c

Pistlar:

26. júlí 2018 kl. 10:30

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Selfoss: Nýr miðbær eða hvað?

Þann 18. ágúst næstkomandi munu íbúar Árborgar kjósa um nýjan miðbæ á Selfossi. Áður hefur verið vikið að þeirri óvenjulegu stöðu sem Selfyssingar eru í en þeir eru eitt fárra sveitarfélaga í landinu sem geta skipulagt og hannað miðbæ sinn frá grunni. Fyrir liggur tillaga að skipulagi sem hefur verið í þróun í mörg ár en hún byggist á því að reisa heilt hverfi með yfirbragði eldri byggðar. Hönnun þessa nýja miðbæjar fellst í því að vinna með útlit eldri húsa og raða þeim saman í heildstæðan miðbæ. Flest húsanna hafa verið til áður í einhverri mynd en samsetningin og yfirbragðið er alveg nýtt. Semsagt; nýr miðbær með gömlu útliti, söguleg byggð í bland við ný hús. Um þetta eru deildar meiningar eins og gengur en aðrar hugmyndir eru ekki á borðinu.Midbaer-selfoss

Margir bæir njóta þess að eiga gamlan kjarna sem hægt er að þróa áfram eins og rætt hefur verið áður um hér í pistli. Þetta höfum við séð á Siglufirði, Ísafirði, Seyðisfirði og í Stykkishólmi, svo fáeinir staðir séu nefndir. Allir þessir staðir njóta þess nú að ganga í endurnýjun lífdaga. Þetta eru oft staðir sem gleymdust um hríð og athafnasemin sá ekki um að rífa það gamla sem flestum þykir svo áhugavert að varðveita enda bæjarbragurinn með allt öðrum hætti en ef nýjar módernískar byggingar rísa. Eyrabakki, sem er innan Árborgar, hefur einnig slíka heild og má sjá áhugverðar tilraunir til að styðja við hana. Þar má þó gera betur og hugsanlega gæti nýi miðbærinn á Selfossi - ef vel tekst til - ýtt undir frekari uppbyggingu í eldri stíl á Eyrabakka. Aðrir bæir verða að byrja á öðrum stað, saga þeirra kann að vera styttri eða að það hefur ekki verið hugað nóg að styrkingu miðbæjar í gegnum tíðina. Í byrjun árs var greint frá því að íbúar Egilsstaða hefðu ákveðið að endurskoða skipulag sitt með tilliti til þess að auka mannlíf í bænum. Selfossbær stendur hins vegar frammi fyrir athyglisverðum valkosti með mikið af óbyggðu svæði í miðbænum eins og áður sagði.

Selfoss er á tímamótum og áhugavert að íbúar Árborgar geti haft áhrif á það með beinum hætti. Valkostur sá sem fellst í nýja miðbænum er skýr en ómögulegt er að segja hvað verður ef tillögunni er hafnað. Það er ekki langt síðan hugmyndir voru um að háhýsi á þessu svæði. Það hefði verið mikið slys ef þau hefðu risið en sem betur fer varð ekki af því. En byggingarnar eru eitt, mestu skiptir auðvitað hvort tekst að glæða þær lífi eins og að er stefnt. Til þess þarf að ríkja samstaða meðal bæjarbúa. Vonandi að íbúar Árborgar skoði málið af opnum hug og meti valkostina af gaumgæfni.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.