c

Pistlar:

31. júlí 2018 kl. 20:50

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sundabraut er nauðsynlegur hlekkur

Sundabraut er nauðsynlegur hlekkur í stofnbrautakerfi höfuðborgarsvæðisins samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001 – 2024 eins og kemur fram í skýrslu á vegum Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar frá árinu 2004. Hér hefur aftur og aftur verið vakin athygli á mikilvægi Sundabrautar, ekki bara sem mikilvægrar samgöngubótar heldur ekki síður sem mikilvægs þróunarverkefnis fyrir byggð á höfuðborgarsvæðinu.

Í áðurnefndri skýrslu er bent á að Sundabraut er forsenda fyrir uppbyggingu í Gufunesi, Geldinganesi og síðar á Álfsnesi og er auk þess mikilvæg tenging fyrir norðurbyggðir Reykjavíkur (Grafarvog og Borgarholt) og síðar Hamrahlíðarlönd. Sundabraut hefur ennfremur mikla þýðingu fyrir samgöngur á landsvísu og þróun byggðar á suðvesturhorni landsins. Fyrsti áfangi Sundabrautar var á þessum tíma talin forsenda fyrirhugaðrar uppbyggingar í Gufunesi. Nú eru uppbyggingaráform þar komin á fullt en ekkert bólar á Sundabrautinni. Sama má segja um uppbyggingu í Vogahverfi sem eitt og sér hafur áhrif á þróun verkefnisins og rekur á eftir því.sundabraut

Ekki komist í gegnum valkostastigið

Ógæfa Sundabrautar er að það voru tilgreindir nokkrir valkostir um legu og framkvæmd. Því miður hefur Sundabraut aldrei komist í gegnum þetta valkostastig. Borgaryfirvöld töluðu digurbarkalega um Sundabrautina þegar Kjalarneshreppur sameinaðist Reykjavík fyrir tuttugu árum. Á þeim tíma sáu menn fyrir sér að upplagt væri fyrir borgina að nýta hið nýja land við Esjurætur til frekari uppbyggingar borgarsamfélagsins og fasteignaverð myndi í sviphendingu rjúka upp úr öllu valdi. Kjalnesingar hafa séð litlar efndir á þessu.

Vega­gerðin og Reykja­vík­ur­borg hafa allt frá ár­inu 1995 lagt mikla vinnu í að rann­saka mögu­lega kosti á legu Sunda­braut­ar. Því miður hafi ekki náðst sam­eig­in­leg niðurstaða um ákveðinn kost. Líklegt er að Sundabraut kosti einhversstaðar á bilinu 20 til 30 milljarðar króna og líklega þarf að fjármagna hana utan samgönguáætlunar eins og hefur verið bent á áður hér. Samgönguráðherra upplýsti á síðasta ári að í til­lögu til þings­álykt­un­ar um sam­göngu­áætlun fyr­ir árin 2015–2026, sem lögð var fyr­ir Alþingi á 145. lög­gjaf­arþingi 2015–2016, var ekki lagt til að veitt verði fé til Sunda­braut­ar. Þess í stað kem­ur fram að „...leitað verði leiða til að fjár­magna Sunda­braut í sam­starfi við einkaaðila“.

Á síðasta ári var einnig upplýst að nokkr­ir fjár­fest­ar hefðu leitað upp­lýs­inga hjá Vega­gerðinni og samgönguráðuneyt­inu um Sunda­braut með það í huga að leggja braut­ina gegn end­ur­greiðslu. At­hug­an­ir þess­ar hafa ekki leitt til frek­ari samn­ingaviðræðna enn sem komið er. Ljóst er að hægur vandi væri að fjármagna framkvæmdina og ráðast í hana ef pólitískur vilji væri fyrir því. Fyrir síðustu kosningar í Reykjavík upplýstist að oddvitar stærstu flokkanna í Reykjavík vildu nær allir Sundabraut og stjórnarandstaðan var hlynnt einkaframkvæmd. Umtalsverðum fjármunum hefur verið varið í að skoða og meta Sundabraut. Nú er mikilvægt að hefjast handa.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.