c

Pistlar:

18. júlí 2018 kl. 22:25

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Efnahagslegt fullveldi

Þegar Ísland fékk fullveldi var langþráðu marki náð í baráttunni fyrir sjálfstæði. Íslendingar voru ríflega 90 þúsund talsins á þessum tíma og ljóst að þeirra biðu mörg verkefni enda efnahagur þjóðarinnar rýr og fullveldisárið sýndi náttúra landsins allar sínar verstu hliðar. Fullveldisárið 1918 var eitt þeirra ára sem reyndi á þolgæði landsmanna. En þeir vissu að ekki var hægt annað en þrauka.full

Eftir góðæri heimastjórnartímabilsins tóku við erfiðleikar í efnahagslífinu vegna versnandi viðskiptakjara, ófullkominnar efnahagsstjórnar, einhæfs atvinnulífs og ófullburða og óstöðugs bankakerfis. Peningastefnan var ómótuð og vissara þótti að tengja íslensku krónuna þeirri dönsku. En mestu skipti að Íslendingar réðu nú sjálfir sínum markaðsmálum og viðskiptasamningum og áttu því hægar um vik að bregðast við breyttum aðstæðum. Stjórnmálabaráttan hætti að taka mið af sjálfstæðibaráttunni en snerist fremur um uppbyggingu samfélagsins og innviða þess.

Þær breytingar, sem átt hafa sér stað á Íslandi síðustu öld eru með ólíkindum, en aflvaki þeirra var sá andi bjartsýni og dugs, sem þurfti til þess að ætla að lítil þjóð á eyju norður í Atlantshafi gæti staðið á eigin fótum og öðlast fullveldi. Enginn efast um að sú ákvörðun hefur verið heilladrjúg og það var eðlilegt að reyna að heiðra það í dag. Fullveldi Íslands var staðfest með sambandslögunum sem voru í formi milliríkjasamnings milli Íslands og Danmerkur. Íslendingar voru þaðan í frá íslenskir ríkisborgarar, ekki danskir. Langþráðu marki í sjálfstæðisbaráttunni var náð. Það hefur verið glaðst yfir minna.

Í dag geta Íslendingar státað af farsælu samfélagi þó það sé vissulega ekki gallalaust frekar en önnur samfélög. Þegar kemur að almennum lífskjörum og velferð þegnanna eru Norðurlöndin fremst meðal þjóða. Íslendingar geta borið höfuðið hátt í þeim hópi. Það er sama hvaða viðmið eru notuð til að bera saman samfélög. Ísland er oftast í einu af efstu sætum eins og margoft hefur verið bent á hér í pistlum. Við skulum gleðjast yfir því í dag og heiðra minningu þeirra sem stuðluðu að þetta varð raunin.