa lækkað og sama má segja um fjölskyldurnar. Eig­in­fjárstaða heim­il­anna hef­ur ekki verið betri frá ár­inu 2007 en hún er nú um 137% af vergri lands­fram­leiðslu sam­kvæmt Hag­stof­unni. Hlut­fall skulda af ráðstöf­un­ar­tekj­um heim­il­anna hef­ur lækkað stöðugt frá ár­inu 2010. Eign­ir um­fram skuld­ir hafa auk­ist um 68% frá ár­inu 2012 sam­kvæmt skatt­fram­töl­um eða um 1.090 millj­ón­ir króna. Þar munar auðvitað um Leiðréttinguna. Þeim fjölg­ar sem eru með já­kvæða eig­in­fjár­stöðu sam­kvæmt fram­töl­um og um leið fækk­ar þeim veru­lega sem eru með skuld­ir um­fram eign­ir. (Vert er að hafa í huga að hluti eigna er met­inn tölu­vert und­ir raun­v­irði þegar talið er fram til skatts, s.s. hluta­bréf.)

Skuldir lækka um 50 milljarða

Nú er svo komið að frumjöfnuður ríkissjóðs Íslands er betri en í ríkjum ESB en vaxtakostnaður er hins vegar hærri hér á landi en í nokkru ríkja ESB þótt skuldastaðan sé í meðallagi en það stafar af háu vaxtastigi.

Unnið hefur verið markvisst að því á undanförnum árum að borga niður skuldir og er því haldið áfram á árinu 2018. Gert er ráð fyr­ir því að skuld­ir rík­is­sjóðs muni lækka um 50 millj­arða króna á næsta ári. Allt þetta sýnir að undanfarin ár hefur orðið gríðarleg breyting á skuldastöðu ríkissjóðs, vaxtakjörum og fjármögnun. Þess njóta þeir sem nú véla um útgjöld ríkisins. Þá er ótalið að eignastaða ríkisins hefur batnað gríðarlega með uppgjörinu við kröfuhafana. En það er önnur saga.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.