c

Pistlar:

29. júlí 2018 kl. 19:51

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Er Trump að skila sínu?

Efna­hag­ur Banda­ríkj­anna óx um 4,1% á öðrum fjórðungi þessa árs, end­ur­reiknað miðað við árs­grund­völl, og hef­ur ekki vaxið hraðar síðan í þriðja ársfjórðungi 2014. Vöxt­ur­inn er knú­inn áfram af aukinni einka­neyslu, fjár­fest­ing­um í viðskipt­um og óvæntri aukn­ingu í út­flutn­ingi. Þetta er auðvitað til að gleðja Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seta sem segir vöxt­inn hvorki meira né minna en stór­kost­leg­an og að hann sé til sönn­un­ar um að stefna rík­is­stjórn­ar­inn­ar sé að virka. Trump hafði lofað 4% hagvexti og getur nú sagst hafa staðið við það. Auðvitað er ástæða til að vara við oftúlkun á tölunum en þetta eru ánægjuleg tíðindi fyrir Bandaríkjamenn og ekki síður heimsbyggðina sem á yfirleitt mikið undir því hvernig gengur í þessari háborg kapítalismans.trump

Þrátt fyrir misjafna umfjöllun um Trump í heimspressunni þá er augljóslega margt í bandarísku efnahagslífi að þróast á jákvæðan máta. Atvinnuleysi er nú í lægsta gildi síðustu 18 ára en ekki skiptir síður máli að starfandi fjölgar hratt. Pantanir streyma inn til fyrirtækja og útflutningur eykst umtalsvert. Það hefur ekki verið meiri gangur á efnahagslífinu í 13 ár skrifa bandarískir fréttaskýrendur. Það er því ekki nema von að höfundur Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins rifji upp hrakspár manna eins og nóbelsverðlaunahafans Paul Krugman sem í einhverskonar geðshræringu við kjöri Trump spáði hrunið markaða! Síðan Trump tók við hefur bandaríski hlutabréfamarkaðurinn verið á fleygiferð og tvöfaldast að verðmæti. Þar sem bandaríski hlutabréfamarkaðurinn er um 43% af heimsmarkaðinum blasir við að það hefur mikil áhrif á heimsvísu. Það eru reyndar ekki mörg ár síðan hann nam 50% af heildarverðmæti hlutabréfa en kínverski markaðurinn hefur sótt á. Bandaríski markaðurinn er verðlagður hátt en hann er ekki nema 17% af útgefnum hlutabréfum. Það segir sig sjálft að bandaríski markaðurinn er verðlagður talsvert hærra en aðrir markaðir.

Munu vextir hækka?

Þensla á vinnumarkaði í Bandaríkjunum hefur aukið vilja Seðlabanka Bandaríkjanna til að hækka vexti, nokkuð sem Trump hefur auðvitað þegar tjáð sig um og er að sjálfsögðu mótfallinn. Líklega mun hann senda bankanum tóninn þegar og ef vextir hækka. Húsnæðismarkaðurinn bandaríski hefur einnig verið í miklum vexti en hugsanlega gæti samdráttur þar unnið gegn áhuga seðlabankans á að hækka vexti sem getur síðan haft áhrif á styrk Bandaríkjadalsins. Sterkur dalur er ekki endilega það sem útflutningsgreinarnar vilja sjá en spár gera ráð fyrir frekari styrkingu hans. Undanfarin ár hefur framleiðni aukist of lítið í Bandaríkjunum vegna of lítillar fjárfestingar. Væntingar hafa verið til þess að skattalækkanir Trump-stjórnarinnar auki fjárfestingu sem er grunnforsenda fyrir samkeppnishæfni bandarísks atvinnulífs. Teikn hafa verið á lofti um að það sé að ganga eftir. Það væri annar áfangasigur fyrir Trump nú þegar óvissa ríkir um hvernig tollastríði hans reiðir af.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.