c

Pistlar:

15. maí 2018 kl. 21:35

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Heimildarmynd um eldisfisk og tilfinningar

Óhætt er að fullyrða að heimildarmyndir hverskonar eiga talsvert upp á pallborði um þessar mundir. Hin myndræna framsetning þeirra tekur fram hinu skriflega orði, hvað þá þurrum pistlum eins og þessum þar sem kallað verður eftir staðreyndum málsins! Heimildarmyndin sem hér er til umræðu, Undir yfirborðinu, var sýnd í Ríkissjónvarpinu á sunnudagskvöldið og fjallaði um fiskeldisáform á Íslandi í ljósi reynslu annarra. Myndin veltir við mörgum steinum en efasemdir hafa birst um heilindi hennar en myndinni er augljóslega ætlað að vekja upp mjög neikvæðar tilfinningar gagnvart áformum um fiskeldi hér við land.eldi

Við fyrstu sýn gæti manni virst að það séu einkum þrjú atriði sem þarf að skoða þegar eldi laxfiska hér við land er stundað í opnum sjókvíum:

  • Hefur þetta áhrif á erfðablöndun laxfiska hér á landi og er einhver hætta því samfara.
  • Í öðru lagi hljóta menn að velta fyrir sér hvaða sjúkdómahætta er samfara ræktun laxfiska við strendur landsins.
  • Í þriðja lagi hljótum við að spyrja hvaða mengun er þessu samfara. Matvælaframleiðsla af þessu tagi er meira í ætt við iðnað og því ber að fara varlega.

Allir þessi þættir voru ávarpaðir með einum eða öðrum hætti í myndinni en þó án þess að gerð sé tilraun til að leiða fram andstæð rök eða draga fram vísindalegar rannsóknir. Myndin er gerð með stuðningi hagsmunaaðila sem selja veiðileyfi í veiðiár Íslands. Að því leyti verður að taka hlutlægni hennar með varúð. Viðbrögð fjölmiðla vekja vonbrigði. Þeim dettur helst í hug að spyrja hagsmunagæsluaðila fiskeldisins og láta þannig boltann ganga fram og til baka án þess að almenningur fái heildstæða umfjöllun um málið.

Fræðimenn ekki sammála

Daginn áður en heimildarmyndin var sýnd birtist í Morgunblaðinu grein eftir tvo norska prófessora, þá Erik Slinde og Harald Kyvi. Skemmst er frá því að segja að prófessorarnir fullyrða í grein sinni að þó að vísindamenn hafi kortlagt erfðamengi laxins og birt niðurstöðuna í hinu virta vísindatímariti Nature þá hafi þeir ekki fundið nein „eldislaxagen“. Ólafur Ingi Sigurgeirsson, lektor við fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum, þekkir þessi mál vel og hefur meðal annars fjallað um það í fræðigreinum og gefið sig nokkuð í umræðuna á Facebook. Óhætt er að segja að hann geri lítið úr hættu á erfðablöndun. Hægt er að nefna til nokkra fleiri sérfræðinga í fiskeldismálum sem ekki hefur verið rætt við. Persónulega hefði mér þótt fróðlegt að heyra í Guðna Guðbergssyni líffræðingi sem manna mest hefur rannsakað íslenskar veiðiár.

Um líkt leyti og myndin kom út birtist viðtal við Albert K. Imsland prófessor í fiskeldisfræðum við háskólann í Bergen og rannsóknastjóri Akvaplan-Niva í Noregi. Albert sagði að hinn mikli ótti við erfðablöndun milli eldislaxa og villtra laxa hérlendis eigi sér varla stoð í raunveruleikanum. „Hættan hér á Íslandi er mjög lítil sökum þess hvernig kerfið hefur verið sett upp frá byrjun. Þá er ég að tala um að eldi á laxi í sjókvíum er aðeins leyft á þeim svæðum þar sem mjög fáar eða engar laxveiðiár eru til staðar,“ segir Albert í samtali við Fiskeldisblaðið sem vel að merkja er gefið út af hagsmunaaðilum í fiskeldi. Orð Alberts hljóta þó að standa.

Meðalhóf í uppbyggingu og umræðu

Þessir aðilar - og reyndar ýmsir líffræðinar sem gefa sig í umræðuna - hafa lýst yfir efasemdum um marga þá þætti sem gagnrýndir voru í myndinni. Augljóslega var verið að tína til gömul dæmi og mistök úr fortíðinni. Það er ekki sjálfgefið að þau mistök verði framkvæmd hér á Íslandi. Regluverkið um fiskeldi hér á landi er strangt og leyfisveitingar- og eftirlitsferlið krefjandi þar sem bæði er horft til umhverfis- og skipulagsþátta, sér í lagi til að forðast árekstra við annars konar auðlindanýtingu. Við getum öll verið sammála um að fara varlega og byggja upp fiskeldi hægt og rólega þannig að við sjáum hvort það gengur hér við land. Í uppbyggingu fiskeldis, eins og á við um alla auðlindanýtingu, verður að gæta meðalhófs og hafa varúðarsjónarmið að leiðarljósi sem og taka tillit til allra þátta; umhverfislegra-, samfélagslegra-, og efnahagslegraþátta.

Myndin Undir yfirborðinu var um margt fróðleg, en menn hljóta þó að velta fyrir sér hvort hún verðskuldi heitið heimildarmynd. Með því að yfirfæra neikvæðra reynslu og öll þau mistök sem hafa verið gerð í öðrum löndum til Íslands breyttist hún hún í fremur lítt ígrundaða og að mörgu leyti hráa áróðursmynd. Það er nauðsynlegt í kjölfar þessa moldviðris að halda tölfræðilegum, líffræðilegum og verkfræðilegum staðreyndum á lofti um laxeldi hérlendis. Þar ættu fjölmiðlar að koma inn.

Hér er ekki verið að taka afstöðu með eða á móti fiskeldi en ég er þó tilbúinn að gangast við því að alla jafnan hef ég mikla samúð með heimamönnum sem reyna að renna frekari stoðum undir atvinnulíf sinnar heimabyggðar. Augljóst er að heimamenn telja að fiskeldi henti þeirra atvinnuuppbyggingu. Ég reyni þó að vera ekki mjög tilfinningasamur í þeim efnum. Öfugt við heimildamyndina Undir yfirborðinu.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.