c

Pistlar:

15. ágúst 2018 kl. 7:53

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Túristagildra geðveiks konungs

Stundum tekur maður skrítnar ákvarðanir á ferðalögum. Að heimsækja ævintýrakastalann Neuschwanstein telst hugsanleg til slíkra ákvarðanna en þangað er um tveggja tíma akstur suður af München. Þangað fer engin nema skipuleggja sig fyrirfram því til Neuschwanstein sækja þúsundir manna á hverjum degi. Það er líklega umhverfið sjálft sem skapar ævintýraumgjörðina frekar en kastalinn eins ágætur og hann er. Kastalinn rís upp af hæði í skógi vöxnu umhverfi í jaðri Alpanna og er með ólíkindum að slík bygging hafi risið þar. Síðar varð kastalinn að fyrirmynd „Disney-kastalans” og það hefur líklega öðru fremur stuðlað að frægð hans. Það virðist til dæmis höfða mjög til asískra ferðamanna sem nú fjölmenna á staðinn.Neuschwanstein

Lúðvík annar Bæjarakonungur fæddist 25. ágúst 1845 í Nymphenburghöll í München og var aðeins átján og hálfs árs, þegar hann varð konungur. Lúðvík hefur stundum verið kallaður brjálaði konungurinn eða byggingameistarinn en hann réðist fljótlega í að skreytta byggðir héraðsins með mörgum fögrum en sérstökum byggingum, svo sem Neuschwanstein og skrauthöllinni Lindenwirt, sem nú eru einhverjir eftirsóttustu ferðamannastaðir í Evrópu allri. Þegnar Lúðvíks kunnu honum litlar þakkir fyrir framtakið en setti þetta byggingabrölt hans Bæjaraland á hausinn. Augljóslega hefur hann verið undarlegum í háttum og sjálfsagt má finna á því skynsamlegar skýringar í dag. Hann sóttist eftir samneyti við listamenn og taldi sig í þeirra hópi. Frægastur er líklega vinskapur hans við Richard Wagner. Ekki nóg með að Lúðvík annar styrkti Wagner myndarlega heldur deildi hann með honum áhuga á Eddukvæðum og norrænni sagnahefð. Neuschwanstein er því stundum eins og leiksvið upp úr óperum Wagners.

Héraðið fyrir sunnan München er af sumum kallað vatnahérað Þýskalands, því þar er mergð fjallavatna meðfram rótum Alpanna. Þetta eru einstakar náttúruperlur og mörg þeirra sögufræg. Listhefð var mjög rík með fólki þarna, og því eiga barrokkstíllinn og rókokkóskreytiverk sér mörg falleg dæmi víða um héruð, reyndar beggja vegna landamæranna. Lúðvík byggði þrjár hallir og má nefna að hann lét reisa Linderhof á árunum 1869-78 með Petit Trianon í Frakklandi sem fyrirmynd. Höllin er í stórum garði. Lúðvík var sem gefur að skilja mikill aðdáandi sólkonungsins, Lúðvíks 14 sem hefur verið fjallað um á þessum vettvangi. Lúðvík annar tók upp hugmyndir frá Versölum eftir för á heimssýninguna í París. Segja má að byggingastíllinn hafi verið oft ansi tilfallandi og ber fremur dám af skaplindi konungsins en því sem var að gerast í byggingalist á þessum tíma.

En Lúðvík annar varð aðeins rétt rúmlega fertugur. Dauða hans bar að á einkennilegan og óútskýrðan hátt. Lík konungs og læknis hans fundust í Starnbergvatni skammt frá Neuschwanstein í júní 1886. Þar fundust líkin í hnédjúpu vatni og um svipað leyti var upplýst að hann var langt komin með að selja ríkið til Prússa sem unnu að sameiningu Þýskalands á þessum tíma. Með blóði og járni, sagði Otto von Bismarck en hikaði ekki heldur við að nota peninga í sama tilgangi. Lúðvík annar var ekki áhugsamur um slíka hluti og lítill stjórnmálamaður. Hann var sem peð í höndum Prússa.n2

En klikkuð sýn Lúðvíks annars hefur síðar nýst afkomendum þegna hans. Í kringum Neuschwanstein er nú gríðarlegur ferðamannaiðnaður, jafnvel svo að freistandi er að tala um túristagildru. Sérstaklega þegar maður fellur í hana sjálfur. Það er ríflega tveggja kílómetra gangur upp að höllinni þó að fótfúnum standi til boða að fara með hestakerrum, dregnum af gríðarlegum dráttarjálkum. Miðinn gildir á fyrirfram ákveðnum tíma og hver og einn hefur um hálftíma í höllinni. Skipulagið er vandvirknislegt, hleypt inn í hollum og allir fá stund með töfrunum og heimamenn græða á tá og fingri.