c

Pistlar:

23. apríl 2018 kl. 21:58

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Borgaralaun á útleið?

Finnsk stjórnvöld hafa ákveðið að hætta tilraunum með borgaralaun í landinu frá og með næsta ári. Í staðinn verður nýtt velferðarlíkan þróað, sem tekur bæði meira mið af þörfum þeirra sem njóta úrræðanna og einnig greiðslugetu skattborgaranna. Ekki er langt síðan Svisslendingar höfnuðu slíkum hugmyndum og svo hafa verkalýðsfélög víða lagst gegn hugmyndum um borgaralaun. Það voru Píratar sem helst börðust fyrir upptöku borgaralauna (skilyrðislausrar grunnframfærslu) hér á landi en hér í pistli fyrir nokkrum misserum voru þau gerð að umræðuefni.finnl

Viðskipablaðið sagði frá þessum endalokum finnsku tilraunarinnar fyrir stuttu en svo virðist sem þetta hafi ekki vakið mikla athygli hér á landi. Hugsanlega vegna þess að fáir eða engir taka þessa hugmynd alvarlega lengur en rétt er að geta þess að þingmenn Pírata endurflytja tillögu sína á hverju þingi.

Breytileg rök

Það er reyndar athyglisvert að rök fyrir borgaralaunum hafa verið margvísleg í gegnum tíðina. Í fyrstu voru þau kynnt sem úrræði til að einfalda skatta- og bótakerfi. Fyrir því mátti færa ýmis rök enda jaðarskattlagning hverskonar farin að grafa undan tiltrú fólks á kerfinu. Síðar var farið að kynna borgaralaun sem úrræði til þess að takast á við fjórðu iðnbyltinguna. Í kjölfar hennar myndu störf úreldast sem aldrei fyrr og ríkið yrði að tryggja atvinnuleysingjum framtíðarinnar einhverskonar lágamarksframfærslu. Þetta er ekki björt framtíðarsýn og ekki með öllu ljóst af hverju fjórða iðnbyltingin ætti að hafa svona miklu örlagaríkari afleiðingar en sú fyrsta. Nú heyrast þau rök að borgaralaun eigi að tryggja fólki framfærslu til þess að það geti fundið upp sniðuga hluti, nokkurskonar listamannalaun uppfinningamanna. Nú má sjálfsagt velta fyrir sér hvort fólk sem sér það sem úrræði að þiggja borgaralaun - sem eðli málsins samkvæmt geta aldrei orðið há - sé líklegt til að vera í fararbroddi í nýsköpun og þróun.

Þess má reyndar geta að í upphafi studdu ýmsir af framsæknustu stjórnendur og fyrirtæki í Sílikondalnum í Kaliforníu slíkar hugmyndir.

Finnska tilraunin

En víkjum aftur að finnsku tilrauninni. Í byrjun síðasta árs völdu finnsk stjórnvöld tvö þúsund Finna á atvinnuleysisbótum af handahófi til að taka í tilraunaverkefni. Hver sá er tók þátt í tilrauninni fékk um 560 evrur í borgaralaun eða um 60 þúsund krónur. Framlagið var óháð því hvort viðkomandi vann eða ekki eða hafði aðrar tekjur. Þátttakendur voru á aldrinum 25 til 58 ára. Ætlunin var að draga ekki úr hvata þiggjenda borgaralaunanna til að vinna eins og gerist í venjulegu bótakerfi þar sem skerðingar koma samfara auknum tekjum. Verkefnið var unnið af Kela, sem er tryggingastofnun Finnlands. Þess má geta að bótaupphæðin varð nokkru lægri en gert var ráð fyrir í upphafi og hefur það án efa haft einhver áhrif.

Þátttakendur voru valdir úr hópi langtímaatvinnulausra en verkefnið var hugsað til tveggja ára. Var ætlunin að víkka það síðar út til starfandi Finna, svo hægt væri að fá betri samanburð á áhrifum þess. En nú hefur semsagt verið hætt við það en hafa má í huga að atvinnuástand var mjög erfitt í Finnlandi þegar ákveðið var að ráðast í tilraunina eins og kom fram hér í pistli á þeim tíma.

Skerða atvinnuleysisbætur ef ekki er unnið

Þess í stað hafa finnsk stjórnvöld samþykkt lög sem skerða atvinnuleysisbætur þeirra sem ekki hafa fundið sér að minnsta kosti hlutastarf innan þriggja mánaða frá því að þeir missa starf. Þar með hafa finnsk stjórnvöld ákveðið að færa kerfið enn lengra frá borgaralaunum. Finnska þingið samþykkti í lok síðasta árs að atvinnulausir þyrftu að skrá sig í þjálfunarverkefni innan þriggja mánaða eða vinna í það minnsta 18 klukkustundir á tímabilinu. Ef ekki yrði við því gætu þeir misst hluta af bótum sínum.

Í upphafi studdu 70% Finna tilraunina en nýjar kannanir sýna að stuðningurinn hefur minnkað um helming. Finnsk stjórnvöld hafa þó gefið í skyn að stefnt sé að öðru tilraunaverkefni sem tæki við eftir að borgaralaunin leggjast endanlega af í lok næsta árs. Er þá horft til kerfis sem þekkist í Bretlandi þar sem allar helstu bætur og skattaafslættir fólks yrðu teknar saman í einn reikning en það er sjálfsagt tilraun til að einfalda bótakerfið eins og vikið var að hér að framan.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.