c

Pistlar:

30. apríl 2018 kl. 18:27

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sjávarútvegurinn er þungamiðja íslensks þekkingariðnaðar

Það vakti kannski ekki athygli margra, ja, nema kannski fyrir utan þá sem starfa í viðskiptalífinu, þegar greint var frá því í síðustu viku að Vís­ir hf. hefði hlotið Íslensku þekk­ing­ar­verðlaun­in í ár. Ásamt Vís­i voru Ari­on banki, HB Grandi og Skag­inn 3x til­nefnd til þessara þekk­ing­ar­verðlauna sem Fé­lag viðskipta­fræðinga og hag­fræðinga sér um að deila út. Öll þessi fyrirtæki nema Arion banki er með skýr tengsl við sjávarútveginn. Er til betri staðfesting á því að íslenskur sjávarútvegur er þungamiðja íslensks þekkingariðnaðar? Þetta er í 18. sinn sem fé­lagið stend­ur fyr­ir þessum verðlaunum en sá er þetta skrifar starfaði nokkur ár í verðlaunanefndinni. Það var markmið hjá mér að koma sjávarútveginum að við valið og ánægjulegt að sjá að hann er nú talin fullgildur meðlimur.visir

Hvað er verið að verðlauna? Við val á þekk­ing­ar­fyr­ir­tæki árs­ins er horft til þeirra fyr­ir­tækja sem eru leiðandi í sta­f­ræn­um lausn­um og hafa með ný­sköp­un í tækni bætt rekstr­ar­um­hverfi fyr­ir­tæk­is­ins. Leitað var eft­ir fyr­ir­tækj­um sem hafa með auk­inni sjálf­virkni bætt þjón­ustu, af­köst, nýt­ingu og/​eða fram­leiðni. Einnig var mik­il­vægt að fyr­ir­tæk­in störfuðu í sátt við sam­fé­lagið og væru með ríka um­hverfis­vit­und. Það er því margt sem þarf að uppfylla og árangur Vísis þess ánægjulegri.

Aukið fram­leiðni og skil­virkni

Í rök­stuðningi dóm­nefnd­ar seg­ir meðal ann­ars að Vís­ir hafi náð eft­ir­tekt­ar­verðum ár­angri í rekstri sín­um og aukið fram­leiðni og skil­virkni með inn­leiðingu og þróun sta­f­rænna lausna. Vís­ir hafi með inn­leiðingu sta­f­rænna lausna náð hagræðingu í rekstri með virkri stýr­ingu flot­ans og með nýt­ing­ar­auka og hærra hlut­falli í bet­ur borg­andi afurðir. Tækn­in opni þann mögu­leika að Vís­ir klári fram­leiðslu­ferlið beint í neyt­endapakkn­ing­ar sem spara milli­flutn­inga og millium­búðir og það sé stórt skref í átt að minnk­un kol­efn­is­spors sjáv­ar­út­vegs­ins. Ekki ónýt röksemd þarna.

Í stjórn­arsátt­mála núverandi rík­is­stjórn­ar er lögð áhersla á ný­sköp­un og rann­sókn­ir. „Ný­sköp­un og hvers kon­ar hag­nýt­ing hug­vits er mik­il­væg for­senda fjöl­breytts at­vinnu­lífs, sterkr­ar sam­keppn­is­stöðu, hag­vaxt­ar og vel­ferðar þjóðar, ekki síst í ljósi þeirra þjóðfé­lags­breyt­inga sem vænta má í at­vinnu- og mennta­mál­um vegna örra tækni­breyt­inga.“ Fjár­fest­ing­ar í ný­sköp­un í sjáv­ar­út­vegi og haf­tengd­um grein­um sem oft kall­ast sjáv­ar­klasi geta aukið verðmæta­sköp­un mikið sé horft til framtíðar. Þarna er margt undir: Neta­gerð, veiðitækni og veiðarfæra­gerð eru án efa hug­vit og hönn­un. Þurrk­un þorsk­hausa sömuleiðis en hún byggir á eðlis-, efna­fræði og verk­fræði. Á þetta benti Albert Þór Jónsson hagfræðingur í grein í Morgunblaðinu í síðustu viku en ástæða er til að vekja athygli á henni.

Framúrskarandi árangur sjávarútvegsfyrirtækja

Íslensk­ur sjáv­ar­út­veg­ur og haf­tengd starf­semi hafa náð framúrsk­ar­andi ár­angri og vaxið mikið á und­an­förn­um árum. Marg­ar af helstu nátt­úru­auðlind­um og framtíðar­verðmæt­um Íslands sem tengj­ast sjáv­ar­út­vegi og end­ur­nýj­an­legri orku eru á lands­byggðinni. Albert telur að nauðsynlegt sé að leggja meiri áherslu á náms­braut­ir sem tengj­ast sjáv­ar­út­vegi og haf­tengdri starf­semi og verður tekið undir það hér. Nefnir hann til greinar eins og fiski­hag­fræði, mat­væla­verk­fræði, járn­smíði, út­gerðar­tækni, fisk­tækni og viðskipta­fræði sem auka áhuga á sjáv­ar­út­vegi og haf­tengdri starf­semi horft til framtíðar. „Með meiri þekk­ingu er hægt að auka verðmæta­sköp­un veru­lega í haf­tengdri ný­sköp­un,” segir Albert.

Vaxtar­fyr­ir­tæk­in eru á lands­byggðinni

Albert bendir ennfremur á að mörg fremstu fyr­ir­tæki lands­ins eru á lands­byggðinni, til að mynda: Sam­herji, HB Grandi, og Kaup­fé­lag Skag­f­irðinga. Sam­herji er staðsett­ur á Ak­ur­eyri og Skag­inn sem er af­sprengi fram­fara í há­tækni tengdri fisk­vinnslu er staðsett­ur á Akra­nesi. Íslensk­ur sjáv­ar­út­veg­ur og end­ur­nýj­an­leg orka eru tvær af verðmæt­ustu auðlind­um Íslands og gera sér­stöðu lands­ins ein­staka segir Albert. Framúrsk­ar­andi fyr­ir­tæki sem tengj­ast haf­tengdri starf­semi eru meðal annars Hampiðjan, Skag­inn, Lýsi og Keras­is. Hampiðjan hef­ur verið í fremstu röð í veiðarfæra­gerð á heimsvísu og náð framúrsk­ar­andi ár­angri á alþjóðleg­um mörkuðum.

Albert segir að það sé mik­il­vægt að stjórn­völd móti framtíðar­sýn fyr­ir lands­byggðina í þeim mála­flokk­um þar sem verðmæti auðlinda lands­ins á eft­ir að aukast veru­lega. „Virðing og um­gengni við ís­lenska fjár­sjóðinn þarf að aukast og öll umræða að verða fag­legri. Stefnu­mörk­un og framtíðar­sýn þurfa að taka mið af lang­tíma­sjón­ar­miðum. Fram­sæk­in stefnu­mót­un í sam­göngu­mál­um og mennta­mál­um er eitt af mik­il­væg­ustu verk­efn­um á næstu árum en þannig verður lands­byggðin álit­leg­ur kost­ur fyr­ir ein­stak­linga og fyr­ir­tæki þar sem blóm­legt at­vinnu­líf get­ur þrif­ist,” segir Albert.

Mikilvægt er að horfa til þess að mik­il verðmæti liggja í innviðum í höfn­um um allt land sem mætti nýta bet­ur og stuðla að auk­inni ný­sköp­un með stofn­un nýrra fyr­ir­tækja sem tengj­ast haf­tengdri fram­leiðslu.

Framúrskarandi fyrirtæki

Albert beinir sjónum sínum að landsbyggðinni og bendir á að Sam­herji á Ak­ur­eyri og Dal­vík sé dæmi um framúrsk­ar­andi fyr­ir­tæki á heims­mæli­kv­arða sem skap­ar mörg störf og séu kjöl­festa byggðar í Eyjaf­irði. Kaup­fé­lag Skag­f­irðinga er með sama hætti horn­steinn í Skagaf­irði og hef­ur leitt ný­sköp­un í mjólk­uriðnaði og afurðum unn­um úr fiski með betri nýt­ingu. Genís á Sigluf­irði er sömuleiðis áhugavert fyr­ir­tæki sem hef­ur þróað heilsu­vör­ur úr rækju­skel. „Öll fram­an­greind fyr­ir­tæki sem eru á lands­byggðinni eru í eigu aðila sem eru snarp­ir, með skýra framtíðar­sýn og happa­feng­ur fyr­ir viðkom­andi byggðarlög,” segir Albert.

Hægt er að taka undir með Alberti að mestu verðmæti framtíðar í sjáv­ar­út­vegi fel­ast í ný­sköp­un og að koma ferskri vöru á markað en þannig fæst há­marks­verð á hverj­um tíma. Ótvírætt er að stjórnendur okkar stærstu fyrirtækja, svo sem Þor­steinn Már Bald­vins­son, for­stjóri Sam­herja, hafa leitt fyrirtæki sín í fremstu röð sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja á heimsvísu með skýrri framtíðar­sýn, öfl­ug­um rekstri og fram­sýni.

„Mik­il tæki­færi eru víða á lands­byggðinni í haf­tengdri ný­sköp­un. Frum­kvöðlar og fram­taks­sam­ir ein­stak­ling­ar sem vilja láta að sér kveða hafa tæki­færi til að nýta þau fjöl­mörgu at­vinnu­tæki­færi sem eru nú um allt land. Íslensk­ar nátt­úru­auðlind­ir eru ein­stak­ar enda flest­ar þeirra á lands­byggðinni. Lands­byggðin er því hinn óslípaði dem­ant­ur Íslands í at­vinnu­tæki­fær­um sem tengj­ast haf­tengdri ný­sköp­un horft til langs tíma,” segir Albert.

Það er ekki bara á landsbyggðinni sem við njótum krafts og þekkingar í sjávarútvegi. Við höfum mörg slík fyrirtæki hér á höfuðborgarsvæðinu með Marel í broddi fylkingar. Þegar þetta er allt haft í huga sjáum við að mikilvægt er að horfa á sjávarútveginn sem þekkingariðnað, miklu frekar en auðlindagrein, eins og því miður allt of margir freistast til í þágu óljósra pólitískra markmiða.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.