c

Pistlar:

26. apríl 2018 kl. 18:02

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Asíu-tígurinn við Bengal-flóa

Það er alltaf merkilegt að sjá þegar fátæk ríki ná sér á strik. Það á sannarlega við um Asíu-tígurinn Bangladess sem fagnar 50 ára sjálfstæði sínu eftir þrjú ár, nánartiltekið árið 2021. Fyrir 20 árum var landið meðal þeirra fátækustu í heimi en á til þess að gera skömmum tíma hefur efnahagur Bangladess tekið kipp og lífslíkur og lífsskilyrði batnað mikið eins og fjallað var um í pistli í september síðastliðnum. Hver er ástæðan fyrir því að þessu ríki við Bengal-flóa vegnar svo vel? Eins og vanalega má tína til nokkrar ástæður. Ýmislegt í menningu og kultúr landsins hefur lagst með efnahagslegum framförum en það hefur leitt til þess að landið hefur getað nýtt sína helstu auðlind - nefnilega ódýrt vinnuafl. Engum blöðum er um það að fletta að þessi ríflega 160 milljón manna þjóð mun ekki komast til álna nema með því að nýta vinnu landsmanna. Náttúruauðlindir eru litlar sem engar.bangla

Sterk staða kvenna

En það eitt og sér skýrir ekki málið. Kaushik Basu, hagfræðingur hjá Alþjóðabankanum, ritaði nýlega grein um uppganginn sem World Economic Forum hugveitan hefur tekið að sér að dreifa. Er meðal annars stuðst við hana hér. Ein áhugaverðasta skýring Basu er að Bangladess hefur bætt mjög stöðu kvenna og reyndar svo að þær hafa orðið mikið um þróun mála að gera. Það ásamt hagstæðri vinnu- og viðskiptalöggjöf og ekki þó síður sjálfstæði og lýðræðisþróun hefur umbreytt stjórnun landsins og stuðlað að efnahagslegri framþróun. Síðustu 10 ár eru til dæmis í hróplegri andstöðu við þróun mála í hinu náttúruauðuga landi Venesúela eins og fjallað hefur verið um hér. Á þeim tíma hefur efnahagur landsins vaxið sem svarar 2,5 prósentum hraðar en í gamla herraríkinu Pakistan. Og þar sem íbúum Bangladess fjölgar hægar en íbúum Pakistan hefur vöxtur þjóðartekna á mann verið umtalsvert meiri í Bangladess.

Umburðalyndi og lýðræði

Síðan 1990 hefur starfað lýðræðisleg stjórn í Bangladess en þjóðin hefur frá gamalli tíð verið þokkalega umburðalynd í hugsun. Allt síðan lýðræði komst á hafa tvær konur skipst á að halda um valdataumanna. Annars vegar er það Sheikh Hasina sem er núverandi forsætisráðherra og styðst við Awami bandalagið. Hún hóf sitt þriðja kjörtímabil í janúar 2014. Hins vegar er það Khaleda Zia hjá Þjóðarflokki Bangladess (Bangladesh Nationalist Party). Faðir Hasinu og eiginmaður Zia gegndu mikilvægu hlutverki í sjálfstæðisbaráttunni.

Stjórnvöld í Bangladess hafa lagt mikla áherslu á að mennta stúlkur og efla stöðu þeirra sem víðast í þjóðfélaginu. Um leið hefur heilsufar batnað og er nú svo komið að lífslíkur eru 72 ár í Bangladess en ekki nema 68 ár á Indlandi og 66 ár í Pakistan.

Efla fyrirtækjarekstur

Bangladess er talið vera áttunda fjölmennasta ríki heims. Frá því sjálfstæðið fékkst hefur íbúum því fjölgað um hvorki meira né minna en 100 milljónir sem samsvarar nánast sameiginlegum mannfjölda Þýskalands og Hollands! Bangladess er 140 þúsund ferkílómetrar og því gríðarlega þéttbýlt. Tæplega 40% landsmanna búa í borgum. Mikið hefur verið gert til að auðvelda viðskipti og efla fyrirtækjarekstur, sérstaklega smærri fyrirtækja. Samkvæmt tölum Alþjóðabankans eru tæplega 35 prósent íbúa Bangladess með rafræna reikninga sem þeir nota. Þetta hlutfall er 27,8 prósent að jafnaði í Suðaustur-Asíu. Aðeins 10 prósent rafrænna reikninga í Bangladess eru ónotaðir (lagt inn og tekið út af reikningum reglulega) á meðan hlutfall ónotaðra reikninga er 48 prósent í indverskum bönkum.

Bangladess rekur gríðarlega umfangsmikinn fataiðnað og saumar nánast fötin sem við klæðumst. Margt í þeim rekstri hefur verið umdeilt, sérstaklega aðbúnaður verkafólks. Það breytir því ekki að vel hefur tekist til að jafnaði og fyrirtækin hafa verið fær um að greiða stöðugt hærri laun og veita fleiri vinnu. Vinnu- og fyrirtækjalöggjöfin er mun meðfærilegri en á Indlandi sem gerir fyrirtækjum auðveldara að fjárfesta í Bangladess. Þess njóta nú landsmenn í fjölgun betri launaðra starfa.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.