c

Pistlar:

20. maí 2018 kl. 21:35

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Kína: Marx frekar en Maó

Það mun ekki hafa verið síðri áhugi á brúðkaupi Harry prins og Meghan Markle í Kína en annars staðar á byggðu bóli. Heill milljarður manna fylgdist með þessari yfirstéttarskrautsýningu í beinni útsendingu og hugsanlega hefði Karl Marx snúið sér við í gröfinni ef hann hefði áttað sig á að konungsfjölskyldan er nú ekki aðeins sameiningartákn heldur skemmtir hún einnig alþýðunni!marxst

Líklega er Kína það land í heiminum sem hvað mest hampar arfleifð Karl Marx en um 200 ára afmæli hans var fjallað hér fyrir stuttu. Kínversk yfirvöld hafa Marx í hávegum og kínverskir ráðamenn vitna til hans ótt og títt auk þess sem helstu samkomur Kínverska kommúnistaflokksins eru skreyttar með risastórum myndum af þessum þýska hagfræðingi. Það var heldur hláleg uppákoma í kringum 200 ára afmælið þegar Kínverjar mættu með ógnarstóra styttu til Trier, fæðingabæjar Marx, og gáfu bæjarbúum. Eftir samningaviðræður við kínversk yfirvöld var styttan minnkuð og því „aðeins” fimm og hálfur metri að stærð í endanlegri útgáfu en meðfylgjandi mynd sýnir flutning hennar. Kínverjarnir höfðu hugsað sér að hafa hana miklu stærri. Þýskir diplómatar fengu þá ofan af því en heimamenn í Trier eru reyndar ekki á eitt sáttir vegna stærðar styttunnar (stærðin hefur reyndar verið á reiki í fjölmiðlum en hér er stuðst við tölur frá Financial Times). Einhverjir heimamenn vildu meina að enn væri til nóg af aflóga styttum af Marx í geymslum í austurhluta landsins. Nær væri að sækja þær en flytja nýja yfir hálfan hnöttinn. En styttan varð að veruleika og kínverski myndhöggvarinn sem á heiðurinn af henni sagðist hafa lagt sig fram um að skapa Marx eins og hann leit út þegar hann skrifaði höfuðrit sitt Fjármagnið (Das Kapital).junk

Marx eða Juncker afhjúpaður?

En um sama leyti og Marx var afhjúpaður hélt Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, ræðu í Trier. Juncker er annálaður gleðimaður og kaus að lofa Marx í ræðu sinni. Sjálfsagt ekki viljað spilla stemmningunni þegar drykkir væru bornir á borð.

„Í dag táknar hann hluti sem hann ber ekki ábyrgð á og sem hann olli ekki, því margt sem hann skrifaði var túlkað í andstæðu sína,” sagði Juncker sem er með tæpar þrjár milljónir króna á mánuði auk ríflegra kostnaðargreiðsla og lífeyrispakka sem er engu líkur. Carl Bildt, fyrrverandi forsætisráðherra Svía, var ekki skemmt yfir þessum orðum en góð grein eftir hann birtist í Morgunblaðinu í liðinni viku. Það þarf ekki að taka fram að breska pressan gerði sér veislu úr þessum orðum Juncker en meðfylgjandi mynd er tekin úr einu þeirra. Í stuttu máli taldi breska pressan að Juncker hefði algerlega horft framhjá öllum fórnarlömbum marxismans.  

Bildt segir ekki ljóst hvað Juncker meinti með þessu og bendir réttileg á að marxisminn hefur, „þrátt fyrir allt, valdið ómældum hörmungum fyrir margar milljónir manna sem hafa neyðst til þess að búa undir ríkisvaldi sem sveipaði sig fánalitum hans. Lungann af tuttugustu öldinni þjáðust um 40% mannkynsins vegna hungursneyðar, gúlagsins, ritskoðunar og annarra kúgunartækja sem sjálfskipaðir marxistar beittu. Juncker virtist í ræðu sinni vera að ýja að venjulegu mótrökunum: að grimmdarverk kommúnista á 20. öld hefðu verið vegna einhvers konar brenglunar á hugsun Marx, og að hann sjálfur gæti varla borið ábyrgð á þeim.” Bildt gefur lítið fyrir þau rök.

Marx frekar en Maó

En af hverju hafa Kínverjar svona mikinn áhuga á Marx? Hugsanlega er það af því að þeim finnst erfitt að setja kenningar Maó í beint samband við það sem er að gerast í Kína í dag. Efnahagsuppgangur sá er hófst í kjölfar dauða Maó er með ólíkindum og ekkert land státar nú af fleiri auðmönnum. Um leið hefur bilið milli ríkra og fátækra aukist. Gríðarstór millistétt hefur risið upp í Kína og hún er neysluóð sem aldrei fyrr. Ríkisafskipti í Kína hafa líka minnkað verulega þó að kommúnistaflokkurinn stjórni einn á hinu pólitíska sviði. Ríkið er stærra hlutfallslega í Frakklandi en í Kína í dag. Að þessu leyti má segja að Kínverjar hafi sleppt markaðinum lausum þó að hugmyndirnar fái ekki að keppa.

Minningin um Maó fær að lifa í Kína en honum er ekki hampað. Það má heldur ekki tala illa um hann. Þá er Menningarbyltingin (1966-1976) enn að mörgu leyti sársaukafull minning. Ákvörðun Maó að svipta bændur landi sínu og frumkvöðla fyrirtækjum sínum hafði fyrirsjáanlega skelfilegar afleiðingar og kínverski kommúnistaflokkurinn hefur síðan skilið við þessa hugmyndafræðilegu nálgun. Ýmsir menntamenn í Kína hafa gefið í skyn að arfleifð Maó standist ekki skoðun, en ekki opinberlega.

Undir stjórn eftirmanns Maós, Deng Xiaoping, leiddi flokkurinn hina miklu opnun kínverska efnahagsins. Eftir 1978 leyfði flokkurinn aftur eignarrétt og frumkvöðlastarfsemi og niðurstöðurnar hafa verið ekkert annað en stórfenglegar segir Bildt í snarpri greiningu sinni. Eitthvað getur verið misjafnt hvernig menn lesa Marx. Um efnahagsstefnu Jósefs Stalíns var sagt að það væri eins og Gengis Kan hefði lesið Marx. Svo algerlega slátraði hann kúlökkunum og afmáði þá sem stétt, að hluta til upp úr kokkabókum Marx.

En Marx er hampað í Kína um þessar mundir, það þarf ekki að fara í grafgötur með það. Xi Jinping, forseti Kína, lýsti því yfir í Peking fyrir stuttu á sérstökum hátíðarhöldum til heiðurs marxismanum að „líkt og stórfengleg sólarupprás lýsti kenningin upp rannsóknir mannkynsins á lögmálum sögunnar, og leit mannkynsins fyrir [sinni] eigin frelsun.” Hann sagði einnig að Marx hefði „bent á leiðina, með vísindalegri kenningu, að fullkomnu þjóðfélagi þar sem engin kúgun eða arðrán [væri], þar sem sérhver einstaklingur myndi njóta jafnréttis og frelsis.” Það eru fleiri en Carl Bildt sem eiga erfitt að sjá hvernig þessi lýsing kemur heim og saman við það sem er að gerast í Kína í dag.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.