c

Pistlar:

29. janúar 2018 kl. 14:01

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Don­ald Trump fer til Dav­os

Fyrir helgi hélt Don­ald Trump, forseti Bandaríkjanna, til Dav­os en síðustu tvo ára­tugi hef­ur fundarhaldara ekki tek­ist að lokka for­seta Banda­ríkj­anna á fund­inn. Bill Clinton er síðasti forsetinn til að heimsækja Davos en það var árið 2000. Sumum íslenskum fjölmiðlum fannst það forvitnilegast að einhverjir púuðu á Trump en margir leggja á sig talsvert erfiði við að koma mótmælum sínum að þegar Trump er annars vegar. Það breytir því ekki að til Davos koma gjarnan margir af rík­ustu mönnum heims og líklega er hægt að kalla samkomuna hátíð alþjóðavæðingarinnar. Trump hefur hins vegar ekki talað eins og mikill alþjóðavæðingarsinni. Hann segist kjósa hagsmuni Bandaríkjanna fyrst. Umdeilt vissulega en virðist þó hafa nokkur áhrif heima fyrir.

Sjálfsagt hefðu margir í Davos getað fagnað skattabreytingum Trumps en fremur lítið fer fyrir fréttum á Íslandi af áhrifum þeirra. Staðreyndin er hins vegar sú að það er uppgangur í Bandaríkjunum - eins og Trump sagði sigrihrósandi í Davos og það birtist með margvíslegum hætti. Full­trú­ar Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðsins voru staddir í Dav­os og tóku undir að skatta­lækk­an­ir í Banda­ríkj­un­um myndu ekki aðeins styrkja stöðuna þar held­ur einnig í Evr­ópu þótt það verði sannarlega ekki eins mikið.

Fyrirtæki í Bandaríkjunum hafa vegna skattalækkana Trump getað greitt starfsfólki sínu góða bónusa og hækkað laun - og snúið sér að því að flytja fjármagn inn í heimalandið, reisa nýjar verksmiðjur og ráða í ný störf. Verðmætasta fyrirtæki heims, Apple, hefur ákveðið að nýta sér skattahagræði og taka „heim” 250 milljarða Bandaríkjadala og greiða 38 milljarða dala í skatta af erlendum tekjum. Um leið hafa forráðamenn Apple tilkynnt að þeir hyggist byggja nýjar tæknistöðvar í Bandaríkjunum og ráða í 20 þúsund ný hátæknistörf auk margs annars. Fyrirtækið áætlar að áhrif nýrra umsvifa muni auka þjóðartekjur um 350 milljarða dollara á næstu 5 árum. Þá er vitnað í Apple eitt og sér. Skattabreytingarnar valda því síðan að fjármálafyrirtækin fá færri frádráttarliði og eru að skila lakari afkomu vegna þess. Afkoman á síðasta ársfjórðungi var þannig sú lakasta í langan tíma og Goldman Sachs bankinn sýndi rauðar tölur í fyrsta sinn síðan 2011. Sjálfsagt eru betri tímar framundan og Wall Street er ánægt með breytingarnar enda hlutabréfavísitalan nú í hæstu hæðum.davos

Samningamaðurinn

Margir segja að það sé erfitt að semja við Bandaríkjamann, hvort sem það er í stjórnmálum eða viðskiptum. Donald Trump hefur ekki sparað hrósið þegar hann talar um sjálfan sig sem samningamann. Og hann segist horfa fyrst og fremst til hagsmuna Bandaríkjanna. Hann hefur spilað út ýmsum spilum sem hafa truflað alþjóðasamfélagið. Á síðasta ári var Xi Jinping, forseti Kína, aðalmaðurinn í Davos þar sem hann talaði fyrir frjálsum viðskiptum. Var gerður góður rómur að máli hans og skipti engu þó hann tali í nafni Kommúnistaflokks Kína.

Hér fyrir stuttu var sagt frá för Macron Frakklandsforseta til Kína. Þar þótti Macron styrkja stöðu sína á alþjóðasviðinu en hann var þó fyrst og fremst að reyna að selja franskar vörur og gæta franskra hagsmuna. Trump tók margoft fram í kosn­inga­bar­áttu sinni að hann ætlaði sér að vera óút­reikn­an­leg­ur. Að hluta til var hann þar að árétta samningstækni sína, með því að vera óútreiknanlegur yrði hann erfiður samningamaður. Og með því að vera óútreiknalegur ætlaði hann sér ekki að gefa upp í öll­um til­vik­um hver yrðu viðbrögð Banda­ríkj­anna við til­tekn­um gjörðum annarra. Trump hefur alltaf litið á þetta aug­um viðskipta­jöf­urs­ins, sem tel­ur að keppi­naut­un­um sé ekki hollt að fá fyr­ir fram upp­lýs­ing­ar um all­ar hug­mynd­ir „viðsemj­and­ans“. Þetta á ekki alltaf rétt á sér. En mjög oft. Engin leið er að ráða í nákvæmlega hvernig Trump ætlar að stilla upp hlutunum og meira að segja Bretar - sem sögulega séð eru nánustu bandamenn Bandaríkjamanna - eru í óvissu um hvernig Trump mun taka þeim og umleitan þeirra um betri viðskiptakjör þegar Brexit er að verða að veruleika. Ólíkindatólið Trump er ábyggilega ein af ástæðum þess að Theresa May sefur ekki rótt þessa daganna.

Eru vinsældir Trumps að aukast?

Sagnfræðingurinn Niall Fergu­son benti ný­lega á að Trump vissi hvernig millistétt­in hugs­ar. Hann sé með próf upp á það en próf­skír­teinið felst í fjölda kjör­manna í for­seta­kjöri í nóv­em­ber 2016. Ákveðin kaldhæðni hjá Ferguson en hann hefur lag á að sjá hlutina í öðru ljósi en margir aðrir fréttaskýrendur.

Sama á við um höfund Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins. Um helgina rifjaði hann upp breytta stöðu Trump í skoðanakönnunum. Það er alkunna að Trump hef­ur staðið mjög illa í skoðana­könn­un­um fyrsta árið. Miklu verr en flest­ir fyr­ir­renn­ar­ar hans. Það gleymist reyndar oft í umræðunni að hinn eftirtektarverði Macron - sem margir telja að standi fyrir viðfelldnari pólitík en Trump - átti líka í miklum erfiðleikum. Báðir - Trump og Macron - hafa verið að ná vopnum sínum í könnunum undanfarið.
Í janú­ar hafa mæl­ing­arn­ar breyst tölu­vert, þótt óvar­legt sé að full­yrða að breyt­ing­in sé var­an­leg.

Höfundur Reykjavíkurbréfsins bendir á að síðustu kann­an­ir sýna að ánægja Banda­ríkja­manna með efna­hags­stjórn­un­ina hef­ur tekið stórt stökk í já­kvæða átt. Miklu stærri hluti kjós­enda tel­ur sig nú hafa það betra en áður. Lands­fram­leiðslan hef­ur auk­ist. At­vinnu­leysið hef­ur hríðfallið, laun hinna lægst launuðu hafa hækkað. Millistétt­in á von á veru­leg­um ávinn­ingi vegna skatta­breyt­inga - já, sama millistétt sem margir fréttaskýrendur telja að sé nánast að hvarfa í Bandaríkjunum. Banda­rísk fyr­ir­tæki boða hvert af öðru aukna starf­semi heima fyr­ir og lofa starfs­manna­fjölg­un og bón­us­um til al­mennra launa­manna eins og rakið var hér áðan með Apple.

Í Reykjavíkurbréfinu er eftirfarandi rifjað upp: „Þegar Banda­ríkja­menn voru spurðir um stöðu efna­hags­lífs­ins í síðasta mánuði Obama sögðu 33% hana góða en 65% slæma. Nú segja 49% hana góða en 49% slæma. Þegar spurt er hvort Trump hafi gert efna­hags­lífið betra segja 40% svo vera, en 22% segja hann hafa gert efna­hags­lífið verra og 34% segja hann hafa engu breytt um það.

Ánægj­an með störf Trumps hef­ur lengst af á síðasta ári verið dap­ur­leg, eða um eða und­ir 40% já­kvæð en 57 pró­sent eða meira nei­kvæð. Nú hef­ur þetta breyst þannig að 45% segj­ast ánægð með störf for­set­ans en 53 % óánægð.”

Sigurför?

Þetta eru mikilsverðar breytingar þó fráleitt sé að segja að Trump sé beinlínis á sigurbraut. Og það pirrar hann án efa að þegar kjósendur eru spurðir hvort þeir myndu end­urkjósa hann núna eða ein­hvern ann­an hefðu þeir tæki­færi til, ekk­ert breyst. Aðeins 35% segj­ast mundu end­urkjósa hann en 56% ekki mundu gera það. En þetta getur breyst.

Blaðið New York Post sagði för Trump til Davos hafa verið sigurför, einfaldlega vegna þess að menn deili ekki við árangur. Fréttamaður blaðsins á vettvangi sparaði ekki lofsyrðin. Sagði að Trump hefði komið vel fyrir og slegið vopnin úr höndum andstæðinga sinna. Setningar sem þessar hefðu komið mönnum í opna skjöldu: „Þó við setjum Bandaríkin í fyrsta sæti þá þýðir það ekki að við stöndum einir. Þegar Bandaríkjunum farnast vel þá farnast heiminum vel.” (e. „America first does not mean America alone. When the United States grows, so does the world.”)

Meira að segja Fareed Zakaria, blaðamaður hjá CNN og pistlaskrifari hjá Washington Post, fór lofsamlegum orðum um frammistöðu Trump í Davos. Sagði að hann hefði talað eins og forseta sæmdi þó hann segðist jafnframt gera ráð fyrir gamla Trump aftur eftir helgi.

Annars eru fréttaskýrendur sammála um að Trump hafi sýnt aukið sjálfstraust í kjölfar þess að hægt sé nú að sýna fram á árangur í efnahagsmálum. En sjálfsagt breytist þetta fljótt, næst þegar hann kemst í Tweetið!

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.