c

Pistlar:

9. júní 2018 kl. 13:19

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Vika er langur tími fyrir HM!

Ísland leikur sinn fyrsta leik á Heimsmeistaramótinu í Rússlandi eftir viku. Mótherjinn er ekki af verri endanum, tvöfaldir heimsmeistarar Argentínu. Íslenska liðið hélt að af landi brott í dag og mikið um dýrðir. Flestir reyna að stilla væntingum sínum í hóf en vitaskuld vonast menn til að fá annað ævintýri eins og átti sér stað í á Evrópumeistaramótinu í Frakklandi fyrir tveimur árum.

Það er hægt að setja þátttöku íslenska landsliðsins í margvíslegt samhengi en uppúr stendur að Ísland er langfámennasta þjóðin til að senda lið á heimsmeistaramótið. Hugsanlega kann það að breytast en rætt er um að fjölga þátttökuþjóðunum upp í 48 í framtíðinni. Nánast fjórða hver þjóð mun eiga fulltrúa þar. Það verður því stöðugt auðveldara að komast á mótið og ef íslenska liðið heldur áfram á sömu braut þá getum við alveg eins vænst þess að komast aftur á heimsmeistaramót.flug

En þátttakan Íslands nú er með ólíkindum. Ekki eingöngu sigraði liðið í erfiðum undanriðil heldur er það nú í 22. sæti á heimslista FIFA. Styrkur og geta liðsins hefur verið með ólíkindum undanfarin ár og ekki undarlegt að heimspressan skuli sýna liðinu og framgöngu þess mikinn áhuga. Við erum minnt á það alla daga núna og augljóst að landsliðið okkar er einstök landkynning. Það eitt og sér styður að umgjörð þess sé gerð sem best, meðal annars með því að byggja þjóðarleikvang sem sómi er að. - Og getur gefið okkur sem aldrei vinnum í miðahappdrættinu tækifæri til að komast á völlinn!

Einstakt lið

Auðvitað er það svo að breiddin er minni hér en annars staðar og það er á engan hallað að segja að án þátttöku Gylfa Þórs Sigurðssonar er geta liðsins önnur og minni. Frammistaða Gylfa með landsliðinu er einu orði sagt frábær og við sáum það í æfingaleikjunum nú fyrir heimsmeistaramótið að liðið spilar mun betur með hann innanborðs. Ógnunin framávið verður allt önnur og föst leikatriði verða mun hættumeiri. Þá er ógetið að engin leikmaður hleypur eins mikið og Gylfi enda vinnusemi hans annáluð. Það bendir okkur á það sem einkennir íslenska liðið öðru fremur. Barátta og vinnusemi eru aðalsmerki liðsins og án þess að það sé í lagi er hætt við að halli undan fæti. Liðið hefur bætt sig á mörgum sviðum knattspyrnunnar undanfarin ár en vinnusemi, samstaða og skipulag eru aðalsmerki liðsins. Virkar kannski ekki eins og ný töfraformúla en þessir þættir skýra gengi liðsins öðru fremur. Þó að úrslit vináttuleikja undanfarið hafi ekki aukið okkur bjartsýni þá er ljóst að þegar á hólminn er komið þá leikur liðið öðru vísi.

Ég átti þess kost að fylgjast með heimsmeistaramótinu á Spáni 1982 og sá meðal annars leik Brasilíu og Argentínu í Barcelóna. Frammistaða Diego Maradona olli vonbrigðum, hann náði ekki að virkja sína ótrúlegu hæfileika fyrr en fjórum árum síðar. Argentínska liðið hefur marga frábæra leikmenn innanborðs, með sjálfan Lionel Messi í fararbroddi. Án efa einn besti leikmaður allra tíma. En Argentínumenn hafa sína veikleika og ef menn hafa trú á eigin getu og sýna baráttu og samstöðu er allt mögulegt. Við vonum það besta.

Áfram Ísland!