c

Pistlar:

18. maí 2018 kl. 16:52

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Stjórnsýslumartröð

Byggingastjóri að verkefni í Reykjavík tjáði mér eitt sinn að hann hefði náð að þekja heilan vegg í húsi einu í miðborg Reykjavíkur með öllum leyfisskýrteinunum sem þurfti vegna framkvæmdanna. Þrátt fyrir tilfallandi yfirlýsingar um að dregið verði úr pappírsvinnu og kerfið einfaldað þá sér þess engin merki. Sumir veigra sér í að sækja heimildir fyrir einfaldar breytingar á heimili sínu einfaldlega vegna þess að umstangið og vinnan er allt of mikil. En þetta getur einnig unnið í hina áttina. Þegar verktakar hafa einu sinni fengið yfirráð yfir tilteknu byggingarmagni þá verður því ekki breytt, skiptir engu hve mjög byggingarnar stinga í augun eins og við erum að sjá í umræðu um Austurhöfn.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, gerði þetta að umtalsefni í grein í ViðskiptaMogganum í gær. Sigurður hvatti stjórnvöld til að ein­falda stjórn­sýsl­una auk þess að gera hana skil­virk­ari til að draga úr töf­um og óþarfa kostnaði í þeim tilgangi að auðvelda uppbyggingu íbúðamarkaðar. Þannig sé hægt að byggja rétt hús­næði á rétt­um stöðum. Taf­ir í skipu­lagi og hjá bygg­inga­full­trú­um sveit­ar­fé­laga og kröf­ur af ýmsu tagi bæði tefji fram­kvæmd­ir og leiða beint og og óbeint til viðbót­ar­kostnaðar sem er þvert á það mark­mið að byggja hag­kvæmt hús­næði. Það er þjóðhags­lega mik­il­vægt að bæta þarna úr því kostnaður sam­fé­lags­ins alls er ansi hár og hleyp­ur hugs­an­lega á millj­örðum á ári hverju ef allt er talið.hlemm

Árs töf á Mathöllinni

Í grein sinni bendir Sigurður á hvernig Reykjavíkurborg féll á eigin bragði og nefndi til Mat­höll­ina á Hlemmi. Hún er áhugaverð viðbót við fjöl­breytta flóru veit­ingastaða í borg­inni og gæðir þetta svæði lífi. „Reykja­vík­ur­borg stóð fyr­ir breyt­ing­um á hús­næðinu þannig að veit­inga­menn gætu komið sér fyr­ir og boðið gest­um upp á veit­ing­ar. Taf­ir á veit­ingu bygg­inga­leyf­is, m.a. vegna skipu­lags­mála, ásamt öðrum ástæðum, leiddu til þess að þetta verk­efni tafðist um nærri ár, upp­haf­lega stóð til að hefja starf­semi haustið 2016 en það tókst ekki fyrr en í ág­úst 2017. Með öðrum orðum, þá reyndu borg­ar­yf­ir­völd á eig­in skinni hversu óskil­virkt kerfið er. Þetta er ekki bundið við Reykja­vík held­ur er mál­um þannig háttað á einn eða ann­an hátt í mörg­um sveit­ar­fé­lög­um. Þetta verður úr­lausn­ar­efni kjör­inna full­trúa eft­ir kosn­ing­ar.”

Þetta er þörf ábending hjá Sigurði en ekki þarf að tak áfram að kostnaðurinn jókst verulega við þessar tafir. Sá kostnaður fellur að mestu á útsvarsgreiðendur í Reykjavík.

Einföldun regluverks

Stjórnvöld hafa um langt skeið lagt áherslu á að einfalda regluverk og er það verkefni sérstaklega tekið upp í síðustu stjórnarsáttmálum. Jafnframt samþykkti ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar aðgerðaáætlun um einfaldara og skilvirkara regluverk fyrir atvinnulífið, en þar segir meðal annars:

„Til þess að ná árangri við einföldun gildandi regluverks er nauðsynlegt í upphafi að gera úttekt á stöðunni eins og hún er. Greina þarf hvað það er í regluumhverfi atvinnulífsins sem er óþarflega flókið og íþyngjandi og meta kostnaðinn sem af hlýst. Síðan þarf að setja sér markmið um að draga úr þessum byrðum í áföngum og móta árangursmælikvarða til að fylgjast með árangri. Í ljósi reynslu annarra OECD-ríkja af slíkum verkefnum er rétt að forgangsraða málefnasviðum og nota eftir atvikum dæmigerða hópa fyrirtækja til að fylgjast með árangri.“

Hafa verður í huga að opinberar reglur þurfa sérstakrar réttlætingar við, því þær skerða einatt athafnafrelsi og geta dregið úr hagvexti og velferð. Vitaskuld er samstaða um það á alþjóðavettvangi að ýmsar reglur séu nauðsynlegar til þess meðal annars að skapa skýran og gagnsæjan ramma um samkeppni og atvinnustarfsemi. Regluverki er ætlað að auka velferð samfélagsins, jafnt efnahagslega sem félagslega. Þetta er í raun flóknara mál en virðast mætti í fyrstu, en þó má segja að þessu takmarki sé meðal annars náð ef heildarvelferð allra í samfélaginu eykst meira en sem nemur þeim heildarkostnaði fyrir samfélagið sem af reglunum hlýst. Þessi kostnaður getur verið umdeilanlegur og erfitt að reikna. Þessa hugsun má líka heimfæra upp á hver einustu lög eða reglur. Mikilvægur mælikvarði á hvort þær eigi rétt á sér eða ekki er hvort heildarábati samfélagsins sé meiri en heildarkostnaðurinn. Augljóslega vantar að slíkt mat sé gert.

Í Kastljósi gærdagsins virtist umsjónarmaðurinn telja að það væri hlutverk forstjóra ríkisstofnanna að koma í veg fyrir að fjárfestar ráðist í vondar fjárfestingar. Það er auðvitað ekki hlutverk regluverksins heldur einfaldlega að lögum og reglum sé framfylgt. Það ætti að vera eitt af hlutverkum stjórnsýslunar að hún hafi frumkvæðisskildu til að benda á ófullkomið og íþyngjandi regluverk. Miklu frekar en að henni sé gert auðvelt að fela sig bak við slíkt.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.