c

Pistlar:

22. janúar 2018 kl. 15:55

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Bílaiðnaðurinn á tímamótum

Auðvitað er klisja að segja að bílaiðnaðurinn sé á tímamótum. Þessi fyrirferðamesti neytendaiðnaður í heimi þarf stöðugt að endurskoða og endurmeta framleiðsluvörur sínar og markaðsstarf um leið og hann þarf að halda í við tækniþróun sem oft stjórnast af því sem stjórnvaldsákvarðanir krefjast. Undanfarna áratugi hefur bílaiðnaðurinn orðið að aðlaga sig stöðugt umsvifameiri og harðari mengunarkröfum sem að hluta til hafa virkað sem undanfari að orkuskiptum í bílgreininni. Gamla reglan um að ein líter eldsneytis þurfi til að knýja hver 100 kg. bílsins er löngu úrelt. Bílar hafa stöðugt orðið sparneytnari án þess að það hafi komið niður á afli þeirra. Öllum má þó vera augljóst að jarðefnaeldsneyti er á útleið og aðrir orkugjafar verða sífellt fyrirferðameiri. Í nýlegri umfjöllun Financial Times er fullyrt að bílgreinin hafi aldrei staði á jafn miklum tímamótum og núna og er það stutt mörgum rökum.

Hin hefðbundni bílaiðnaður hefur náð ótrúlega vel að halda stöðu sinni þrátt fyrir stöðugt nýjar áskoranir en nú má velta fyrir sér hvernig honum tekst að glíma við orkuskipti framtíðar og þá miklu breytingu sem mun felast í sjálfkeyrandi bílum sem verða hugsanlega ekki lengur í eigu notenda. Nokkrir nýir framleiðendur með Tesla í broddi fylkingar hafa sótt að hefðbundnum framleiðendum sem virðast þó hafa náð að halda stöðu sinni. Vissulega má undrast hve vel hefur tekist til við framleiðslu á Tesla-bílnum svona í fyrstu umferð en ekki verður séð að hefðbundnir framleiðendur hafi skaðast á því. Tesla hefur fremur komið sem viðbót enda að mestu að berjast á þröngum lúxusbílamarkaði.google-self-driving-car-repaint-1200x615

Nýjar áskoranir

Næsta árás inn í framleiðsluiðnaðinn gæti orðið erfiðari en þar verður tekist á um sjálfkeyrandi bíla og hver mun stýra framþróun þeirra. Það eru að minnsta kosti 10 ár síðan sé er þetta ritar sat í bíl sem gat lagt sjálfur í stæði og þótti það merkileg upplifun. Margir framleiðendur hafa nú mikla reynslu af slíkum búnaði sem byggist á þrívíddarskynjun og samsvarandi reiknigetu. Næsta bylgja sjálfkeyrandi bíla þarf hins vegar að styðjast við gríðarlegt gagnamagn úr umhverfinu og þar er ljóst að Google er kominn lengra á veg en aðrir. Félagið hefur unnið að kortlagningu heimsins og við það safnað gríðarlegum gögnum sem gætu veitt þeim forskot. Ljóst er að Google, Apple og fyrirtæki eins og Uber ætla sér stóra hluti þegar kemur að því að útvega sjálfkeyrandi bíla í framtíðinni en hér fylgir með ein mynd af slíkum Google bíl. En hvernig verður sú þróun?

Undanfarið höfum við séð mikla umræðu hér meðal höfuðborgarbúa um samgönguþróun framtíðarinnar. Ekki er ætlunin að blanda sér í það hér en auðvitað er það svo að sjálfkeyrandi bílar og breytt notkun bíla í framhaldinu getur haft mikil áhrif á þarfir í samgöngumálum. Staðreyndin er sú að flestir gera ráð fyrir að samfara sjálfvirknivæðingu bílaflotans muni eignarhald á bílum breytast enda sýna rannsóknir að einkabíllinn er aðeins notaður í um það bil 10% af tímanum. Hin 90% tímans er hann einhversstaðar að taka upp dýrmætt pláss. Út frá þessum breytingum á eignarhaldi hefur til dæmis Uber unnið en félagið hyggst útfæra leigubílaþjónustu sína í takt við nýjar þarfir. Eins og flestum er kunnugt þá byggðist framlag Uber fyrst og fremst á appi sem sér um að koma saman bílstjóra (sem rak eigin bíl) og farþega. Uber útvegaði hugbúnaðinn en aðrir sáum um þjónustuna. Uber sér hins vegar fyrir sér að geta átt bíla framtíðarinnar sem keyra án ökumanns en í samstarfi við bílaframleiðendur.

Google hefur gefið í skyn að þeir geti allt eins framleitt sjálfir bíla í framtíðinni. Eins og áður sagði þá getur gagnamagn Google orðið til þess að færa félaginu forskot en það hefur undanfarin áratug unnið markvisst að því að skrá götur og umhverfi, nánast allstaðar í heiminum.

Deilikerfi framtíðarinnar

Ein lykilþáttur í þeim samgöngubreytingum sem geta orðið í framtíðinni er að farþegar deila með sér bíl sem þeir eiga ekki. Sjá má fyrir sér að þeir kalli eftir bílnum í þar til gerðu appi og ákveða um leið hvernig þeir vilja hafa ferðina. Kjósi þeir að flýta sér þá borga þeir meira fyrir ferðina, ella geta þeir deilt bílnum með fleiri farþegum og sér þá einhverskonar gervigreindarforrit um að „besta” leiðina þannig að hún sé þeim öllum sem hagkvæmust.toyota

Eins og áður sagði þá virðist sem þróun bíla framtíðarinnar geti verið í höndum fleiri en núverandi framleiðenda. Sumir þeirra hafa brugðist við með því að efna til samstarfs og má sem dæmi taka að Toyota, næst stærsti bílaframleiðandi heims, vinnur að þróun sjálfakandi bíls í samvinnu við Amazon, Uber og Pizza Hut. Mynd af slíkum þróunarbíl fylgir hér með. Af þessu má sjá að það fer mikil orka og fjármagn í að takast á við áskoranir framtíðarinnar sem vonandi hafa jákvæð áhrif á umhverfi og mannlíf. Þegar þess er gætt að gríðarleg orkusóun er samfara samgöngum nútímans þá sést að mikil tækifæri eru til hagræðingar í öllu kerfinu. Hagræðingar sem vonandi koma umhverfinu vel.

Hve hratt gengur að innleiða sjálfakandi rafmagnsbíla skal ósagt látið. Gæta þarf að mörgu, svo sem ábyrgð og öryggi. Það er hafið yfir vafa að sjálfakandi bílar verða öruggari en þegar ökumaður stýrir. Í Bandaríkjunum létust 38 þúsund manns árið 2016 í umferðaslysum og 95% þeirra voru vegna mannlegra mistaka. Eigi að síður þarf að skilgreina nákvæmlega hver ber ábyrgð á sjálfakandi bíl í umferðinni. Slíkir hlutir gætu tafið fyrir innleiðingu sjálfakandi bíla sem munu líklega ekki koma eins skjótt og margir halda. En þeir munu eigi að síður taka yfir og auðvelda fólki að ferðast á milli staða.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.