c

Pistlar:

4. júlí 2018 kl. 10:01

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Heimsmarkmiðin: Mikilvægur tölulegur samanburður

Líklega verður að telja Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun einhverja mikilvægustu stefnumótun þjóða heimsins um þessar mundir. Nýlega birtu íslensk stjórnvöld stöðuskýrslu sína sem hefur einhverra hluta vegna fengið allt of litla umræðu. Skal reynt að bæta úr því hér.

Heimsmarkmiðin voru samþykkt af fulltrúum allra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna í september árið 2015. Þau markmið, sem gilda á tímabilinu 2016-2030, eru 17 talsins með 169 undirmarkmið og taka bæði til innanlandsmála sem og alþjóðasamstarfs á gildistímanum. Aðalsmerki Heimsmarkmiðanna er að þau eru algild og því hafa aðildarríkin skuldbundið sig til þess að vinna skipulega að innleiðingu markmiðanna bæði á innlendum og erlendum vettvangi út gildistíma þeirra. Markmiðin setja margvíslegar skyldur á aðildarþjóðir sínar.Heimsmarkmidin-500px

Heimsmarkmiðin byggja um margt á arfleifð þúsaldarmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og Ríó+20 ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem haldin var árið 2012. Þúsaldarmarkmiðin voru átta talsins og beindust aðallega að þróunarríkjum heimsins. Markmiðin skiluðu góðum árangri á gildistíma þeirra á árunum 2000-2015, en á þeim tíma minnkaði sárafátækt um meira en helming, verulega dró úr mæðra-og barnadauða, aðgangur að hreinu vatni jókst til muna, sem og aðgangur barna að menntun.

Fleiri um heimsmarkmiðin

Helsti munurinn á Þúsaldar- og Heimsmarkmiðunum felst meðal annars í því að Heimsmarkmiðin gilda um öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna en ekki einungis um þróunarríki, þó vissulega séu forsendur ríkjanna ólíkar. Að auki gegnir sjálfbær þróun, þá sér í lagi er varðar umhverfis- og auðlindamál, stærra hlutverki innan Heimsmarkmiðanna en hún gerði í Þúsaldarmarkmiðunum.

Heimsmarkmiðin eru samþætt og órjúfanleg og mynda jafnvægi milli þriggja stoða sjálfbærrar þróunar; hinnar efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu. Þá fela þau einnig í sér fimm meginþemu sem eru mannkynið, jörðin, hagsæld, friður og samstarf. Aðalinntak markmiðanna er jafnframt að engir einstaklingar eða hópar verði skildir eftir. Því er mikilvægt að ríki horfi ekki eingöngu til meðaltala við mælingar á árangri sínum heldur nálgist innleiðingu markmiðanna á heildstæðan hátt. Heimsmarkmiðin eru margþætt og metnaðarfull og krefjast skipulagðrar vinnu af hálfu stjórnvalda en einnig þátttöku og samstarfs milli ólíkra hagsmunaaðila. Þá eru innri tengsl og samþætt eðli markmiðanna afar þýðingarmikil fyrir framkvæmd þeirra. Óhætt er að taka undir þá fullyrðingu að ef þjóðum heimsins tekst að ná markmiðunum innan gildistíma áætlunarinnar þá mun líf allra og umhverfi hafa batnað til mikilla muna árið 2030.

Stöðuskýrsla sú sem liggur núna fyrir er þörf samantekt og gott upphaf fyrir þá sem vilja setja sig inn í heimsmarkmiðin sem skipta okkur öll miklu. Höfundur hefur fjallað talsvert um þúsaldarmarkmiðin í gegnum tíðina og mun reyna að gera heimsmarkmiðunum góð skil.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.