c

Pistlar:

14. júní 2018 kl. 22:33

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Mikil tækifæri fylgja Sundabraut

Bæjarstjórn Akraness hefur skorað á Reykjavíkurborg og ríkið að hefja án tafar undirbúning að lagningu Sundabrautar. Yfirlýsing Akurnesinga er skorinorð og bendir á að aðgerðarleysi og „umkenningaleikur” Reykjavíkurborgar og ríkisins hefur staðið of lengi og tími sé kominn á aðgerðir með hagsmuni borgarbúa og Íslendinga allra að leiðarljósi. Þessi yfirlýsing hefði mátt fá meiri athygli af mörgum ástæðum.

Sundabraut bæti umferð til og frá höfuðborginni og eykur umferðar- og almannaöryggi. Þetta er hárrétt og hafa má í huga að oddvitar stærstu flokkanna í Reykjavík vildu nær allir Sundabraut í aðdraganda kosninga og þar af var stjórnarandstaðan hlynnt að ráðast í hana með einkaframkvæmd. Því er dapurlegt að ekkert sé minnst á hana í því málefnasamstarfi sem nú hefur verið kynnt. Hér í pistli í marsmánuði var bent á að nauðsynlegt væri að kjósendur fengju að vita afstöðu frambjóðenda en nú virðist það ekki ætla að skipta miklu. Sundabraut virðist fjarlægur draumur.

Sundabraut er búin að vera á inni á aðalskipulagi Reykjavíkurborgar frá 1984. Þegar fyrri umræður um málið eru skoðaðar, kemur í ljós að þessi framkvæmd hefur jafnan notið almenns stuðnings, bæði borgaryfirvalda og þeirra ráðherra sem farið hafa með samgöngumál. Þegar kostir Sundabrautar eru skoðaðir eru þeir afgerandi. Ekki síður sú staðreynd að brautin gefur færi á nýrri sýn í uppbyggingu og skipulagi á því svæði sem hún mun liggja um. Sannast sagna gefur hún færi á mikilli uppbyggingu á svæði sem nú nýtist lítið.SundabrautMat

Mikil samgöngubót

Ekki þarf að fjölyrða um ástand samgöngukerfisins og þann mikla umferðarþunga sem er á vegunum nú 34 árum eftir að Sundbraut kom fyrst á aðalskipulag. Það má segja að ástandið sé nú orðið að stóru vandamáli, bæði út á þjóðvegum til og frá höfuðborgarsvæðinu og innan borgarinnar. Þegar horft er til þeirrar miklu aukningar á umferð til og frá borginni á undanförnum árum, bæði vegna vöruflutninga og ekki síður vegna fólksflutninga verður að teljast sérkennilegt að ekkert hafi gerst allan þennan tíma. Sennilega er engin ein samgönguframkvæmd hér á landi eins aðkallandi og Sundabraut en líklega myndu um 30 þúsund bílar aka hana daglega.

Á síðustu tuttugu árum hefur samgöngukerfið til og frá Sundahöfn og Vogabakka ekkert breyst, engar umtalsverðar lagfæringar eða viðbætur. Sæbrautin er einfaldlega löngu sprungin, en um þá samgönguæð fara nær allir vöruflutningar til og frá landinu, ef frá er skilið eldsneyti og framleiðsla stóriðjuvera. Því til viðbótar fara um Sæbraut þeir 130 þúsund ferðamenn sem koma til landsins á hverju ári með skemmtiferðaskipum. Nýlegar kannanir sýna að ferðatími innan höfuðborgarsvæðisins er að aukast með tilheyrandi kostnaði og óþægindum bæði fyrir íbúana og atvinnulífið í borginni. Allt styður þetta að ráðist yrði í Sundabraut. Þá er ótalið það mikla öryggishlutverk sem hún myndi hafa.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.