c

Pistlar:

12. maí 2018 kl. 11:48

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hvernig Reykjavík?

Það stendur þannig á hjá mér að skólamál og almenn velferðarmál snerta mig ekki svo mikið í þeirri kosningabaráttu sem nú fer fram. Auðvitað getur það skjótt breyst og eins og aðrir landsmenn vil maður einfaldlega að þau mál séu í lagi. En umhverfið skiptir mig miklu og ég hef áhuga á skipulagsmálum. Ekki það að ég hafi svo mikið vit á þeim en ég hef þó stundum reynt að geta þeirra hér í pistlum. Og í tengslum við ferðalög hef ég stundum reynt að ræða borgarskipuleg í stærra samhengi eins og birtist hér. Má vera að einhverjir hafi tekið eftir því að ég styð smærri lausnir! Skipulagsmál eru mikið til umræðu nú í aðdraganda kosninga, meðal annars vegna þróunar byggðar og samgangna. Um leið hefur þétting byggðar og húsnæðismál orðið að miklu hitamáli.

Ég er ekki ósáttur við að þétta byggð í Reykjavík og ég er heldur ekki tilbúin að segja að ég sé á móti borgarlínu. En ég leyfi mér að spyrja spurninga í því sambandi. Eins og það hvort víst sé að þeir tugir ef ekki hundruðir milljarða sem fara munu í borgarlínu séu rétta lausnin eins og staðan er núna? Það má gera gríðarlega mikið fyrir þá peninga sem ætlunin er að setja í borgarlínuna, til dæmis efla strætó verulega, með til dæmis aukinni tíðni og þéttara neti. Við sáum fyrir stuttu kynningu á litlum sjálfakandi strætisvögnum og var ekki hægt að skilja þá umfjöllun öðru vísi en að þeir geti orðið tiltækir sem lausn innan skamms. Skiptir það ekki máli í heildarsamhenginu?skeifa

Orð og efndir í Skeifunni

Ég fer mikið inn í Skeifuna til að sækja þjónustu. Hún er í göngufjarlægð. Meðfylgjandi mynd tók ég fyrir skömmu af nýju húsi sem þar er að rísa. Eða réttara sagt vegg. Ég veit ekki hvernig þessi veggur á eftir að þróast en hann á að koma í staðinn fyrir stórar verslunarskemmur sem þar brunnu fyrir stuttu. Í millitíðinni hefur mikið verið talað um að breyta Skeifunni og draga inn íbúðabyggð. Gott ef það tengist ekki borgarlínunni. Það má margt fyrir Skeifuna gera en ég veit ekki hvort hún verður nokkurn tímann aðlaðandi sem íbúðabyggð. Allavega ekki með þeirri byggingu sem þar er núna að rísa.

Fyrir stuttu fjallaði ég um aðalskipulag Reykjavíkur og mér finnst vert að tengja það þróun Skeifunnar - sem hefur ekki verið nein síðan aðalskipulagið var samþykkt. „Borg fyrir fólk" var leiðarstefið í aðalskipulaginu sem og tekur stefnumótunin mið af því. Í aðalskipulaginu er lögð sérstök áhersla á hverfin og einstaka borgarhluta. Markmiðið er að hverfi borgarinnar verði sjálfbærari, mannvænni og fjölbreyttari þar sem allir félagshópar fá tækifæri til búsetu. Hvert hverfi hafi sinn kjarna svo dagleg verslun og þjónusta verði í sem mestri nálægð við íbúa. Þetta gæti vel átt við um Skeifuna en það sem skortir er að það gerist aldrei neitt. Síðan aðalskipulagið var samþykkt fyrir svo sem einu kjörtímabili hefur ekkert breyst í Skeifunni, utan þess að eitt hús brann og veggur er að rísa í staðinn.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.