c

Pistlar:

12. mars 2018 kl. 21:48

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Norski olíusjóðurinn - á í 9146 félögum

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er stefnt að stofnun stöðugleikasjóðs sem er eitt afbrigði af þjóðarsjóði (e. Sovereign wealth fund). Slíkur sjóður verður stofnaður utan um arð af auðlindum landsins og byrjað á orkuauðlindinni. Hlutverk sjóðsins verður að byggja upp viðnám til að mæta fjárhagslegum áföllum. Ríki heims hafa sett á laggirnar slíka sjóði í margvíslegum tilgangi. Fjárfestingastefnan tekur yfirleitt mið af tilgangi sjóðsins.

Almennt er litið svo á að þjóðarsjóðir geti gegnt mikilvægu hlutverki við hagstjórn. Slíkir sjóðir geta, ef vel tekst til, haft áhrif á opinber fjármál, peningastefnu og gengi gjaldmiðils. Þannig má segja að ef rétt er á spilum haldið getur slíkur sjóður og stýring hans haft jákvæð áhrif á hagkerfi ríkja og aukið stöðugleika. Af því leiðir að þjóðarsjóðir geta bætt samkeppnisstöðu og aukið framleiðni og verðmætasköpun samfélaginu til heilla. Höfuðmáli skiptir að stjórnarhættir sjóðsins styðji ekki við freistnivanda sem óhjákvæmilega getur verið til staðar, til dæmis í opinberum fjármálum eins og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, benti á í grein í Fréttablaðinu fyrir skömmu.olia22

Stærsti sjóður heims á 20 árum

Sigurður leitaði sem eðlilegt er fyrirmyndar í norska olíusjóðnum en hann er stærsti þjóðarsjóður heims. Sjóðurinn er í senn stöðugleikasjóður og söfnunarsjóður. Hlutverk hans er að einangra olíuauð Norðmanna frá hagkerfinu til þess að koma í veg fyrir „hollensku veikina,“ - að ráðstöfun olíuauðsins ryðji atvinnugreinum í erlendri samkeppni úr vegi, ekki síst með því að gengi norsku krónunnar styrkist um of og veiki þannig samkeppnisstöðu landsins. Hlutverkið er einnig að veita kynslóðum framtíðarinnar hlutdeild í olíuauðnum – afrakstri óendurnýjanlegrar auðlindar.

Fjárfest í 9.146 hlutafélögum

Norski sjóðurinn á eignir yfir eina trilljón dollara en hann hefur fjórfaldast að stærð á síðustu 10 árum. Sjóðurinn á 1,4% allra skráðra hlutabréfa í heiminum en hann hefur fjárfest í hvorki fleiri né færri en 9.146 hlutafélögum. Hlutabréf sjóðsins hækkuð um 20% á síðasta ári, meðal annars í kjölfar hækkunar á tæknifyrirtækjum eins og Apple og Microsoft. Síðasta ár var á margan hátt einstakt í sögu sjóðsins en hann hagnaðist þá um 131 milljarða Bandaríkjadala. Það er besta afkoma sjóðsins í ríflega 20 ára sögu hans. Eins og áður sagði þá var þetta mjög gott ár fyrir hlutabréfaeign sjóðsins. Skuldabréf hans skiluðu lakari afkomu en þau hækkuðu aðeins um 3% og fasteignir sjóðsins hækkuðu um 8%.

Mest hækkuðu hlutabréf Apple eða um 46%. Sjóðurinn á 0,9% hlutabréfa Apple en markaðsvirði hlutarins er nú um 8 milljarðar dala. Einnig hækkuðu bréf í Tencent, kínversku tæknifyrirtæki og Microsoft. Verra gekk með bréf í GE, Exxon Mobil og sérstaklega Teva Pharmaceutical Industries, móðurfélagi Actavis sem er að loka allri starfsemi sinni í Hafnarfirði um þessar mundir. Þess má geta að sjóðurinn reynir að fjárfesta sem minnst í olíuiðnaði og er það hluti af áhættustýringu hans.

Fjárfestir eingöngu í eignum utan Noregs

Fyrstu fjármunir runnu inn í sjóð­ inn árið 1996. Sjóðurinn fjárfestir eingöngu í skráðum hlutabréfum og skuldabréfum utan Noregs auk þess að fjárfesta í fasteignum víða um heim. Um helmingur fjármuna sjóðsins er nú tilkominn vegna ávöxtunar, nokkuð meira en andvirði olíuvinnslu sem nemur um 40% af sjóðnum. Þetta sýnir mikilvægi þess að safna fé og ávaxta það svo slíkur sjóður geti verið það afl sem að var stefnt. Árleg raunávöxtun sjóðsins frá ársbyrjun 1998 til september 2017 nemur 4,1%. Þessi raunávöxtun kemur til af fjárfestingum í skráðum verðbréfum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Áhugavert er að bera þetta saman við ávöxtunarmarkmið íslenskra lífeyrissjóða sem er 3,5% raunávöxtun mælt í íslenskum krónum.

Að hámarki má nota 3% af höfuðstól sjóðsins árlega til ríkisrekstrar og með þeim hætti fjárfestir sjóðurinn í uppbyggingu innviða í Noregi. Í norsku fjárlögunum fyrir 2018 var gert ráð fyrir að nýta 2,9% af sjóðnum en sú fjárhæð samsvarar um 18% af útgjöldum norska ríkisins í ár. Mörgum kann að virðast þetta hógvær notkun á fjármunum sjóðsins en margir hafa orðið til að gagnrýna að norska ríkið verði stöðugt háðara framlögum úr honum. Þeir hinir sömu segja að sjóðurinn sé illa varinn fyrir markaðshruni með sístækkandi stöðu í hlutabréfum heimsins. Staðreyndin er sú að erfiðara og erfiðara er að finna bréf sem geta uppfyllt kröfu sjóðsins um áhættulitla ávöxtun og staðist þau siðferðilegu viðmið sem honum eru sett.

Dregið úr sveiflum

Á Íslandi er helstu náttúruauðlindum stýrt á sjálfbæran hátt og eru þær því endurnýjanlegar samanber sjávarútveg, orkuauðlindir og tengdan iðnað og aðdráttarafl íslenskrar náttúru fyrir erlenda ferðamenn. Í áðurnefndri grein bendir Sigurður á að hér á landi er einnig eitt öflugasta lífeyriskerfi í heimi sem er vel fjármagnað til framtíðar litið. „Með hliðsjón af þessu og skilgreiningunni hér að ofan, sem tekin er úr skýrslu AGS, kæmi því til greina að íslenskur þjóðarsjóður væri stöðugleikasjóður, þróunarsjóður sem fjárfesti í innviðum landsins, varasjóður sem fjárfesti hluta gjaldeyrisvaraforðans eða blanda af þessu þrennu,” segir Sigurður.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.