c

Pistlar:

18. desember 2017 kl. 20:32

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Bókadómur: Erlendur landshornalýður?

Í bókinni Erlendur landshornalýður? skrifar sagnfræðingurinn Snorri G. Bergsson um erlenda gesti sem komið hafa hingað til lands, ímynd þeirra og hlutverk og viðhorf Íslendinga til þeirra frá miðri nítjándu öld fram til hernámsins 1940. Hér er tekið fyrir efni sem hefur ekki áður verið til í samstæðri heild en Snorri hefur viðað að sér gríðarlegum heimildum enda byggir bókin á áralangri rannsóknarvinnu hans. Hér er því mikil saga sögð og á án efa eftir að koma mörgum á óvart.

Þessi saga er um margt dapurleg og á erindi við samfélag okkar í dag. Afstaða og viðbrögð við flóttamönnum og hælisleitendum er eitthvað sem stöðugt þarf að ræða og meta. Segja má að hvert og eitt samfélag sé ávallt að takast á við nýja hluti að þessu leyti já, nema þau sem eru algerlega lokuð. Snorri skiptir umfjöllun sinni í tvennt. Annars vegar ræðir hann um útlendinga og íslenskt samfélag á árunum 1853 til 1937 og svo hins vegar um viðbrögð Íslendinga við þýska flóttamannavandanum 1933-1939 í alþjóðlegu samhengi.

Af þessu má sjá að Snorri leitast við að setja stefnu Íslendinga til útlendinga í samhengi við innlenda þróun um leið og hann fer yfir mestu átakapunkta síðustu aldar þegar kemur að flóttamönnum, nefnilega uppgangi nasista í Þýskalandi og þær afleiðingar sem stefna þeirra hafði fyrir gyðinga.

Það er mikilvægt að skilja að hugmyndir Íslendinga til útlendinga framan af mótuðust af því að hér bjó samfélag við hungurmörk. Framfærsluskylda var á nærsamfélaginu sem þar af leiðandi reyndi allt hvað hægt var til að stemma stigu við nokkru því sem gat aukið slíka skyldu sem var þung fyrir fátækt samfélag. Við þekkjum þetta vel af þeirri stöðnun sem þetta kallaði yfir íslenskt samfélag og andúð við flestar breytingar, svo sem borgarmyndun sem yfirvöld töldu að yrði á kostnað sveitanna. Þeir útlendingar sem hingað komu guldu þess. Það var ekki vilji til þess að fjölga þeim munnum sem þurfti að fæða. Sérkennilegt er að lesa lýsingar af mönnum sem komu frá norðurlöndunum, festu hér rætur og stofnuðu fjölskyldu. Þegar harðnaði á dalnum og þeir misstu getuna til að framfærslu og urðu bjargþrota var þeim gert að yfirgefa landið með fjölskyldu sína. Skipti engu þó kona og börn væru augljóslega íslensk. Þetta eru átakanlegar sögur.erlendur

Sagnfræðin og helförin

En þungi frásagnarinnar lýtur að afstöðu til gyðinga og almennt til kynþáttamála. Eftir að hafa lesið frásögn Snorra áttar maður sig á hve útbreidd andúðin á gyðingum var og að því leyti er auðveldara að skilja af hvaða rótum uppgangur nasista var og síðar helförin. Satt best að segja hefur það lengi vafist fyrir sagnfræðingum að skilja og greina nasismann og setja hann í samhengi, hvort sem það er pólitískt eða félagslegt. Svo mjög að menn hafa reynt að smíða kenningar eða þróa aðferðafræði til að vinna með þennan svartasta blett nútímasögunnar.

Söguhyggja eða Historisierung er hugtak sem sagnfræðingurinn Martin Broszat, einn af upphafsmönnum hversdagssögunnar, lagði til umræðunnar. Það snýst um hvort hægt sé að fjalla um nasistatímabilið með sömu aðferðafræði og aðra sagnfræði. Með því að rannsaka einstaklingsbundna reynslu og menningu í grasrót samfélagsins hjálpi það til við að leysa upp þá bannhelgi sem lengi hvíldi á umræðunni, sérstaklega gagnvart yngri kynslóðinni í Þýskalandi. Það var lengi mikil áskorun að ræða nasismann og helförina í þýsku samfélagi enda voru þessi mál ekki ræddi lengi vel. Önnur sagnfræðileg nálgun, hversdagssagan (alltagsgeschichte), og sú reynsla sem hún segir frá eykur skilning á hegðun venjulegs fólks - sem gætu verið ættingjar þessa unga fólks í Þýskalandi sem varð að horfast í augu við gerðir ættingja og vina. Hún varð jafnframt til þess að vekja til vitundar vandamál sem tengdust sagnfræðilegri sjálfsmynd í V-Þýskalandi og tengsl við Þriðja ríkið. Hversdagssagan er áminning um þörfina til að staðsetja Þriðja ríkið sem óaðskiljanlegan hluta af þýskri sögu. En um þessa nálgun eru að sjálfsögðu deildar meiningar meðal sagnfræðinga og verður ekki farið út í það hér.

Í þessum anda er nálgun Snorra sem rannsakar einstaklingsbundna reynslu og rekur sig þannig áfram í sögunni um leið og hann greinir hvernig einstaklingarnir vefjast inn í opinbera og hálfopinbera stefnu hér á Íslandi og gjalda fyrir það með lífi sínu í sumu tilvikum. Því miður verðum við að horfast í augu við að gyðingaandúð var mikil hér á landi og inngróin í samfélaginu, rétt eins og annars staðar í Evrópu á þessum tíma. Þannig er stefna stjórnvalda ekki í miklu frábrugðin stefnu annarra landa. Þegar Þýskaland nasismans hefur svipt stóran hluta gyðinga ríkisfangi virðast þeir verða algerlega landlausir og í raun bjargalausir. Stefna íslenskra yfirvalda bjargaði í það minnsta engum. Þeir fáu gyðingar sem hér fengu skjól tókst það fyrst og fremst vegna baráttu og skilnings nokkurra Íslendinga sem reyndu að bjarga fólki sem þeir höfðu náð að mynda tengsl við.  

Höfnuðu læknum í læknislausu samfélagi

Fyrir utan hve ómannúðleg þessi stefna var þá var hún ekki skynsamleg. Þessi afstaða til gyðinga hafði í för með sér að Íslendingar urðu af starfskröfum fólks sem hefði getað auðgað og bætt samfélagið. Það rekur Snorri rækilega. Það blasir til dæmis við að á fjórða áratug 20. aldar var sérstaklega mikill skortur á augnlæknum, skurðlæknum og sérfræðingum af svipuðum toga á Íslandi, sér í lagi þó tannlæknum en aðeins voru um átta slíkir á landinu á þeim tíma. Töluvert margir gyðingar eða menn af gyðingaættum sem sóttu hér um landvist bjuggu yfir sérþekkingu og starfsreynslu á þeim sviðum en komu engu að síður að lokuðum dyrum á Íslandi.

Það var með ólíkindum hve lítinn skilning yfirvöld hér á landi höfðu á þessu. Þar ber Vilmundur Jónsson landlæknir mesta ábyrgð. Fróðlegt er að skoða umsókn berklasérfræðings af gyðingaættum sem var staddur í Reykjavík í febrúar 1938 en dómsmálaráðuneytið óskaði eftir umsögn landlæknis um hann. Í umsókn mannsins segir: „Ég, undirritaður, dr. med. Otto Leo Glogauer, þýzkur ríkisborgari, fæddur 29. október 1900, leyfi mér hérmeð virðingarfyllst að fara þess á leit við hið háa atvinnumálaráðuneyti, að það veiti mér leyfi til þess að starfa sem praktiserandi læknir á Íslandi. Eins og ég hefi skýrt hæstvirtum atvinnumálaráðherra og þeim prófessor Guðmundi Thoroddsen, prófessor Níels Dungal, landlækni Vilmundi Jónssyni og form. Læknafélags Reykjavíkur, Magnúsi héraðslækni Péturssyni frá, er mér sem gyðingi ókleift samkvæmt hinum nýjustu lögum í Þýzkalandi, að stunda starf mitt sem læknir, en ég var embættislæknir í Berlin, berklalæknir, og leyfi ég hérmeð að leggja fram vottorð um starf mitt til þessa, svo og lista yfir vísindarit mín.” (Bls. 147)

Allt þetta rekur Snorri af mikilli nákvæmni. Örlög Otto Leo Glogauer er um margt dæmigerð en hann fæddist í Kattowitz (Katowice) í Efri-Slésíu, austast í Þýska keisaradæminu, í október 1900. Heimaborg hans féll undir Pólland í stríðslok eftir mikil átök og atkvæðagreiðslur, svo að margar þýskumælandi fjölskyldur fluttu sig um set yfir til Þýskalands. Glogauer-fjölskyldan virðist hafa verið í þeim hópi. Otto Leo nam læknisfræði og lauk prófi 1923. Hann starfaði í Breslau, Vínarborg, Berlín og víðar.

Hafnað þrátt fyrri þörf á berklalækni

Samkvæmt skrá yfir störf, meðmæli og vísindarit má ætla að Otto Leo hafi verið að minnsta kosti jafnhæfur og íslenskir berklalæknar, ef ekki hæfari segir Snorri. Við bættist að á þessum tíma var mikil þörf á sérfróðum berklalæknum á Íslandi. Árið 1938 hófu þrjár berklarannsóknarstöðvar starfsemi á landsbyggðinni, á Akureyri, Seyðisfirði og í Vestmannaeyjum, til viðbótar við aðalstöðina í Reykjavík og berklaspítalann á Vífilsstöðum. Tvær stöðvar risu síðan 1939, önnur á heimavelli landlæknis á Ísafirði og hin á Siglufirði. Berklar voru þá einn mesti vágestur í heilbrigðismálum á Íslandi og telur Snorri að koma Glogauers, virts sérfræðings í berklasjúkdómum, hefði átt að vera mikill fengur fyrir tiltölulega fámenna læknastétt á strjálbýlu Íslandi. Engu að síður neitaði Vilmundur landlæknir þessari beiðni „þýsks ríkisborgara og Gyðings“ vegna þess að ástæða væri til „að óttast vandræði af of miklum læknafjölda hér á landi“. Hér væri þegar nægt framboð af innlendum læknum. Dómsmálaráðuneytið neitaði í kjölfarið beiðni Glogauers um að fá að starfa á Íslandi með vísun í álit landlæknis. Þótt landlæknir Íslands teldi sig ekki hafa þörf fyrir sérfróðan berklalækni af gyðingaættum tóku Svíar við honum. Otto Leo Glogauer fékk að starfa í bænum Höör, inni í miðju landi í austurátt frá Helsingjaborg.

Otto Leo settist að lokum að í Bandaríkjunum og starfaði þar uns hann lést 1966. Snorri rekur að ekki verði annað séð af heimildum en hann hafi verið virtur og skilað góðu starfi þau 25 ár sem hann dvaldi þar en jafnframt sinnti hann margvíslegum trúnaðarstörfum í samfélaginu. Snorri tiltekur fleiri dæmi um að velmenntuðum gyðingalæknum væri snúið frá, enda sóttu hlutfallslega margir þeirra um dvalarleyfi á Íslandi árin fyrir stríð.

Þess má geta að 1940 var læknaskorturinn orðið það alvarlegur á landsbyggðinni að Vilmundur Jónsson landlæknir og þingmaður lagði fram drög að frumvarpi um að þvinga unglækna til að starfa fyrst um sinn á landsbyggðinni að loknu námi, í stað þess að fara beint í samkeppni við eldri lækna í Reykjavík. Þetta væri „neyðarráðstöfun“ vegna alvarlegs læknaskorts á landsbyggð- inni og því væri réttlætanlegt að gera þetta til hagsmuna fyrir fólkið í landinu, þó að hér væri „teflt á tæpasta vað“ að því er varðaði stjórnarskrárvarið atvinnufrelsi lækna. Hæstiréttur taldi tillögur landlæknis í andstöðu við stjórnarskrá Íslands.

Einkastefna ráðamanna?

Snorri rekur með sannfærandi hætti að stefna ráðamanna í málefnum þessa fólks var tæpast í samræmi við anda laganna um eftirlit með útlendingum og atvinnuréttindi útlendinga, þar sem erlendir sérfræðingar „við allskonar iðju“ voru velkomnir til starfa væri þeirra þörf, eins og raunin hefði átt að vera með erlenda lækna. Þeir voru hins vegar óvelkomnir af ástæðum sem komu ekkert við menntun þeirra, reynslu og nytsemi. Gyðingalæknar máttu ekki líkna íslenskum sjúklingum af norrænu ætterni, rétt eins og gyðingalæknar máttu ekki sinna „aríum“ í Þýskalandi. Í báðum tilvikum var læknum mismunað eftir kynþætti og hugmyndafræði ráðamanna gert hærra undir höfði en hagsmunum fólksins. Í einu bréfi Vilmundar Jónssonar landlæknis til stjórnvalda ræddi hann beiðni Sesselju Sigmundsdóttir, forstöðukonu að Sólheimum í Grímsnesi, um að mega ráða til „fávitahælisins á Sólheimum“ þrjá útlendinga, „þar af að minnsta kosti 2 gyðinga“. Vilmundur viðurkenndi að erfitt hefði reynst að fá innlent starfsfólk að Sólheimum og taldi „út af fyrir sig réttlætanlegt að leita þess til útlanda“. Landlæknir minnti á og ítrekaði fyrri ummæli að „landsvistarleyfi til gyðinga og annarra, sem ef til vill eiga ekki borgararétt í neinu ríki, getur verið alvarlegt mál fyrir landið“. Erfitt gæti reynst að „losna við slíkt fólk aftur, hversu aðkallandi sem það væri“. Vilmundur taldi því réttast að marka almenna stefnu í garð útlendinga af þessum toga áður en þessari umsókn yrði svarað. Ráðuneytið neitaði því viðkomandi umsókn um „heimild til að ráða 2 Gyðinga í þjónustu fávitahælisins Sólheimar í Grímsnesi“. (Bls.150)

Gátu gert meira

Augljóst er af rannsóknum Snorra að íslensk stjórnvöld töldu sig ekki hafa mikið fram að færa til mannúðarmála og hundsuðu gjarnan alþjóðleg verkefni sem þau hefðu vel getað tekið þátt í ef vilji hefði verið fyrir hendi. Í það minnsta með táknrænum hætti.

Bókin afhjúpar hugsunarhátt og stefnu sem erfitt er að sætta sig við í dag. Vitaskuld verður að hafa í huga að framferði nasista versnaði stöðugt þar til áætlun um hinna endanlegu lausn var hrundið í framkvæmd 1942. Fram að því var erfitt að átta sig á hvað fyrir nasistum vakti þó öllum mætti vera ljóst að gyðingar áttu sér enga framtíð undir yfirráðum þeirra. Aðrar norðurlandaþjóðir voru einnig seinar að átta sig á þessu og eftir hernám Danmerkur og Noregs var ljóst að gyðingar áttu ekki skjól þar. Svíar og sérstaklega Íslendingar hefðu getað gert miklu meira. Í bókinni kemur fram að ríflega 40% gyðinga í Noregi létu lífið í Helförinni en um þúsund þeirra var þó bjargað yfir til Svíþjóðar. Þessa sögu þekkjum við ágætlega úr bók Leifs Möllers, Býr Íslendingur hér.

Snorri rekur rækilega afstöðu ráðamanna þessara tíma. Áður hefur verið vikið að hlut Vilmundar Jónssonar landlæknis sem virðist hafa verið hallur undir kenningar um mannkynsbætur. Margir eru tíndir til, meira að segja Nóbelsskáldið okkar, Halldór Kiljan Laxness, talaði af óvirðingu um fórnarlömb nasista og jafnaði gyðingaofsóknum við hundahatur. Ætli það verði ekki að falla undir heldur óvarlegt tal og varla til marks um afstöðu Halldórs. Stærstur var þó hlutur Hermanns Jónassonar, forsætis- og dómsmálaráðherra, en hann sá um að móta og reka allt það sem fallið gat undir útlendingaeftirlit á árunum fyrir seinni heimsstyrjöldina. Ekki verður séð annað af frásögnum Snorra en að í viðleitni sinni við að halda landinu „hreinu” hafi Hermann rekið mjög ósanngjarna stefnu, jafnvel í andstöðu við þau ófullkomnu lög sem þá gilda um útlendinga.

Snorri sest ekki í dómarasæti þó hann hlífi mönnum ekki. Hann rekur af mikilli samviskusemi einstök dæmi og setur þau í samhengi við tíðarandann á þeim tíma. Þetta er átakanleg saga og mikilvægt að hún skuli nú vera komin út í heildstæðri samantekt.

 

Erlendur landshornalýður?

Höfundur: Snorri G. Bergsson

375 bls.

Útgefandi: Almenna bókafélagið, 2017.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.