c

Pistlar:

17. ágúst 2018 kl. 15:29

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Ferðalangur í München

Sagt er að München sé nyrsta borg Ítalíu en aðrir segja hana vera stærsta sveitaþorp Þýskalands. Hvað sem hæft er í því þá er München um margt notaleg borg og ágæt heim að sækja. Um eina og hálf milljón íbúa lifa í borginni og hún er því að nokkru leyti á pari við Kaupmannahöfn. München er höfuðborg sambandsríkisins Bæjaralands og íbúar eru kaþólskir og pistlaskrifari hitti einmitt á frídag sem bar heitið Himnaför Maríu! Fyrir vikið voru allar verslanir lokaðar og München-búar spókuðu sig í miðbænum eða einhverjum af hinum fjölmörgu görðum sem prýða borgina. Þar er Enski-garðurinn einstakur, en hann mun vera stærstur slíkra garða í Þýskalandi, iðandi af mannlífi þegar sólin skín. Kaþólsk áhrif í Suður-Þýskalandi stuðla að fleiri frídögum en hjá hinum iðjusömu mótmælendum í norðurhluta landsins. Það kemur ekki í veg fyrir efnahagslega velsæld en frá fornu fari hefur Bæheimur notið efnahagslegs stöðugleika enda hjarta bílaiðnaðarins þýska þar og höfuðstöðvar BMW (Bayerische Motoren Werke AG) þar frá stofnun.

München er líklega hreinasta borg sem ég hef komið til hún ber skipulagi og iðjusemi Þjóðverja fagran vitnisburð. Það er til dæmis áberandi að þar er ekki veggjakrot að finna en það setur oft ljótan svip á eldri borgir. Versta dæmið um slíkt er án efa Napólí á Ítalíu. Þar var hver einasta bygging, gosbrunnur eða kirkja útkrotuð. Ef staðið er nógu lengi kjurr þar fær maður sjálfsagt fengi krot á sig! En þetta spillti verulega upplifun þess að heimsækja Napóli, sem annars hefur upp á mikið að bjóða. Garðarnir í München móta bæjarlífi og eru uppistaða í bjórgarðalífi því sem leggur grunninn að Október-hátíðinni vinsælu en mynd úr Enbska garðinum fylgir hér.gar

Góðar almenningssamgöngur

Almenningssamgöngur eru frábærar í München og það kom manni sannast að segja á óvart hve ódýrar lestarsamgöngur voru en við skutumst yfir til Salzburg fyrir 25 evrur, þriggja manna hópur. Þá er vel hugsað fyrir hjólreiðafólk og heimamenn duglegir að nýta sér það. Það er lítil bílaumferð í miðborg München en mesta mannlífið er á svæðinu í kringum Marienplatz, sem hefur verið hjarta bæjarins síðan á 12. öld, en mikið lengri er nú ekki saga bæjarins. Við Marienplatz eru gamla og nýja ráðhúsið (Neues Rathaus) en arkitekt og útlit nýja ráðhússins vekur athygli. Það var byggt um aldamótin 1900 í gotneskum stíl. Áhrif þess eru hins vegar milduð með blómaskreytingum sem hanga við alla glugga húsins og gefa því merkilega hlýlegan blæ fyrir vikið. Stíll hússins hefur sjálfsagt stuðað marga þegar það var í byggingu enda varla í tengslum við stefnu og stíla þá en líklega vilja München-búar ekki hafa það öðru vísi í dag. Að hluta var notast við skeljastein sem gerir bygginguna ljósa yfirlitum en mynd af því fylgir hér. Turn ráðhússins er 85 metra hár og frægt klukkuspil skemmtir gestum og gangandi. Við enda Marienplatz má sjá sigurboga sem reistur var til minningar um það þegar Svíar hurfu á braut við lok 30 ára stríðsins sem lék þýskan almenning grátt á fyrri hluta 17. aldar. Pistlaskrifari veit um Þjóðverja sem enn bera kala til Svía vegna þessa. Já, Þjóðverjar eru langminnugir!munc

Þýskur matur

Pistlaskrifara gekk hins vegar bölvanlega að finna almennilega veitingastaði í München enda ekki hrifinn af matarmenningu þeirra Þjóðverja. Að því leyti reyndist mun auðveldara að finna áhugaverða veitingastað í Berlín sem er að mörgu leyti alþjóðlegri. En á þeim nótum má benda á að mannlífið reyndist ansi alþjóðlegt í München og líklega má sjá þar glögglega áhrif flóttamannastefnu Merkel sem nú mótar stjórnmálaástandið öðru fremur í Þýskalandi. München-búar eru ágætir heim að sækja. Þjóðverjar vilja gjarnan greiða götu fólks og telja það ekki eftir sér að koma með ábendingar, jafnvel umvandanir ef því er að skipta. Það venst fljótlega. Ekki verður annað séð en München-búar séu stoltir af uppruna sínum og hefur pistlaskrifari ekki í annan tíma séð jafn mikla notkun á þjóðbúningi eins og þar. Þetta var reyndar einnig reyndin uppi í Salzburg þar sem fólk klæðir sig í þjóðbúninginn fyrir gleðistund (happy hour!) eða þegar það fer á tónleika. Karlamegin eru það leðurbuxurnar (lederhosen) sem mynda kjarnann í karlmennskunni og gefur drengilegt yfirbragð! Þetta er bara skemmtilegur siður og augljóslega leggja veitingastaðir í München mikið upp úr þessu, jafnvel meira en matnum sjálfum.

München tók að þróast að því sem hún er í dag í upphafi 19. aldar og það var Lúðvík fyrsti sem hóf að byggja hana markvisst upp og gerði hana um leið að borg lista. Í borginni eru mörg söfn og margt áhugavert að skoða á því sviði. Borgin fór illa út úr loftárásum heimsstyrjaldarinnar síðari en hefur verið endurreist af miklum myndarskap. Engin háhýsi eru í miðborginni sem er farsæl niðurstaða.